14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4015 í B-deild Alþingistíðinda. (2797)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég stóð ekki að neinu samkomulagi um það í gærkvöld að umræðum yrði einungis haldið áfram hér til kl. 11 nú fyrir hádegi og hefði satt að segja þótt óþarfi að hætta umræðunum í gærkvöld ef ekki lá meiri alvara en svo á bak við beiðnina um frestun fundarins að hægt yrði að afgreiða málið svo flausturslega hér á fundinum nú í dag, enda hafa þær umræður sem fram hafa farið nú á fundinum ekki verið með þeim hætti að þær gefi tilefni til réttlætingar eða röskunar á fundahaldi deildarinnar eins og orðið hefur.

Ég held satt að segja að kominn sé tími til að einstakir þm., hvort sem þeir eru hæstvirtir eða háttvirtir, ráðherrar eða almennir þingmenn, fari að gera sér grein fyrir því hvernig menn vilji haga samskiptum einstakra þm. og einstakra flokka hér í hinu háa Alþingi og þeir beri virðingu fyrir tíma hvers annars. Ég held þess vegna að það sé mjög áríðandi, bæði fyrir virðingu þeirra þm. sem tóku þátt í því að fresta umræðunum í gærkvöld og eins fyrir virðingu þingsins almennt, að umræðurnar haldi hér áfram í dag og þeir þm. sem báðu um þessa frestun fái fullt og óskorað málfrelsi til að koma athugasemdum sínum við á þeim rökum og á þeim forsendum sem þeir báðu um þingfundarfrestunina í gær.

Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að það skuli ekki vera hægt að áætla tíma sinn fram á næsta dag vegna uppáfallandi tafa. Það reyndi ekki á það, og var ekki talið rétt að það reyndi á það í gærkvöld, hvort fullnægjandi skýringar væri hægt að gefa á þeim atriðum sem talin væru þurfa skýringa við. Það má vera að það geti verið réttlætanleg ósk um fundarfrestun ef einum hv. þm. þykir sem ráðherra hafi ekki farist sem skyldi varðandi það að vera viðstaddur umfjöllun síns eigin máls. Ég skal ekki draga úr því að það sé æskilegt. Hæstv. ráðherra hefur gefið skýringu á því. En eftir sem áður eru aðrir þm. í deildinni sem líka hafa skyldustörfum að gegna eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði réttilega hér í gær. Menn hafa ýmsum skyldustörfum að gegna, bæði almennir þm. og ráðherrar, og það er auðvitað alveg óhjákvæmilegt úr því að við tókum þennan dag nú til þess að ræða almennt um þessi mál að við gefum okkur tíma til þess og að afgreiðsla málsins hér í Ed. verði ekki í neinu flaustri.

Ég hefði þess vegna, herra forseti, viljað beina því til hans að hann beiti sér fyrir því að umfjöllun deildarinnar um lánsfjárlagafrv. geti orðið eins og þm. vilja. Þeir geti fengið að neyta málfrelsis síns og að ekki verði gerðar neinar tilraunir til þess að hefta það.