13.01.1988
Efri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3991 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Enn á ný tökum við nú til við lánsfjárlögin sem eru að verða gamall kunningi okkar þm. hér í hv. deild. Þetta er farið að verða heilt eilífðarverkefni okkar að fjalla hér um lánsfjárlög ríkisstjórnarinnar, en kannski lýkur þessu í kvöld engu að síður. Þó er það fjarri því að við höfum sagt síðasta orðið hér um efnahagsmál þó að við ljúkum nú meðferð frv. um lánsfjárlög og tökum okkur þinghlé til að ná áttum. En ég er ekki í neinum vafa um það að það eiga eftir að fara fram miklar umræður þegar þing kemur saman að loknu þinghléi um efnahagsmál og sýnist mér allt benda til þess að þeim kafla þingstarfanna sé síður en svo lokið.

Lánsfjárlögin. Við erum búin að segja margt um frv. ríkisstjórnarinnar til lánsfjárlaga og verður aðallega að skoða það í ljósi þeirrar verðlagsþróunar sem við gerum ráð fyrir að verði hér á þessu ári. Mig langar til að rifja það aðeins upp að þegar frv. til lánsfjárlaga var sett fram í hv. deild einhvern tímann fyrir, ja, það fer líklega að nálgast það að vera fyrir hálfum öðrum mánuði síðan, þá var gert ráð fyrir því að útgjöld ríkisins yrðu 14,4 milljarðar kr. umfram tekjur og þessa fjár átti að afla með lánsfé.

Í meðförum þingsins voru síðan tekjur ríkissjóðs auknar um 3 milljarða. Það er kannski ekki alveg rétt að segja að þetta hafi gerst í meðförum þingsins því að eins og svo undarlega brá til, þá var fjárlagafrv. sáluga aðallega til meðferðar hjá sjálfri ríkisstjórninni og höfðu alþm. hér á hinu háa Alþingi minna af því að segja. Ríkisstjórnin tók það til margs konar breytinga. Þegar hún hafði lokið þeim, þá hafði tekjuhlið fjárlaganna aukist um 3 milljarða. Í meðförum beggja deilda Alþingis hefur lánsfjárfrv. svo tekið þeim breytingum að nú er gert ráð fyrir því að það þurfi rúmlega 15 milljarða umfram tekjur ríkissjóðs sem þarf að brúa með lánsfé.

Í þessu sambandi er kannski vert að rifja hér upp gagnmerka grein sem Þorvaldur Gylfason hagfræðingur ritaði í Morgunblaðið að mig minnir 21. nóv. á sl. ári og langar mig, með leyfi hæstv. forseta, að fá að lesa hér upp niðurlag þessarar greinar þar sem hann er að fjalla um hugtakið „þensluhalli fjárlaga“. Hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Lítum nú á frv. tvö í ljósi þessara sjónarmiða.

Í 1. gr. fjárlagafrv. kemur fram að lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs nemur 4,2 milljörðum kr. Þessa fjár á að afla innan lands með útgáfu spariskírteina og verðbréfasölu. Þar að auki er byggingarsjóðum í B-hluta ætlað að taka 6,2 milljarða að láni hjá lífeyrissjóðum. Við þetta bætist að Byggðastofnun, Fiskveiðasjóður, Framkvæmdasjóður, Iðnlánasjóður, Landsvirkjun og fleiri opinberir og hálfopinberir aðilar í C-hluta hafa skv. lánsfjárlagafrv. heimild til að taka 3,8 milljarða að láni hér heima og erlendis. Þannig nemur opinber lánsfjárþörf 1988 samtals 14,2 milljörðum (4,2 + 6,2 + 3,8)" — reyndar hefur þetta breyst, eins og ég sagði, þannig að mér reiknast svo til að þessi tala sé nú komin í rúmlega 15 milljarða, en það breytir að sjálfsögðu ekki meginforsendum lánsfjárlaga — „eða um 6% af áætlaðri landsframleiðslu næsta árs. Takið eftir að ríkisbankarnir eru ekki taldir með í C-hluta þótt færa megi rök fyrir því að þeir eigi heima þar.“

