13.01.1988
Efri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3984 í B-deild Alþingistíðinda. (2780)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Vegna þess sem hv. 7. þm. Reykv. sagði áðan varðandi hæstv. fjmrh. finnst mér sjálfsagt og eðlilegt að verða við þeim óskum hans að hæstv. fjmrh. verði með okkur á kvöldfundi. Hins vegar háttaði þannig til að ráðherra hafði ekki, held ég, reiknað með fundi í þessari deild á þessum tíma þannig að hann var í beinni útsendingu í útvarpsþætti sem lauk rétt fyrir kl. 18 og hann var búinn að lofast til að taka þátt í beinni útsendingu í sjónvarpi sem byrjar eftir um það bil klukkutíma og átti óhægt með að víkjast undan því, en mér finnst sjálfsagt að orðið verði við þessari ósk.

Ég vildi hér, herra forseti, víkja fyrst að því máli sem hv. 7. þm. Reykv. ræddi nokkuð ítarlega áðan varðandi skýrslu starfshóps sem hæstv. félmrh. skipaði til að gera tillögur um úrlausn vandamála vegna ammoníaksgeymis Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi. Hér er vissulega um alvarlegt mál að ræða og hefur verið allar götur frá því að þessi verksmiðja var byggð. Þetta er mál sem krefst skjótra úrbóta og um það er áreiðanlega enginn ágreiningur, hvorki hér á hinu háa Alþingi né innan ríkisstjórnarinnar. Það get ég fullyrt.

Það er líka svo í þessu máli að það er umhugsunarefni hverjar ákvarðanir Reykjavíkurborg hefur tekið varðandi íbúðarbyggð í grennd við þessa verksmiðju og raunar mætti e.t.v. segja að það væri ámælisvert hversu nálægt verksmiðjunni hefur verið byggt. Ég greindi frá því á fundi fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar fyrr í dag að þetta mál væri til athugunar í ríkisstjórninni og ekki bara til athugunar heldur til ákvarðana og aðgerða. Á fundi ríkisstjórnarinnar í gær lagði hæstv. félmrh., sem nú er hér stödd í deildinni þannig að hún getur svarað fyrir þau mál, en í örstuttu máli vildi ég að það kæmi fram, að félmrh. lagði í ríkisstjórninni í gær fram tillögur eða valkosti um það sem gera ber í þessum efnum. Það er þá í fyrsta lagi að verksmiðjan verði beinlínis lögð niður af öryggisástæðum, einkum vegna hættunnar sem er samfara staðsetningu hennar, og í öðru lagi að Áburðarverksmiðju ríkisins verði gert skylt að fara þegar í stað að tillögum starfshópsins sem fram koma í skýrslunni og fela í sér þau atriði sem þar eru greind. Ég greindi frá því á fundi nefndarinnar að þessi mál væru í mjög gaumgæfilegri og ítarlegri athugun og til ákvörðunar hjá ríkisstjórninni og verða rædd í ríkisstjórninni í fyrramálið. Engu að síður kusu þrír hv. þm. að leggja fram till. um ákveðna lánsheimild til handa Áburðarverksmiðjunni til að bæta hér úr.

