14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4006 í B-deild Alþingistíðinda. (2795)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég tók ekki betur eftir en að hv. 6. þm. Reykv. beindi nokkrum athugasemdum og fyrirspurnum til hæstv. fjmrh. sem við höfum lengi þráð mjög í þessari deild, svo sem kunnugt er, og vildum eiga við hann orðastað um forsendur þessa frv., lánsfjárlaga fyrir árið 1988.

Ég vil bæta við nokkrum orðum og þá fyrst þeim að benda á að frv. til lánsfjárlaga byggist á því að verðbólgan frá upphafi til loka ársins 1988 verði 10%. Samkvæmt þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur þegar tekið í efnahagsmálum með beinum eða óbeinum hætti stefnir verðbólgan á þessu ári í miklu hærri tölu, tvisvar til þrisvar sinnum hærri tölu og að verðbólga á Íslandi verði 5–7 sinnum hærri en í helstu viðskiptalöndum Íslendinga.

Við þekkjum hina miklu verðbólgu frá fyrri árum. Þá var verðbólga hér á landi margfalt meiri, þrisvar, fjórum sinnum meiri en gerðist í helstu viðskiptalöndum okkar en þar var þá einnig um verulega verðbólgu að ræða á þeim mælikvarða sem þar hefur verið notaður. Nú er bersýnilegt að margföldun verðbólgunnar, þegar hún kemur hér að ströndum Íslands, verður meiri á þessu ári samkvæmt ákvörðunum sem þegar liggja fyrir en áður hefur verið um að ræða. Þær ákvarðanir sem þegar liggja fyrir og ríkisstjórnin hefur tekið og hafa áhrif til aukinnar verðbólgu eru þessar:

Það er í fyrsta lagi hækkun á óbeinum sköttum, sérstaklega matarskatti. Matarskatturinn gerir 5750 millj. kr. á þessu ári en heildarskattlagning ríkisstjórnarinnar á þessu ári gerir 8700 millj. kr. Það er því líklegt að skattar verði hærra hlutfall af landsframleiðslu á þessu ári en áður hefur verið um alllangt skeið.

Önnur ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem stuðlar að vaxandi verðbólgu á þessu ári er sú staðreynd að við búum nú við hærra raunvaxtastig en áður hefur verið hér á landi. Í skriflegu svari við fsp. minni núna fyrir nokkrum vikum lýsti hæstv. viðskrh. því að raunvextir hér á landi hefðu farið hækkandi og lýsti því jafnframt yfir að hann teldi ekki ástæðu til þess að grípa inn í þróun raunvaxta. Hann teldi að markaðurinn yrði að fá að njóta sín. Nú hefur hæstv. utanrrh., með býsna myndarlegum hætti, formaður Framsfl., lýst hinu gagnstæða yfir, sem sé því að það sé óhjákvæmilegt að Seðlabankinn sendi frá sér tillögur um það hvernig eigi að taka vaxtastigið niður.

Ég spyr hæstv. fjmrh. í framhaldi af spurningu hv. 6. þm. Reykjavíkurkjördæmis: Hvaða tillögur liggja þegar fyrir um það að taka niður vextina? Því að eins og hér var einnig bent á í síðustu ræðu er það þannig að vaxtahækkun verður á þessu ári umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir þegar lánsfjárlagafrv. var lagt fram vegna þess að samkeppnin um spariféð verður bersýnilega meiri á þessu ári en þá var um talað. Þess vegna er óhjákvæmilegt að fá um það upplýsingar hjá ráðherranum hvað stendur til að gera í þessum vaxtamálum. En ég vil einnig bæta við og spyrja: Hverjar telur hann að horfurnar séu að því er verðlagið varðar á árinu 1988? Heldur hann sig enn þá við þá spá sem birtist í grg. með frv. sem hér er til umræðu upp á 10% innan ársins eða er hann þar með aðrar tölur?

Það er alveg augljóst mál að ef við höldum okkur við þær tölur einar sem birtast í frv. til lánsfjárlaga eða grg. þess er halli á útflutningsatvinnuvegunum og sérstaklega frystingunni, fyrst og fremst vegna verðþenslu og hækkandi vaxta hér í landinu, í lok þessa árs kominn á bilið 15–17%, í lok ársins 1988. Það auðvitað gengur ekki. Það er óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherra upplýsi þá í leiðinni hvernig er ætlunin hjá ríkisstjórninni að taka á þessum vanda útflutningsatvinnuveganna. Ástæðan til þess að ég nefni þetta núna er auðvitað sú að við erum að fara í þinghlé í tvær vikur. Þjóðhagsspá birtist í næstu viku. Við eigum ekki kost á því að ræða við ríkisstjórnina hér næstu daga á hv. Alþingi um þau viðbrögð sem hún vill hafa við vaxandi verðbólgu sem beinlínis á rætur að rekja til stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, ýmist beinna aðgerða hennar eða aðgerðaleysis.

Ég spyr þá einnig í framhaldi af þessu: Getur það verið að ríkisstjórnin viti ekki hvað hún er að gera í þessu máli frekar en öðrum? Samkvæmt upplýsingum stjórnarmálgagnsins Tímans í gær hefur það gerst að það eru fleiri orðnir hissa en Steingrímur Hermannsson. Hann hefur sem kunnugt er verið hissa núna um árabil, ævinlega, á öllu því sem hann gerir og er alltaf jafngapandi hlessa á niðurstöðunum af sínum eigin ákvörðunum. En nú hafa nokkrir bæst í hópinn, þ.e. hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh.

