13.01.1988
Neðri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3962 í B-deild Alþingistíðinda. (2757)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég var að hugsa um að fá það upplýst áður en ég hef mál mitt hverjir hæstv. ráðherrar hafa fjarvistarleyfi. (Forseti: Þeir ráðherrar sem hafa fjarvistarleyfi eru hæstv. iðnrh. og hæstv. menntmrh. er hér inni með varamann. Aðrir ráðherrar hafa ekki fjarvistarleyfi. Ég get upplýst að hæstv. heilbrrh. mun vera hér i húsinu samkvæmt mínu bókhaldi. Aðra ráðherra hef ég aðvarað um að þeirra sé vænst hingað til fundar.)

Herra forseti. Ég vildi bara svona halda þessu til haga eins og ég hef gert undanfarna daga. (Forseti: Eins og hv. ræðumaður sér er hæstv. fjmrh. mættur þó að mér hafi láðst að tilkynna að hann væri hér í húsinu og sömuleiðis mun hæstv. félmrh. vera hér og mun vafalaust koma til fundar.)

Ég hef nokkrum sinnum áður, herra forseti, eins og forseta rekur eflaust minni til, gert athugasemdir við það að svo virðist sem ríkisstjórnin sé gufuð upp eða hafi sagt af sér eða í öllu falli sé hætt að taka þingskyldur sínar alvarlega því að hér hafa fundir staðið dögum og jafnvel vikum saman án þess að sjáist nema í mesta lagi við og við sá hæstv, ráðherra sem dagskrármálið heyrir undir þá og þá og hverju sinni.

Hér er til umræðu frv. til lánsfjárlaga sem er eðli málsins samkvæmt þannig vaxið að það snertir meira og minna málaflokka sem allir ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn fara með eða a.m.k. flestir þeirra og ég hef því gert þá kröfu áður að þeir hæstv. ráðherrar sem hér eiga mikið undir eins og hæstv. landbrh., hæstv. félmrh., og svo má áfram telja, væru viðstaddir þessa umræðu eða reyndu að vera viðstaddir hana. Ég tel að það séu tvö þingmál á hverju þingi sem sérstaklega hagi til um og eðlilegt sé að óska þess að viðkomandi fagráðherrar séu við. Það eru fjárlög og lánsfjárlög og að sjálfsögðu held ég uppteknum hætti mínum og ítreka þessa þinglegu ósk að ráðherrarnir séu viðstaddir umræðuna.

Ég ætlaði að fara fáeinum orðum um þetta mál í heild sinni hér í lokin áður en það hverfur úr deildinni eftir allnokkra viðdvöl. Hér gerðust í gær við atkvæðagreiðslu þeir atburðir, svo sem áður hefur komið fyrir, að lagfæringartillögur minni hl. eða stjórnarandstöðunnar voru felldar. Það var ekki komið til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar í neinu. Samt var ekki aðhaldið meira en svo hjá hæstv. ríkisstjórn að erlendar lántökur hafa vaxið í meðförum þingsins í þessari lánsfjáráætlun um meira en milljarð kr. og nýjar erlendar lántökur komu inn í brtt. í gær upp á 200 millj. kr. Heimild Byggðastofnunar til að taka 200 millj. kr. meiri lán heldur en áður hafði verið gert ráð fyrir og ýmsar skammtímaskuldir, sem ég geri ekki ráð fyrir að hafi verið inni í áætlunum um erlendar lántökur fram að þessu, eru nú komnar inn og heimildir fyrir langtíma lántökum og væntanlega verður þar um aukningu á erlendum skuldum að ræða þar sem skammtímaskuldirnar hafa ekki áður komið inn í bókhald að þessu leyti. Samt var aðhaldið slíkt þrátt fyrir þennan milljarð og 200 millj. til Byggðastofnunar að það var ekki unnt að koma til móts við sjónarmið stjórnarandstæðinga og reyndar stjórnarsinna sumra hverra sem tóku undir það að Ferðamálaráði t.d. veitti ekki af fáeinum milljónum króna í viðbót til að sinna umhverfismálum og öðrum tengdum verkefnum. Þannig er nú forgangsröðunin hjá hæstv. ríkisstjórn og naglaskapurinn þegar við á, þegar hæstv. ríkisstjórn þykir það í lagi, er með þessum hætti.

