13.01.1988
Efri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3989 í B-deild Alþingistíðinda. (2781)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég kveð mér svo fljótt hljóðs á nýjan leik þar sem ég mun freista þess að komast norður í mitt kjördæmi ef flogið verður nú um kvöldmatinn og er það skýringin á því að ég skuli koma svo fljótt inn í umræðuna aftur, en ég tel nauðsynlegt að segja örfá orð nú.

Ég vil í fyrsta lagi segja það varðandi Áburðarverksmiðjuna að nefndinni í heild hefur ekki gefist svigrúm til að athuga það mál sérstaklega. Það var aðeins vikið að því á fundi nefndarinnar og ég skýrði þar mitt sjónarmið þannig að ríkisstjórnin mundi taka þetta mál sérstaklega til athugunar, m.a. á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið, og enginn vafi er á því í mínum huga né annarra hv. þm. að frv. sem nauðsynlegt yrði til að gera nauðsynlegar ráðstafanir vegna öryggis íbúa höfuðborgarinnar mundi umsvifalaust verða afgreitt gegnum báðar deildir þingsins þannig að af þeim sökum er ekki nauðsynlegt að fresta afgreiðslu lánsfjárfrv. meðan menn eru að átta sig á því hvað þeir vilji gera út af Áburðarverksmiðjunni. Ég vil á hinn bóginn segja það sem mína skoðun að það er alls ekki einboðið hvort halda eigi rekstri þessarar verksmiðju áfram á þeim stað sem hún er núna. Þessir atburðir hljóta að vekja í fyrsta lagi upp þá spurningu hvort rétt sé að loka verksmiðjunni og í öðru lagi spurninguna um hvort rétt sé að flytja hana burt af höfuðborgarsvæðinu eins og hættan sem af henni er skilgreind eða hefur verið skilgreind í mín eyru. Ég hef ekki í höndum þá skýrslu sem hér hefur verið vitnað til og get þess vegna ekki vitnað til hennar beinlínis, en mér sýnist einboðið að málin liggi þannig fyrir að við hljótum að taka til endurskoðunar hvort við teljum staðsetningu Áburðarverksmiðjunnar rétta inni í miðri höfuðborginni og hvort þá kunni að vera skynsamlegra að flytja hana eða hætta áburðarframleiðslu hér á landi. Þriðji kosturinn er svo auðvitað sá að láta skeika að sköpuðu, reyna að tjasla upp á verksmiðjuna þar sem hún er núna og halda framleiðslunni áfram þar sem hún er. En mér finnst það alls ekki einboðið eins og ég hef heyrt lýsingar á þessu.

Ég vil í öðru lagi, herra forseti, segja það, sem ég gleymdi að segja í fyrri ræðu minni, að það er komið svo núna að ýmsir af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar eru með smáklóri að reyna að komast undan ábyrgð á þeim verkum sem við erum að gera í þinginu, meirihlutamenn ríkisstjórnarinnar.

Það vakti t.d. mjög mikla athygli að formaður Alþfl. lagði fram frv. til lánsfjárlaga á þinginu þar sem segir í 7. gr.:

„Herjólfi hf. Vestmannaeyjum er heimilt að taka lán á árinu 1988 að fjárhæð 100 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til hönnunar og smíði ferju.“

Í athugasemdum við 7. gr. skýrir núv. formaður Alþfl. frá því hvaða ástæður séu fyrir því að hann telji nauðsynlegt að þessi lánsfjárheimild sé tekin inn í frv. Síðan kemur fyrrv. formaður Alþfl. í Nd., Kjartan Jóhannsson, en þeir höfðu nú eldað saman grátt silfur einmitt í Alþfl., og flytur ásamt einum þm. Framsfl. brtt. einmitt við þetta ákvæði formanns Alþfl., og ekki eina heldur tvær, fyrst brtt. og svo brtt. við brtt. Efni þessarar brtt. er í stuttu máli það hjá fyrrv. formanni Alþfl. að núv. formaður Alþfl. eigi að endurmeta, skilst manni, taka til endurskoðunar þann vilja sinn að hann vilji fá heimild Alþingis til þessarar lánveitingar, brýna hann á því að hann hafi þar ekki haft öldungis rétt fyrir sér. Með þessu eru þeir sem sagt að reyna að komast undan þessari ábyrgð.