Getur það verið að ríkisstjórnin viti ekki hvað hún er að gera og á hvaða efnahagsforsendum þetta plagg sem hér er um að ræða er byggt? Ef það er svo er það auðvitað býsna alvarlegur hlutur. Ef það er aftur á móti þannig að hún reiknar með meiri verðbólgu en gert var ráð fyrir í upphafi þegar frv. var lagt fyrir þýðir það það að skerðingin á sjóðunum er mun meiri, á öllum sjóðunum, m.a. Framkvæmdasjóði fatlaðra, en upplýst er t.d. í plaggi minni hl. í Nd. þar sem birt er grg. um skerðingu hvers einasta fjárfestingarsjóðs. Þessar upplýsingar er óhjákvæmilegt að fáist fram hjá hæstv. fjmrh. úr því að hann lætur svo lítið að mæta hér.

Þá eru þrjú önnur atriði sem ég vil nefna úr þessu frv.

Það er fyrst atriði varðandi greinina um Herjólf hf. Hún breyttist í Nd. Ég inni hæstv. fjmrh. eftir því hvort hann telur nokkra hættu á að þessi breyting sem þar var gerð á greininni um Herjólf geti orðið til þess að tefja það mikilvæga verkefni sem þar er í undirbúningi, að tryggja betur en nú er gert samgöngur milli lands og Eyja.

Í öðru lagi varðandi Áburðarverksmiðjuna. Þrír þm. Reykv., þm. úr stjórnarandstöðuflokkum, flytja hér í deildinni tillögu um lántökuheimild vegna ammoníaksgeymis Áburðarverksmiðjunnar. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til þeirrar tillögu? Það var upplýst hér í gær að ríkisstjórnin mundi á fundi sínum í morgun taka það mál sérstaklega fyrir. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að fá upplýsingar um afstöðu ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Því hefur verið beint til stjórnarandstöðuflokkanna að þeir dragi þessa tillögu til baka. Ég tel auðvitað enga ástæðu til þess að draga þessa tillögu til baka, nema það sé ljóst að það sé einhver efnislegur ávinningur í málinu í hendi. Það liggur ekki fyrir enn þá. Getur verið að það liggi fyrir eftir ríkisstjórnarfundinn í morgun? Þess vegna er óhjákvæmilegt að fá um það frekari upplýsingar.

Í þriðja lagi vil ég minnast á deilur stjórnarflokkanna í gærkvöld um Ríkisútvarpið sem voru ákaflega fróðlegar. Ég verð að segja það eins og er að ég er að mörgu leyti sammála hv. 3. þm. Vesturl. um það að ég tel málið vera þannig að í Sjálfstfl. séu hópar, frjálshyggjuhópar, sem hafa tiltölulega lítinn áhuga á því að halda utan um Ríkisútvarpið. Það er hins vegar rétt sem hv. 2. þm. Norðurl. e. sagði um málið að það er ekki hægt fyrir Alþfl., við þær aðstæður, að skjóta sér á bak við Sjálfstfl. og segja: Við erum heilagir, við erum hreinir, við erum saklausir, þetta er allt saman íhaldinu að kenna. Þannig liggur málið ekki. Auðvitað ber Alþfl., leggjandi fram lánsfjárlagafrv., takandi þátt í meirihlutastörfum í þinginu, fulla ábyrgð á þeirri stórkostlegu skerðingu á starfsaðstöðu Ríkisútvarpsins sem hefur átt sér stað. Hv. 3. þm. Vesturl. hefur aftur og aftur borið því við að útvarpslögin séu í endurskoðun. Ég spyr af því tilefni: Hvar er sú endurskoðun? Hverjir eru að vinna að þeirri endurskoðun? Hvernig miðar henni? Hvenær á henni að ljúka? Hvern á ég að spyrja? Ég spyr hv. 3. þm. Vesturl. að því. Ég tel eðlilegast að hann svari því vegna þess að hann hefur nefnt þessa endurskoðun á útvarpslögunum sem röksemd gegn því að styðja við bakið á Ríkisútvarpinu í umræðum í Ed., aftur og aftur. Ég tel eðlilegt að hann svari því. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. þekkir á þetta mál í einstökum atriðum. Ég treysti hv. 3. þm. Vesturl. betur í þeim efnum því að hann þekkir þetta mál betur en hæstv. fjmrh. og vil þess vegna fá þetta mál upplýst áður en þessi umræða heldur lengur áfram.

Það voru sem sé þessi atriði sem ég vildi nefna, herra forseti, verðbólgu-, gengis- og vaxtahorfur á þessu ári og síðan einstök atriði varðandi lánsfjárlagafrv., varðandi Herjólf í fyrsta lagi, Ríkisútvarp í öðru lagi og Áburðarverksmiðjuna í þriðja lagi.

Ég vil svo kannski aðeins bæta því við að lokum, herra forseti, að ég er alveg sammála því sjónarmiði sem kom fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. að ég tel að eðlilegt væri við endurskoðun útvarpslaganna að stuðla að því að sjálfstæði Ríkisútvarpsins væri aukið eins og mögulegt er til þess að það geti betur gegnt sínum skyldum.