13.01.1988
Neðri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3968 í B-deild Alþingistíðinda. (2767)

Frumvarp um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. 12. þm. Reykv. að hér er nokkuð óvanaleg málsmeðferð á ferðinni, en við hljótum að fagna því sem höfum verið að andæfa í þessu illa undirbúna máli af hálfu ríkisstjórnarinnar, máli sem nú hefur á ný verið vísað til nefndar. Ég hef aðeins það um þessa málsmeðferð að segja að það hefði verið betur að fyrr hefði verið brugðið á það ráð, eins og raunar var lagt til af minni hl. félmn., að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar til betri úrvinnslu. Nú væntum við þess að það komi í öðrum búningi hér inn í þingið að loknu þinghléi.