13.01.1988
Neðri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3966 í B-deild Alþingistíðinda. (2762)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Forsendur þessa plaggs, frv. til lánsfjárlaga, eru löngu hrundar og plaggið er því ómerkt með öllu. Hæstv. ríkisstjórn veit ekki sitt rjúkandi ráð eins og kom glöggt fram hér áðan við 3. umr. þegar hæstv. fjmrh., sá vígreifi maður og ágætlega máli farinn ræðumaður hér á Alþingi gegnum tíðina, þagði þunnu hljóði og treysti sér ekki í ræðustólinn til að svara einni einustu spurningu sem hann var spurður að, tölusettri og vandlega útskýrðri fyrir honum, hæstv. ráðherra, varðandi gengið. Hæstv. ráðherra hafði sig ekki í stólinn. Það er dæmigert og mjög lýsandi fyrir ástandið í hæstv. ríkisstjórn að enginn talsmaður ríkisstjórnarinnar treystist til þess að taka þátt í umræðum um horfur í efnahagsmálum og stöðu þeirra mála nú á Íslandi fyrir miðjan janúarmánuð þegar verið er að afgreiða frv. til lánsfjárlaga.

Ég vil, herra forseti, við þessa afgreiðslu segja mig algjörlega frá þessu plaggi, með öllu, og hvítþvo hendur mínar af því að koma nálægt svona sýndarmennsku eins og afgreiðsla þessa löngu hrunda lánsfjárlagafrv. er. Mér væri auðvitað skapi næst að segja nei við svona vitleysu en ætla að halda mig við það sem áður hefur verið rætt um að láta ríkisstjórnina sitja uppi með ábyrgðina af þessu eina og greiði því ekki atkvæði.