Mig langar til að skjóta hér inn í að Þorvaldur Gylfason hefur einmitt bent á að það væri skynsamlegt að stilla ríkisreikningum upp þannig að hinum ýmsu opinberu sjóðum, þ.e. hinum ýmsu sjóðum og hálfopinberu fyrirtækjum sé skipt niður í þrennt, þ.e. í A-hluta, B-hluta og svokallaðan C-hluta, en eins og fjárlögunum er stillt upp er aðeins skipt niður í A-hluta og B-hluta.

„Þessi 14,2 milljarða lánfjárþörf sýnir hversu langt útgjöldum opinberra aðila er í raun og veru ætlað að fara fram úr tekjum á næsta ári. Þar eð hún nær til næstum allra opinberra umsvifa og ekki aðeins til hluta þeirra gefur lánsfjárþörfin miklu betri vísbendingu um fyrirhugaðan halla á búskap hins opinbera en rekstrarhalli ríkissjóðs eins og hann birtist í A-hluta fjárlaga.“

Ég vil aftur skjóta því hér inn í að það eru mjög athyglisverðar ábendingar sem hér koma fram. Ég held að þetta sé einmitt alveg rétt. Kannski eru lánsfjárlögin sem slík miklu betri heimild um rekstur ríkissjóðs og um stöðu eða fyrirhugaðan ríkisbúskap ársins.

„Þessi greiðsluhalli þarf þó ekki endilega að vera fyrirboði mikillar verðbólgu.“ — Og ég skýt aftur hér inn: Betra að satt væri. — „Ástæðan er sú að mikill hluti þeirra útgjalda, sem þessum 14,2 milljörðum er ætlað að standa straum af, veldur ekki þenslu í þjóðarbúskapnum. Mestu máli skiptir í þessu sambandi að afborganir og vaxtagreiðslur af erlendum lánum opinberra aðila eru taldar munu nema um 8 milljörðum kr. Þessar greiðslur renna í vasa útlendinga og valda því engri þenslu hér heima. Sama á við um þá 1,4 milljarða sem á að verja til að greiða vexti og afborganir af skuldum ríkissjóðs við Seðlabankann umfram arðgreiðslu bankans í ríkissjóð. Þessi upphæð verður væntanlega „fryst“ í Seðlabankanum og veltur því ekki út í efnahagslífið. Eftir standa þá 4,8 milljarðar.“ — Og svo ég skjóti því að þá er þessi tala nú komin í rúmlega 5 milljarða. — „Þessari fjárhæð mun ríkið veita út í efnahagslífið umfram skattheimtu ef frumvörpin tvö verða að lögum og lögunum verður fylgt. Þetta er „þensluhallinn“ sem ég hef kallað svo. Honum er ætlað að lýsa þeim hluta lánsfjárþarfar eða greiðsluhalla ríkisins sem veldur þenslu í þjóðarbúskapnum. Að vísu er þensluhallinn alls ekki einhlítur mælikvarði á þensluáhrif fjárlaga því að fleira skiptir máli en hallinn einn, en um það og fleira verður fjallað í annarri grein.

Þessi 4,8 milljarða þensluhalli nemur um 2% af áætlaðri landsframleiðslu næsta ár. Hann virðist því ekki mjög mikill í sjálfu sér, en hann er samt hættulegur að mínum dómi vegna þess að hann getur kynt undir verðbólgu og viðskiptahalla þvert ofan í ásetning ríkisstjórnarinnar. Og hann getur orðið mjög háskalegur ef fjárlögin sýna á endanum mun meiri halla en frv. gerir ráð fyrir í fyrstu gerð, eins og næstum alltaf hefur gerst á undanförnum árum. Þar að auki er margföld reynsla fyrir því að ríkisútgjöld fara iðulega langt fram úr fjárlögum.

