12.01.1988
Neðri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3957 í B-deild Alþingistíðinda. (2748)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég hafði gaman af ræðu hv. síðasta ræðumanns þegar hann upplýsti að Ríkisútvarp/ sjónvarp ætlaði að hefna sín á Alþingi, eins og ég skildi það, með því að flytja ekki þætti frá Alþingi í sparnaðarskyni. Ég held að það sé með þeim fáu þáttum sem Ríkisútvarp/sjónvarp flytur sem ekki kosta neina peninga. Ef þeir ættu að fylla upp í það gat sem þá myndast og þann tíma sem fréttaflutningur frá Alþingi hefur átt sér stað yrðu það áreiðanlega þættir sem yrði að greiða fyrir. Það mundi kosta meira en það kostar að flytja þætti frá störfum Alþingis.

En það er eitt sem ég vildi gjarnan draga athygli að áður en ég kem að kjarna þess máls sem ég ætla að flytja hér og það er að það er ekki, ég undirstrika, það er ekki með vilja Borgarafl., það er ekki með vilja stjórnarandstöðunnar, svo langt sem ég veit, að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga, stjfrv., er ekki afgreitt að mér skilst áður en Alþingi fer í frí. Það þýðir, eftir þeim upplýsingum sem ég hef frá fulltrúa fjmrh. sem hér hefur setið í dag, um 400 millj. kr. tekjutap fyrir sveitarfélögin og er frestun sem kemur sér mjög illa við afgreiðslu fjárhagsáætlana sveitarfélaganna um land allt. Þetta er andstætt þeim vinnubrögðum sem stjórnarandstaðan hefur látið í ljós að hún vilji standa að. Síðan getum við deilt um hvort verkaskiptingin eins og hún er hugsuð af meiri hlutanum er rétt eða er röng. Það er annað mál. En stjórnarmeirihlutinn er að skaða sveitarfélögin um land allt með sínum vinnubrögðum.

Það sem ég ætlaði að draga athyglina að og mæla fyrir er sú brtt. á þskj. 509 sem hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir flytur, en eins og kom fram í upphafi hjá hæstv. forseta er hún veik í dag, hefur fjarvistarleyfi, og í hennar fjarveru mæli ég með brtt. hennar við frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1988 eins og hún birtist á þskj. 509. Hún er við 21. gr., um að greinin falli brott. Sú grein hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði laga nr. 64/1981, sbr. lög nr. 10/1985 og lög nr. 55/1986, um atvinnuleysistryggingar, skal heildarframlag ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs skv. 4. gr. fjárlaga eigi fara fram úr 500 millj. kr. á árinu 1988.“

Á fskj. með nál. á þskj. 499 um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1988 frá minni hl. fjh.- og viðskn. er skrá yfir framlög til sjóða 1988 og þar kemur fram að lögbundið framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs hefði átt að vera 600 millj. svo hér er um 100 millj. að ræða. En út af fyrir sig má segja það tímaeyðslu að vera að tala um þetta því að hvernig sem allt fer og veltist verður ríkissjóður að standa skil á því sem Atvinnuleysistryggingasjóður þarf á að halda þannig að þetta er ein blekkingin til viðbótar sem ríkissjóður er að leika þarna til að sýna betri útkomu og meiri niðurskurð og skiptir úr af fyrir sig engu máli.

Þá vil ég lýsa stuðningi mínum við brtt. hv. þm. Kjartans Jóhannssonar og Guðmundar G. Þórarinssonar á þskj. 503. Ég vil líka lýsa stuðningi mínum við brtt. þeirra við sína eigin brtt. eins og hún kemur fram á þskj. 508 þó ég hefði talið eðlilegt að þessi brtt. hefði haft samþykki eins ráðherra í viðbót til að hafa samkomulagið traustara. Mér skilst að brtt. við brtt. sé til að ná samkomulagi við hæstv. forsrh. sem var í fýlu út af 1. brtt. og hefði sú brtt. átt að hljóða þannig að á eftir orðunum „fjármálaráðherra“ komi: samgönguráðherra og forsætisráðherra. Skiptir mig engu máli hvort forsrh. er þar með eða ekki. Ég lýsi stuðningi mínum við till.