13.01.1988
Neðri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3969 í B-deild Alþingistíðinda. (2772)

Frumvarp um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Vegna þeirra orða sem féllu frá forseta sjálfum um að á þeim tíma sem liðinn er og hefur verið annatími yfir jólahátíðina hefði aðeins verið hægt að taka fyrir stór mál vil ég segja það að þegar launavísitalan er tekin úr sambandi er það stórmál. Þegar lánskjaravísitalan heldur áfram er það stórmál og frv. sem hv. 3. þm. Suðurl. flytur er stórmál og hefði átt að koma á dagskrá þingsins við afgreiðslu fjárlaga eða efnahagsmála. Og ég harma það að það skuli ekki hafa komið á dagskrá. Það er mjög stórt og áríðandi mál.

Ég vil endurtaka, hæstv. forseti, það sem ég gat um hér í ræðu fyrr á þessu þingi að ég sem fjmrh. gerði tilraun hvað eftir annað með stuðningi eins til tveggja ráðherra á sínum tíma í ríkisstjórninni til þess að fá skilning á að fella niður lánskjaravísitöluna, en það tókst ekki. Ég lagði þá fram í ríkisstjórn og ég gat hér á Alþingi um það að maður sem tók 80 þús. kr. lán, ég er hérna með seðilinn . . . (Forseti: Ég vil minna hv. ræðumann á að hér eru aðeins til umræðu þingsköp). Ég held mig við þingsköp. (Forseti: Ég minni á það.) Hann tekur 80 þús. kr. 1980. Hann skuldar, eftir að hafa staðið í skilum bæði með vexti og afborganir, 539 þús. kr. 1985. Það er stórmál fyrir fólkið í landinu að fá þetta mál tekið fyrir og rætt og það átti auðvitað að ræða það með öðrum efnahagsmálum fyrir áramót.