Í ljósi reynslunnar er þess vegna hætt við því að þensluhallinn verði miklu meiri en 4,8 milljarðar þegar upp verður staðið í árslok 1988. Þannig virðist fjármálastjórn ríkisins líkleg til að stuðla að áframhaldandi þenslu og verðbólgu á næsta ári ef ekki verður gripið fastar í taumana.“

Þessi grein er merkileg fyrir þeirra hluta sakir að hér er um mjög virtan hagfræðing að ræða sem hefur góða yfirsýn yfir ríkisfjármálin og veit mjög vel hvað hann er að tala um. Ég held að þessi orð hans séu mjög í tíma töluð og þau varnaðarorð sem koma fram í niðurlagi greinar hans eru mjög raunhæf miðað við það ástand sem nú ríkir í þjóðarbúskapnum og miðað við það ástand sem búast má við að verði hér á árinu 1988. Það eru ýmsar blikur á lofti eins og öllum ætti að vera orðið kunnugt um. Þess vegna er ég sannfærður um að það er rétt sem þarna kemur fram að það eru allar líkur á því að þessi svokallaði þensluhalli verði miklu, miklu meiri en 4,8 milljarðar eða rúmlega 5 milljarðar, eins og hann er nú reyndar orðinn miðað við síðustu tölur, þegar upp verður staðið í árslok 1988.

Í dag kom einnig fram annað gagnmerkt plagg, þ.e. skýrsla sem Vinnuveitendasamband Íslands sendi frá sér. Það er dagsett í dag og ber heitið „Efnahagshorfur 1988“. Ég ætla ekki að fara að þreyta hv. þm. í virðulegri deild á því að fara að lesa þetta plagg upp hér. Mig langar þó aðeins til að grípa niður í það á einum stað, en þar er fjallað um launabreytingar og verðbólgu á þessu ári. Nú er það nefnilega alveg ljóst að bæði fjárlagafrv., sem reyndar er orðið að lögum, og lánsfjárlögin miðast við það að verðbólga verði u.þ.b. 10%. En allir aðrir en ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir og þá helstu ráðgjafar og embættismenn hæstv. ráðherra virðast sammála um að hér verði miklu, miklu meiri verðbólga á þessu ári. Með leyfi virðulegs forseta, langar mig rétt til að grípa niður í þessa skýrslu sem kom út í dag frá Vinnuveitendasambandinu og lesa hér upp kafla sem fjallar um launabreytingar og verðbólgu á þessu ári:

„Sá vandi sem er við að glíma í stjórn efnahagsmála um þessar mundir er í hnotskurn sá að miðað við núverandi raungengi eru horfur á að viðskiptahalli verði um 9 milljarðar kr. sem er rúmlega 4% af landsframleiðslu. Í þessu felst einnig að helstu útflutningsgreinar verði áfram reknar með verulegum halla. Við blasir að raungengi þyrfti að lækka um allt að 10% til að stöðva hallarekstur útflutningsgreina, en töluvert meira ef jöfnuður ætti að nást í viðskiptum við útlönd á þessu ári. Á hinn bóginn er ljóst að þeim mun minni sem launa- og verðlagshækkanir verða, þeim mun hærra raungengi fá útflutningsgreinarnar staðist því að skilyrði til framleiðniaukningar eru mun betri í tiltölulega stöðugu verðlagi en í mikilli verðbólgu.“

Nú hefur það oft komið fram hér áður í umræðum í hv. deild að talið sé að misgengi á kostnaðarhækkunum innan lands og gengisþróun íslensku krónunnar miðað við a.m.k. dollar nemi nærri 30% sem þarf að leiðrétta til þess að helstu útflutningsatvinnugreinar okkar geti búið við svipað ástand og var í lok ársins 1986.

Síðan er alveg eftir að gera sér grein fyrir því hvernig launafólk, verkalýðshreyfingin og önnur launþegasamtök munu taka á þeim gífurlegu hækkunum á neysluvörum sem hafa orðið núna þessa síðustu dagana. Fólk er núna fyrst að átta sig á hlutunum eftir að söluskattur á matvæli var settur á hér fyrir nokkrum dögum síðan.