Ég held að á þessu stigi málsins sé ekki tímabært að samþykkja þessa tillögu, ekki vegna þess að nokkur maður hér sé andvígur því efnislega sem tillagan fjallar um heldur vegna þess að sú leið sem starfshópurinn mælir með í skýrslunni mun ekki hafa verið reynd áður og raunar talið að ekki komi í ljós fyrr en lagt hefur verið í töluvert mikinn hönnunarkostnað hvort þessi leið er tæknilega fær eða hvort fara verður aðra leið og dýrari. Það er enginn ágreiningur um að gæta hér fyllsta öryggis íbúanna og allra á svæðinu. Spurningin er bara sem liggur ekki alveg ljós fyrir á þessu stigi málsins: Með hvaða hætti verður það best og tryggast gert. Það mál er nú í ítarlegri athugun. Vel má vera að það komi í ljós að gera þurfi töluvert kostnaðarsamari breytingar til að tryggja fyllsta öryggi en þessi tillaga hv. þriggja þm. gerir ráð fyrir, þ.e. að breytingarnar kosti verulega meira en 30 millj. Ég held þess vegna að það sé ekki tímabært á þessu stigi að taka afstöðu með þessum hætti með afstöðu lánsfjáráætlunar og mælist til þess að hv. þm. dragi þessa till. til baka að sinni, en við sameinumst síðan um, þegar búið er að ákveða hvernig skynsamlegast er að bregðast við, sé þess þörf, að afgreiða snarlega frv. um lánsheimild, þ.e. ef ekki er unnt að leysa þetta mál með öðrum hætti. En það liggur einfaldlega ekki fyrir á þessu stigi hvað sé best, skynsamlegast og öruggast að gera í þessari stöðu. Þess vegna ítreka ég þau tilmæli að hv. þm. kalli þessa till. til baka nú við þessa umræðu og við sameinumst síðan um, ef málið þarf að koma til kasta Alþingis, að afgreiða það hið skjótasta. Ég er alveg sannfærður um að um mál af þessu tagi er ekki hinn minnsti ágreiningur, hvorki hér né í ríkisstjórninni þar sem um málið verður fjallað í fyrramálið eins og ég áður sagði.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð á þessu stigi, en ég undirstrika að í skýrslu Vinnueftirlitsins, sem hv. 7. þm. Reykv. las ítarlega úr áðan, eru líkur á miklum leka í ammoníaksgeyminum „taldar mjög litlar“. En þó er ekki unnt að útiloka slíkt.

Ég held að það sé ekki rétt að nota þetta mál til að hræða'eða skelfa fólk á þessu svæði. Ég held að það sé beinlínis ámælisvert. Hins vegar er um mjög alvarlegt mál að ræða sem ráða verður bót á hið allra fyrsta og um það er, eins og ég áður sagði, ekki nokkur minnsti ágreiningur. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta vegna þess að hæstv. félmrh. er í deildinni og hún bætir þá væntanlega við það sem á kann að vanta í mínum málflutningi og hefur fyllri upplýsingar um málið.

Hv. 7. þm. Reykv. ræddi málefni Ríkisútvarpsins og vitnaði þar m.a. í málflutning minn og ræður sem ég hef flutt á undanförnum þingum um þá ágætu stofnun. Mér þótti í rauninni vænt um að hann skyldi gera það. Hann gerði það ekki við fyrri umræðu málsins hér. Honum hefur sjálfsagt verið þetta lítt kunnugt fyrr en flokksbróðir hans, hv. 2. þm. Austurl., rifjaði það upp í ræðu í umræðum í Nd. og hann fylgir því síðan eftir hér og það er auðvitað af hinu góða. Um þetta sé ég mig knúinn til að hafa fáein orð.

Hann minntist á þann hátt sem hafður er á í lánsfjárlögum þar sem segir í Il. kafla laganna að þrátt fyrir ákvæði nefndra laga þar, og síðan er talin upp hver löggjöfin á fætur annarri, skuli hlutum hagað með öðrum hætti en þar segir. Ég spurði hæstv. fjmrh. og núv. hæstv. forsrh. að því haustið 1986 hvort honum þætti þetta góð lögfræði. Þetta rifjaði hv. þm. Svavar Gestsson allt upp áðan. Hæstv. þáv. fjmrh. viðurkenndi að þetta væri vond lögfræði. Ég er enn alveg sama sinnis. Mér finnast þetta ekki góð vinnubrögð. Mínar skoðanir á því hafa ekki breyst.