Sömuleiðis voru að mínu mati mjög skynsamlegar tillögur um að auka ráðstöfunarfé Hafnabótasjóðs felldar og tillagan um Ríkisútvarpið, en þar skal þó enn reynt til þrautar að bjarga einhverju í land og gefst hv. þm. tækifæri á að greiða atkvæði eftir 3. umr. um brtt. um þó nokkra lagfæringu á högum Ríkisútvarpsins frá því sem lagt er til í frv.

Forsendur frv. verða með hverjum deginum hjákátlegri. Eftir því sem meiri upplýsingar koma fram á byrjuðu ári um efnahagsástand og efnahagshorfur verður það auðvitað hjákátlegra næstum að segja með hverri klukkustund að vera að afgreiða lánsfjárlög þar sem gert er ráð fyrir 10% verðbólgu á árinu og 7% launahækkun svo að dæmi séu tekin, þar sem gert er ráð fyrir því að erlendar lántökur fjármögnunarleiga verði ekki nema 800 millj. kr. á árinu 1988. Hvernig stóð þetta á árinu 1987? Það fór þannig á árinu 1987, eftir því sem upplýsingar eru nýframkomnar um, að erlendar lántökur einkaaðila fóru 4250 millj. kr. fram úr lánsfjárlögum ársins 1987, þar af stór hluti í gegnum fjármögnunarleigurnar. Hér stendur í fylgiskjali á bls. 7 að horfur ársins 1987 séu þær að fjármögnunarleigurnar færi inn í landið erlend lán fyrir 2 milljarða. Er þá raunhæft að gera ráð fyrir því að lántökur í gegnum þessa aðila verði ekki nema 800 millj. á þessu ári? Auðvitað ekki. Þegar efnahagssérfræðingar Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar og fleiri bankamenn bera það fyrir fjh.- og viðskn. að engin ástæða sé til að ætla að ásókn í erlendar lántökur í gegnum fjármögnunarleigur minnki á þessu ári. Ef eitthvað, aukist þær og skipta þar engu þær reglur sem settar voru á sl. hausti að öðru leyti en því að þær munu sennilega leiða til hærri vaxta innan lands og var þó ekki á bætandi vegna þess að fjármögnunarleigurnar þurfa að sækja út á hinn innlenda lánsfjármarkað 30-40% af því fé, á móti því fé sem þær taka að láni erlendis og það munu þær að sjálfsögðu gera með því að yfirbjóða aðra aðila á þeim markaði. Það væri gaman ef hæstv. fjmrh. væri tilbúinn að koma hér upp og lýsa skoðun sinni á því hvort líklegt sé að erlendar lántökur fjármögnunarleiga á árinu 1988 verði ekki nema 800 millj. kr. ef ekki stendur til að gera neinar ráðstafanir um þessa aðila. Að vísu mun hæstv. forsrh. hafa hugsað sér að skipa nefnd í málið, en það höfum við heyrt áður og það er ekki víst að það hafi óskaplega mikil áhrif á ásóknina í erlendar lántökur í gegnum þessa aðila þó að það sé skipuð einhver nefnd og hún setjist niður yfir skýrslum einhvers staðar úti í bæ.

Nú eru upplýsingar að koma fram um hinn endanlega viðskiptahalla á árinu 1987. Hann verður trúlega fast að 5 milljarðar kr., meira en tvöfalt meiri en áætlað var. Og hvernig eru horfurnar á árinu 1988? Samkvæmt glænýrri spá eða skýrslu frá Vinnuveitendasambandi, sem ég hef að vísu enn haft mjög takmarkaðan tíma til að kynna mér en einhverjar fregnir eru af núna í blöðum, reikna þeir vísu aðilar með því að viðskiptahallinn á næsta ári verði 9–10 milljarðar. Það er dálaglegur viðskiptahalli í góðærinu, það er býsna myndarlegt hlutfall af þjóðartekjunum eða niðurstöðutölu fjárlaga svo að annað dæmi sé tekið.