Það er annars mjög athyglisvert, svo að ég taki smáútúrdúr og rifji það upp hvernig fólk leit almennt á horfur strax eftir áramótin. Það var mjög fróðlegt að lesa t.d. í nokkrum dagblaðanna viðtöl við almenning á götunni fyrst eftir áramótin og reyndar rétt um áramótin þar sem fólk upp til hópa virtist vera nokkuð bjartsýnt. Það leit svo á að árið mundi verða gjöfult. Hér yrði líklega áframhaldandi góðæri eins og verið hafði. En bara viku síðar þegar búið var að samþykkja söluskattslögin og matarskatturinn var kominn á, þá tók það ekki nema nokkra daga fyrir almenning að átta sig svo á hlutunum að blákaldur veruleikinn er allur annar. Það er eins og fólk hafi skyndilega vaknað upp við vondan draum: að ástandið er ekki eins gott og það hélt strax um áramótin. Ástandið er miklu, miklu verra. Fólk er satt að segja agndofa yfir þeim verðhækkunum sem hafa dunið yfir og margir launþegar sjá fram á mjög erfitt ár þar sem einföldustu og brýnustu nauðsynjar eru orðnar það dýrar í verslunum að fólk hefur vart efni á því að lifa öllu lengur.

En svo ég haldi áfram lestri mínum á þessum kafla sem ég var að fjalla um úr skýrslu Vinnuveitendasambandsins, þá segir svo:

„Fyrir liggur að opinberir starfsmenn og bankamenn hafa samið um rúmlega 7% hækkun launa á þessu ári, en samningar þeirra kveða einnig á um að þeir muni njóta allra launahækkana annarra launþega umfram samninga þeirra. Því liggur beint við að kanna hver áhrif slík launaþróun gæti haft í för með sér. Einnig hafa heyrst hugmyndir um upphafshækkun launa um tugi prósenta og að samninganiðurstaðan verði bundin við breytingar framfærsluvísitölu.“

Svo ég komi hér aftur með innskot, þá er ég á því að fulltrúar Vinnuveitendasambandsins vanmeti stórlega þörf launþega fyrir kauphækkun núna í upphafi þessa árs. Þeir taka væntanlega trúanlegar þær staðhæfingar hæstv. fjmrh. og embættismanna fjmrn. um að þegar upp verði staðið muni framfærsluvísitalan ekkert hækka þar sem á móti hækkunum á matvælum vegna álagningar söluskatts á matvæli komi verulegar lækkanir á ýmsum nauðsynjavörum gegnum tollalækkanir og þessa breytingu sem hefur orðið á tollskrá og vörugjaldi og eins vegna niðurgreiðslna á söluskatti á helstu innlendum matvælum, svo og auknar barnabætur og fleira. En það eru ekki allir sem eru eins trúaðir á að þetta gangi upp og reyndar bendir allt til þess að það geri það ekki. Þess vegna er alveg ljóst að launþegarnir og samtök þeirra munu knýja á um verulegar kauphækkanir núna á næstu vikum, enda er þegar farið spá því í fjölmiðlum. Flestir sem fjalla um þessi mál þessa dagana eru uggandi um það að annaðhvort verði um mjög harðvítugar vinnudeilur að ræða þar sem kunni að koma til langvarandi verkfalla eða það verði samið um verulegar kauphækkanir. Það er því alveg ljóst að allar þær forsendur sem bæði fjárlög og lánsfjárlög hafa byggt á munu bresta á næstu vikum. Enda er bent á þetta í þessu plaggi Vinnuveitendasambandsins og skal ég halda áfram að lesa upp úr því. Þar stendur svo:

„Þessir kostir gætu báðir orðið að raunverulegri samningsniðurstöðu þegar mið er tekið af reynslu undanfarins áratugar en áhrif á kaupmátt, verðlag og atvinnustig fer eftir því við hvaða forsendur gengisskráningin miðast. Mismunandi áhrif þessara tveggja leiða ...“ — þ.e. að hafa annars vegar frekar hógværar launakröfur og samninga milli vinnuveitenda og launþega eða upphafshækkun launa um tugi prósenta og samningsniðurstaðan verði bundin við breytingu framfærsluvísitölu — „koma fram í töflunni hér á eftir og er þar annars vegar miðað við óbreytt raungengi í dæmunum 1 og 2. Í því felst að gengið fellur sem nemur mismun á breytingum innlends og erlends verðlags. Í síðari tilvikunum er miðað við raungengi eins og það var að meðaltali á liðnu ári, en í því felst um 10% gengisbreyting umfram verðlagshækkanir.“ Það er til þess að stilla dæmið þannig af að útflutningsatvinnuvegirnir búi við nokkurn veginn sama raungengi og var um mitt sl. ár eða meðaltalsgengi sl. ár.

„Augljóst er að deila má um þessar gengisforsendur. Þó er ljóst að útflutningsframleiðslan fær ekki staðist núverandi raungengi og gild rök benda til þess að raungengið þyrfti að lækka að sama skapi og áður segir. Í dæmunum er gert ráð fyrir að skýringarþættir verðlagshækkana séu breytingar launa, gengis og innflutningsverðs og að innflutningsverðlag hækki um 3,5–4% á föstu gengi, að launaskrið og framleiðniaukning taki hvort annað út sem verður því hæpnara sem verðbólgan er meiri.“

Síðan eru sýndir fimm kostir um framvindu launa og gengismála á árinu 1988. Fyrstu tveir kostirnir, sem þeir vinnuveitendur kalla leið 1 og leið 2, byggja á því að raungengi á árinu 1988 verði óbreytt miðað við það sem það var um sl. áramót.

Þeir eru nú svo bjartsýnir að með fyrsta valkosti gera þeir ráð fyrir því að það verði engin launahækkun og þá reikna þeir með því að framfærsluvísitalan hækki um 5% á árinu. Þetta væri hugsanlega óskaleið Vinnuveitendasambandsins en það sjá allir að hún getur ekki gengið upp. Það er alveg útilokað.

Kostur 2 byggir á því að það verði ekki meiri launahækkanir en þessi 7% sem opinberir starfsmenn og bankamenn hafa þegar samið um fyrir árið 1988. Þá þarf að hækka gengið alls um 6% á árinu til þess að útflutningsatvinnugreinarnar búi við sama raungengi og var um sl. áramót. Það þýðir að framfærsluvísitalan mun hækka um 12% sem sýnir strax að verðbólgan verður litlu hærri en gert er ráð fyrir í forsendum bæði lánsfjáráætlunar og fjárlaga ríkisstjórnarinnar.

Þetta eru allir sammála um að sé líka óraunhæft. Það er alveg ljóst að kauphækkanir hljóta að verða miklum mun meiri en það sem þegar var búið að semja um löngu áður en gengið verður til samninga núna við bæði verkalýðshreyfinguna og önnur launþegasamtök. Þó svo að opinberir starfsmann séu með bundna samninga fyrir árið 1988, þá eru samningsákvæði hjá þeim þess efnis að þeir njóta allra þeirra launahækkana sem aðrir launþegar munu ná á árinu, þannig að það er alveg ljóst að þeir bíða í startholunum eftir því að njóta og ná sömu launahækkunum og verkalýðshreyfingin mun semja um hér á næstu vikum.

