12.01.1988
Neðri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3959 í B-deild Alþingistíðinda. (2751)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það má leyfa sér að segja að manni detti í hug að það sé vegna þess að þessar tvær dýrategundir séu í einhverju sérstöku uppáhaldi hjá hæstv. ríkisstjórn, ég tala nú ekki um skyldleika, að það er lagt til að framlög ríkisins til að standa straum af eyðingu þessara meindýra falli niður sem opinber framlög. Hér er um það að ræða að smávægilegur útgjaldaliður í heildardæmi ríkisins upp á 34 millj. kr. færist, ef illa tekst til, yfir á fámennustu, fátækustu og strjálbýlustu sveitahreppa landsins. Þó að víða sé talsvert af naglarskap í fjárlögum og efnahagsmálaráðstöfunum hæstv. ríkisstjórnar held ég að þarna sé garðurinn einna lægstur. Ég tel það auðvitað alveg fráleitt að setja þessi mál í óvissu þar sem ekki er búið að ganga frá því frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem e.t.v. á að leysa þetta mál og tel því eðlilegast að þessi grein sé felld út úr lánsfjárlögum og segi nei.