Ég get tekið undir margt af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði um Ríkisútvarpið og raunar sagt ýmislegt fleira og kannski tekið sterkar til orða. Hann lét þess svo mjög lofsamlega getið að sá er þetta mælir væri einn af áhrifamönnunum í núverandi stjórnarsamstarfi. Svo er kannski ekki mjög. Hitt er það að málefni þessarar stofnunar, Ríkisútvarpsins, heyra ekki undir minn flokk eða ráðherra míns flokks í ríkisstjórninni. Ef svo hefði verið hefði aðstaða mín til að beita mér í þessu máli verið önnur. Ég ætla ekkert að gera lítið úr áhuga hæstv. menntmrh. á vexti og viðgangi Ríkisútvarpsins. Mér er það hins vegar mætavel ljóst að innan Sjálfstfl. og í forustu hans kannski eru ráðandi menn sem ég hef á tilfinningunni að vilji hlut Ríkisútvarpsins ekki mjög stóran og kannski sem minnstan. Kannski mun einhver hv. þm. segja að hér sé um sleggjudóma að ræða (Gripið fram í.) og það má kannski gefa því það nafn. Þetta er fremur tilfinning eins og ég sagði hér áðan. En ég veit að þeir menn eru til innan Sjálfstfl. sem hafa engan áhuga á vexti og viðgangi Ríkisútvarpsins og það veit hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson mætavel líka. Ég veit hins vegar að hann er ekki einn af þeim. Mér er það mætavel ljóst. En við vitum báðir að þessir menn eru til. Ég hygg að það hafi kannski komið glöggt fram í umræðum á hinu háa Alþingi á sínum tíma um Ríkisútvarpið og ný útvarpslög hverjir þetta eru. Og ég hygg að til þess að nafngreina þá geti menn flett þingtíðindunum og það getum við gert einhvern tíma í sameiningu, við hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Ég hugsa að okkur greini ekki á í þeim efnum.

Ég viðurkenni fúslega að mér þykir mjög miður í núverandi stjórnarsamstarfi, og það er eitt af því sem mér fellur einna laklegast þar, hversu lítill og rýr hlutur Ríkisútvarpsins er og hversu mjög hefur verið gengið á þess hlut. Við skulum vera þess minnug að þegar útvarpslögin voru samþykkt var Ríkisútvarpinu tryggður tekjustofn. Þegar síðan var búið að opna allar fjölmiðlagáttir um víða vegu og sýnt var að auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins myndu skerðast verulega var stofnunin svipt þessum tekjustofni sem voru aðflutningsgjöld af sjónvarps- og útvarpstækjum.

Nú er það hins vegar svo að útvarpslög hin nýju eru í endurskoðun og því var það við atkvæðagreiðslu um lánsfjárlög hér í þessari hv. deild varðandi þessa grein lánsfjárlaganna er fjallar um Ríkisútvarpið að ég gerði grein fyrir mínu atkvæði með eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

„Við afgreiðslu lánsfjárlaga undanfarin ár hef ég oft vakið athygli á því að mjög væri gengið nærri Ríkisútvarpinu. Ég er sömu skoðunar enn, en þar sem verið er að endurskoða útvarpslög treysti ég því að sú endurskoðun muni leiða til þess að Ríkisútvarpinu verði tryggður bærilegur rekstrargrundvöllur og því segi ég já.“

Þessi endurskoðun stendur yfir. Henni er ekki lokið og ég leyfi mér enn að setja traust mitt á að hún muni leiða til þess að þessi stofnun fái öruggari grundvöll að starfa á.