Þess vegna eru kostir 3, 4 og 5 eins og vinnuveitendur stilla þeim upp öllu líklegri niðurstaða en þar er miðað við að eitthvað verði reynt að rétta við hag útflutningsatvinnugreinanna þannig að í stað þess að þær muni áfram á þessu ári búa við sama raungengi og var núna um áramót, þá verði miðað við að það raungengi sem þeim verður sett á árinu 1988 verði það sama og var að meðatali fyrir árið 1987. Það þýðir að ef um 7% launahækkun yrði að ræða, sem er alveg ljóst að er það lágmark launahækkana sem við getum horft fram á á árinu 1988, þá þarf að fella gengið alls um 30% og framfærsluvísitalan mundi þá hækka um 22%. Þannig er þetta raunverulega það minnsta sem við getum séð fram á á árinu 1988. Miðað við að launahækkanir verði mjög hógværar og hlutur útflutningsatvinnuveganna verði réttur það mikið við að útflutningsatvinnugreinarnar fái sama raungengi og meðaltalsraungengi var á árinu 1987, þá verður verðbólgan 22%. En ég held að flestir séu sammála um að þetta gengur heldur ekki eftir vegna þess að það er alveg ljóst að kaupkröfur verkalýðshreyfingarinnar munu verða mun hærri þó ekki væri annað en reyna að hamla á móti þeim gífurlegu álögum sem hafa verið settar á almenning með þessum miklu skattafrv. sem voru samþykkt hér skömmu eftir áramótin.

Þannig er miðað við að launahækkanir alls á árinu 1988 geti orðið 20%, þá þarf að lækka gengið um 44% til þess að útflutningsatvinnugreinarnar fái búið við meðaltalsraungengi ársins 1987 og framfærsluvísitalan kemur til með að hækka um 35%.

Að lokum er svo síðasti kosturinn sá að launahækkanir geti orðið allt að því 50%. Þá þarf að fella gengið um 83% og framfærsluvísitalan hækkar um 71%. Það er því alveg ljóst að að öllu óbreyttu virðist allt benda til þess að við siglum beina leið inn í mjög svipað ástand og hér var fyrir 5–6 árum, þ.e. óðaverðbólgu og öll stjórn efnahagsmála er komin úr böndunum.

Eins og kemur fram í þessum upplýsingum vinnuveitenda er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði 9 milljarðar kr. Hann er talinn verða um 6 milljarðar kr. fyrir árið 1987 og verður 9 milljarðar kr. að því er vinnuveitendur telja fyrir árið 1988. Það er því um mikinn vanda að ræða og finnst manni hálfhjákátlegt að vera vitni að því að hér er verið að samþykkja lánsfjárlög í kjölfarið á fjárlögum sem byggja á 10% hækkun verðlags á árinu 1988 þegar það er alveg ljóst að verðlagsþróun muni verða með allt öðrum hætti. Þess vegna tel ég að allar forsendur fyrir lánsfjárlögum séu raunverulega brostnar og reyndar fjárlögunum einnig. Þannig stefnir í það að fljótlega þegar komið verður fram á vormánuði þurfi að gera stórfelldan uppskurð á öllum ríkisfjármálunum á nýjan leik.

Ég veit ekki hvort við þm. Borgarafl. hér í hv. Ed. sjáum ástæðu til að standa að því að þessi lánsfjárlög verði samþykkt með þessum hætti. Eins og oft hefur verið talað um áður er greinilegt að bæði fjárlög og lánsfjárlög eru byggð á fölskum forsendum. Þetta eru raunverulega ómerk plögg sem lítið mark er takandi á. Engu að síður er eins og ævinlega verið að reyna að leysa mörg brýn vandamál með lánsfjárlögunum og skal ég ekki gera lítið úr þeim. Ég amast síður en svo við því að það sé verið að leysa vandamál ýmissa atvinnufyrirtækja og ýmissa stofnana með þeim hætti sem þar kemur fram.

En það sem ég gagnrýni aðallega er það að forsendur lánsfjárlaga, og reyndar einnig fjárlaganna, eru mjög hæpnar og raunverulega orðið alveg ljóst að þær koma engan veginn til með að standast þannig að áður en varir þarf að gera mjög mikinn og verulegan uppskurð á öllum ríkisfjármálunum og þeirri efnahagsstjórn sem núv. ríkisstjórn stefnir að.