12.01.1988
Neðri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3960 í B-deild Alþingistíðinda. (2753)

Frumvarp til lánsfjárlaga

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég spyr forseta hvaða nauðsyn beri til að bregða út af venjulegum fundartímum við afgreiðslu þessa máls. Ég sé ekki annað en með eðlilegum hætti megi ætla að frv. geti orðið að lögum frá Ed. síðla dags á morgun eða annað kvöld, í síðasta lagi á fimmtudag, og ég sé ekki ástæðu til þess að það sé verið að bregða frá venjulegum fundatíma. Hér hafa mál gengið fram með eðlilegum hætti og engin ástæða er til að ætla annað en þau geri það einnig á morgun. Ég vil minna á að það var kvartað yfir því hér í umræðum í dag að ýmsir hæstv. ráðherrar, sem menn hefðu haft áhuga á að eiga orðastað við, voru ekki viðstaddir umræðuna. Ég teldi eðlilegt að 3. umr. færi fram á eðlilegum fundatíma á morgun og það yrði séð til þess að hæstv. ríkisstjórn, eftir því sem kostur væri, væri þá mætt til þingstarfanna þannig að það gæti greitt fyrir eðlilegri afgreiðslu málsins.