Allar þessar staðreyndir ganga í þveröfuga átt við þær sem lagðar eru til grundvallar þessum lánsfjárlögum. Forsendur frv. eru svo gersamlega hrundar að mér er til efs að í háa herrans tíð ef þá nokkurn tíma hafi verið afgreitt annað eins sýndarmennskuplagg sem tengist efnahagsmálunum eins og þetta lánsfjárlagafrv. Það er svo algerlega hrunið, allt sem þar stendur.

Ef að líkum lætur verður verðbólga einhvers staðar á bilinu 30–50% á Íslandi á þessu ári. Það eru sáralitlar líkur á því, a.m.k. ekki ef maður virðir fyrir sér hæstv. ríkisstjórn, að niðurstaðan geti orðið önnur. Hæstv. ríkisstjórn þegir þunnu hljóði um alla stærstu drætti efnahagsmálanna, um vaxtamál, um gengismál, um erlendar lántökur, hvaða nafni sem það nefnist þegir hæstv. ríkisstjórn þunnu hljóði og gefur ekkert upp um stefnu sína eða fyrirhugaðar aðgerðir á því sviði.

Hæstv. fjmrh. er ekki málhaltur maður að öllu jöfnu og enginn hefði trúað því fyrir ári síðan að hann sæti jafnþegjandi dögum og vikum saman hér á Alþingi eins og raun ber nú vitni, sá sem var manna glaðastur hér í ræðustólinn á síðasta þingi og oft áður til að ræða efnahagsmál, til að ræða vexti, til að ræða skattamál, verðbólgumál og hvað eina. Nú þegir hæstv. ráðherra þunnu hljóði þrátt fyrir það að fjölmiðlar landsins eru fullir af fréttum og vangaveltum um stöðu þjóðarbúsins, um horfur í efnahagsmálum og stærsta spurningin, feitletraða spurningin í nánast öllum tilfellum er: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Eða ætlar hún eitthvað að gera? Úti á vinnumarkaðinum halda menn að sér höndum. Þar eru kjarasamningar lausir en menn halda eðlilega að sér höndum því að enginn heilvita maður gengur til kjarasamninga og lokar kjarasamningum við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagsmálunum nema til þess að þeir séu þá helst hvort tveggja, til skamms tíma og verðtryggðir og bundnir í báða skó. Allar þessar staðreyndir blasa við. En hæstv. fjmrh. og aðrir aðilar í ríkisstjórn segja ekki eitt einasta orð um hvað þeir ætlist fyrir þegar efnahagsmálin eru til umræðu á Alþingi. Það er einhver aumingjalegasta frammistaða sem ég hef nokkurn tíma vitað.

Nú ætla ég að leggja spurningu fyrir hæstv. fjmrh., ég ætla að prófa það og vita hvaða áhrif það hefur að leggja bara eina spurningu fyrir hæstv. fjmrh., tölusetta spurningu, nr. eitt: Ef ríkisstjórnin ætlar sér að halda genginu föstu — þetta er spurningin, hæstv. fjmrh. — ef ríkisstjórnin ætlar sér að verja gengið, halda því föstu, hvaða ráðstafanir eru þá á döfinni til þess að tryggja rekstrarstöðu útflutningsatvinnuveganna? Hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstjórnin gera í vaxtamálum og öðrum þeim málum sem óhjákvæmilega hljóta að tengjast möguleikunum á því að halda genginu föstu?

Ég ætla að hafa þessa spurningu bara eina, herra forseti, tölusetta, þetta er fyrsta spurningin og vita hvaða áhrif það hefur á hæstv. fjmrh. Þá ætti ekki að vera nein sérstök ástæða til þess að hæstv. ráðherra ruglist neitt í ríminu, að spurningarnar verði svo margar að það þvælist neitt fyrir honum, og þetta ætti að vera tiltölulega einfalt mál. Ég held að það sé varla hægt að vera hógværari í kröfu sinni til hæstv. fjmrh. hér við þriðju og síðustu umræðu lánsfjárlaganna í þessari deild en að ætlast til þess að hann svari einni einustu spurningu.