Við skulum ekki gleyma því að Ríkisútvarpið/sjónvarp hefur t.d. fengið samkeppni, hefur fengið keppinaut sem að mörgu leyti hefur staðið sig vel um ýmsa hluti, það skal ég fyrstur manna viðurkenna, gert ýmsa góða hluti. Þessi aðili, Stöð 2, hefur hins vegar sjálfdæmi um hverju verði hún selur sínum áskrifendum sína þjónustu. Það hefur Ríkisútvarpið ekki. Á þessu er reginmunur. Þess vegna hef ég hneigst æ meira til þeirrar skoðunar að það þurfi að gera róttækar breytingar á skipulagi Ríkisútvarpsins. Ég ætla ekkert að fara út í það, sem hv. 7. þm. Reykv. var að víkja að áðan, að þar hefðu menn farið býsna frjálslega með fé og eytt kannski umfram efni. Það má vel vera og hefur sjálfsagt gerst þar í ýmsum deildum og raunar örugglega að menn hafi þar farið fram úr áður gerðum áætlunum. Það er ég alveg viss um og þarf ekki að líta langt til að vita það.

Ég held hins vegar að það sé tími til kominn í ljósi breyttra aðstæðna að athuga um grundvallarbreytingar á rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins. Ég held t.d. að það ætti að íhuga mjög gaumgæfilega og satt best að segja er mér ekki kunnugt um hvort útvarpslaganefndin hefur fjallað um það mál eða tekið afstöðu til þess að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun sem hafi meira fjárhagslegt svigrúm og jafnframt meiri fjárhagslega ábyrgð en innan þessa stífa ríkiskerfis og verandi fangi ákvarðana annarra um afnotagjöld og tekjur. Ég held að það sé kominn tími til að losa þessa stofnun úr þessum viðjum og taka þar upp gerbreytt fyrirkomulag með einhverri aðild, eftirliti eða umsjón almannahagsmuna. Ríkisútvarpið hefur útvarpsráð sem er þingkjörið og er ekki stjórn stofnunarinnar heldur fyrst og fremst dagskrárstjórn, en er mjög mikilvægur aðili um allt aðhald, jákvæða gagnrýni og að því er varðar dagskrá stofnunarinnar. Ríkisútvarpið er ekki aðeins mesta byggðastofnun þjóðarinnar. Það er mesta öryggistæki þjóðarinnar og það er einhver mesta menningarstofnun þjóðarinnar. Þetta á við um bæði hljóðvarp og sjónvarp. Þetta eru þjóðarleikhús og þjóðarmenningarstofnanir. Ég get ekki stillt mig um segja frá að síðdegis í gær hlustaði ég á framkvæmdastjóra sænska sjónvarpsins segja hópi norrænna blaðamanna frá þeirra starfsemi, þeirra menningarstarfsemi og þeirra leikritagerð. Þannig var að þeir höfðu gert samning við leikhús, Dramaten held ég, um að flytja beint af sviði til áhorfenda, eins og gert er hér í sjónvarpinu, leikrit, en það höfðu sænskir leikarar og leikstjórar aldrei viljað fallast á.

Þeim hafði tekist að gera samning um þetta, en þegar til átti að taka höfnuðu leikararnir því að flytja leikritin beint af sviði leikhússins inn á sænsk heimili fyrir tilstilli sjónvarpsins. Þetta leikrit var sýnt í tiltölulega litlum sal og hann sagði við okkur, þessi sjónvarpsstjóri: Vitið þið hvað það hefði tekið mörg ár að fá í leikhúsið jafnmarga áhorfendur og sjónvarpið hefði haft að þessu leikriti á einu kvöldi, hve mörg ár það hefði tekið í sýningum, væntanlega á hverju kvöldi? Þá sem voru á þessum fundi setti hljóða og síðan svaraði hann: Það hefði tekið 100 ár. Það er svona áhrifaríkt tæki sem Ríkisútvarpið/ sjónvarp og Ríkisútvarpið/hljóðvarp er fyrir utan öryggisþáttinn sem við megum aldrei gleyma.