Við urðum vör við annað af þessu sama tagi hér áðan þegar formaður þingflokks Alþfl. var að reyna að afsaka það fjárlagafrv. sem formaður Alþfl. hefur lagt fram og það lánsfjárlagafrv. sem formaður Alþfl. hafði lagt fram þar sem gert er ráð fyrir að skerða tekjur Ríkisútvarpsins borið saman við það sem segir í almennum lögum. Þessi formaður þingflokks Alþfl., sem sæti á í fjh.- og viðskn. og hreyfði þar engri athugasemd varðandi Ríkisútvarpið, hvorki við fyrri meðferð nefndarinnar á þessu máli né áðan, lét síðan að því liggja í ræðunni áðan að skýringin á þessari afgreiðslu fjmrn. á Ríkisútvarpinu, bæði í fjárlögunum og í lánsfjárlögunum, væri sú að einhverjum sjálfstæðismönnum væri illa við Ríkisútvarpið og vildu gera lítið úr því. Það var þá aldeilis skýring á því sem fram fer í höfði formanns Alþfl.

Ég hef þekkt formann Alþfl. alllengi og ég hef ekki haldið að hann láti það mikið hafa áhrif á sig þótt einhverjir sjálfstæðismenn úti í bæ vilji gera einhverjar fígúrur. Mér hefur stundum fundist hann svo þrár að meira þurfi til að koma til að honum snúist hugur. En þetta lýsir á hinn bóginn þessum lágkúrulega hugsunargangi sem annað veifið gægist fram hjá ýmsum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar. Ég verð auðvitað að segja það rétt eins og mér finnst að miklu meiri myndarbragur hefði verið að því að láta þá sverfa til stáls í hv. fjh.- og viðskn. og freista þess að vinna meiri hl. nefndarmanna til fylgis við það að við reyndum þá að rétta hlut Ríkisútvarpsins ef það var nauðsynlegt, ef það var æskilegt og ef þetta er, eins og hér var sagt áðan, mesta byggðastofnun landsins. Miklu hefði það verið stórmannlegra en hitt að vera að gefa í skyn að menntmrh. hefði brugðist í þessu máli sem er alls ekki rétt og fyrir neðan allar hellur að gefa í skyn. (Gripið fram í.) Mér heyrðist svo. Mér heyrðist hann vera að gefa í skyn að vilji okkar sjálfstæðismanna hefði staðið því fyrir þrifum að þessi stofnun, sem heyrir undir ráðherra Sjálfstfl., hefði fengið þá fjármuni sem til var ætlast. Þessu öllu saman vísa ég algerlega á bug. Það var m.a.s. svo í fjvn., slík var nú verkstjórnin þar og hjá hæstv. fjmrh., að óbreyttir þm., sem ekki áttu sæti í nefndinni, máttu undir engum kringumstæðum frétta af neinu því sem þar gerðist fyrr en um leið og almennir blaðamenn í landinu. Þó svo almennir þm. hefðu eitthvað viljað rétta við og lagfæra ýmislegt sem í fjárlagafrv. stóð voru vinnubrögðin þannig að ekki var til hreinnar fyrirmyndar.

Ég veit t.d. ekki hvort við eigum að fara að metast á, ég og formaður þingflokks Alþfl., um það hvort vel eða illa sé að þessum fjárlögum staðið. Þá getur vel verið að ég geti tíundað eitt og annað það sem ég sem sjálfstæðismaður er óánægður með og sem ég sem þm. Norðurl. e. á erfitt með að kyngja en kyngi auðvitað vegna þess að þm. vita nú að mér er óvenju hlýtt til hv. 2. þm. Norðurl. v., Pálma Jónssonar, og vita að ég vil ýmislegt fyrir hann gera eins og sagan sýnir. Þess vegna vil ég reyna að standa á bak við það sem sá hv. þm. svona yfirleitt er að hafast að þó ég neiti því ekki að stundum finnst mér undarlega bregða við um hans framkomu eins og í kvótamálinu og get ég ekki farið nánar út í það hér þótt kannski sé ástæða til þess að taka upp almenna menningarumræðu í deildinni. En þar sem ég geri ráð fyrir að fresta eigi fundi nú kl. 7, þá vil ég þakka mönnum fyrir þolinmæðina, en taldi nauðsynlegt að þessar athugasemdir kæmu fram. — [Fundarhlé.]