13.01.1988
Efri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4001 í B-deild Alþingistíðinda. (2787)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Að gefnu tilefni vil ég vekja athygli hv. 3. þm. Vesturl. á því að ég sat og hlustaði á mál hans allt í dag og ég heyrði nákvæmlega hvað hann sagði þá um fjarvistir fjmrh., að hann væri bundinn í útvarpsviðtali og síðan í sjónvarpsþætti. Það var einmitt vegna þess að hann var bundinn í dag að það var settur fundur hér í kvöld. Ekki frekar en hæstv. fjmrh. vissi ég um að það yrði fundur hér í kvöld og það eru örugglega margir fleiri en hæstv. fjmrh. sem voru búnir að binda sig í kvöld. En við erum mörg hingað mætt en hann er ekki mættur. Og ég er ekki að ráðast á hv. 3. þm. Vesturl., fjarri fer því. Ég er heldur ekki að ráðast á ráðherrana sem slíka. Ég er að krefjast þess að þeir mæti til að ræða þau mál sem þeir sjálfir hafa lagt fyrir þingið að vinna að. Ég er í vinnunni minni núna að vinna að málum sem aðrir hafa beðið mig að vinna að, sem er frv. til lánsfjárlaga, sem þeir leggja fram að sínu eigin frumkvæði, og þeim ber skylda til að mæta. Við erum öll hér í vinnunni okkar til að ræða mál sem aðrir hafa átt frumkvæði að og þeim ber skylda til að mæta alveg eins og okkur. Og ég er ekki stimpill.