Við eigum núna í baráttu, menningarbaráttu. Á okkur sækja erlend áhrif, einkum á íslenska tungu, í mjög vaxandi mæli. Þetta er ekki bara okkar mál. Þetta gerist líka hjá öðrum smáþjóðum og þá tel ég Norðurlandaþjóðirnar allar í hópi smáþjóða. Hér hefur Ríkisútvarpið gífurlegt verk að vinna sem ekki má vanrækja og hér hefur Ríkisútvarpið mikið hlutverk sem okkur ber að rækja og rækta með því m.a. að verja auknu fé til innlendu dagskrárgerðarinnar og þá ekki síst dagskrárgerðar fyrir börn og unglinga sem eru allra manna iðnust við að horfa á sjónvarp og hlusta á útvarp.

Hér er í rauninni, herra forseti, um miklu stærra mál að ræða en svo að það gerist undir umræðum um lánsfjárlög, en vegna ummæla hv. 7. þm. Reykv. fékk ég ekki orða bundist og vildi þess vegna láta þetta fram koma. Það er í rauninni sorglegt að á Alþingi Íslendinga skuli umræða um Ríkisútvarpið, hlutverk þess, starfsemi og framtíð ævinlega fara fram sem einhvers konar útskot frá öðrum málum. Ef vel ætti að vera ætti hæstv. menntmrh. árlega að leggja skýrslu um Ríkisútvarpið fyrir Alþingi og síðan ættum við á hinu háa Alþingi að taka okkur góðan tíma til að ræða hann. Menn ræða hér nefnilega í löngu máli ýmis ómerkari mál en það.

Ég skal ekki, herra forseti, lengja þessa umræðu miklu meira en orðið er. Ég held að það sé brýnt að málefni séu rædd hér í góðu tómi og raunar stefna okkar í fjölmiðlum í þessu þjóðfélagi, hvaða stefnu við viljum fylgja fram. Við erum á eins konar gerjunarskeiði núna. Það hafa gerst mjög miklar breytingar. Það hefur verið hrært upp í pottinum, en það á eftir að setjast til. Gruggið á kannski eftir að falla til botns og það tæra að verða eftir. Það er áreiðanlegt að þær breytingar sem átt hafa sér stað að undanförnu á íslensku fjölmiðlasviði, sérstaklega á sviði ljósvakamiðlanna, eru hreint ekkert um garð gengnar. Þær eru kannski rétt að byrja.

Mínar skoðanir varðandi hlutverk og mikilvægi Ríkisútvarpsins eru óbreyttar frá því sem ég hef kynnt úr ræðustól á hinu háa Alþingi á undanförnum árum. Og ég ítreka að mér þykir miður að ekki skuli hafa reynst unnt að gera hlut þessarar mikilvægu stofnunar betri. En ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að ég held að það sé tímabært fyrir okkur að íhuga grundvallarbreytingar á rekstrarfyrirkomulagi

Ríkisútvarpsins og losa það örlítið meira úr þeim viðjum sem það hefur svo lengi verið í en ekki hafa endilega alltaf verið af hinu illa. Ég held að í ljósi breyttrar aðstöðu, í ljósi breytts umhverfis á sviði fjölmiðlunar sé nauðsynlegt að taka þetta til endurskoðunar, ekki bara að sníða hina augljósu agnúa af útvarpslögunum heldur að gera miklu meira og sjá svo um að í okkar menningarlífi, í okkar þjóðlífi og að því er varðar öryggismál skipi þessi stofnun þann sess, sem henni ber, að hún geti rækt hlutverk sitt um innlenda dagskrárgerð og síðast en ekki síst að hún geti rækt það meginhlutverk sitt að vinna að vexti og viðgangi íslenskrar menningar og stuðla að viðhaldi íslenskrar tungu, stuðla að því að hér sé talað og ritað gott mál svo sem var og vonandi áfram verður. En til þess þurfum við að gera meira en gert hefur verið og þá er ég ekki að tala um undanfarin missiri heldur nokkuð langan tíma. Ég held að hér þurfum við að taka okkur tak og það fyrr en seinna.