14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4020 í B-deild Alþingistíðinda. (2802)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega fagna því að hv. 2. þm. Norðurl. e. skuli telja ástæðu til að hvetja hér til ítarlegrar og vandaðrar umræðu um lánsfjárlögin í þessari virðulegu deild. Hann varaði við því að afgreiðsla málsins yrði flaustursleg hér í deildinni. Það væri fróðlegt að vita hvað það er sem hann er sérstaklega með í huga, hvað það er sem hann óttast að verði sérstaklega flausturslega afgreitt hér í deildinni, hvaða þættir það eru í lánsfjárlagafrv. Það er engin ástæða til að amast við því þó að hv. þm. óski eftir því að málin séu ítarlega rædd.

Hins vegar finnst mér nauðsynlegt í sambandi við þær umræður sem hér hafa farið fram um störf deildarinnar að ítreka það og taka undir það sem kom hér fram hjá hv. 6. þm. Reykv. varðandi það mál. Deildin beið hér í gærkvöld eftir hæstv. fjmrh. Hafi hæstv. fjmrh. komið upplýsingum til skrifstofu Alþingis þá komust þær aldrei til formanns þingflokks Alþfl. Og að saka deildina um smekkleysu af þessu tilefni, eins og hæstv. ráðherra gerði, það finnst mér ómerkilegt og ástæðulaust, tilefnislaust með öllu miðað við það að ég held að þessi deild verði ekki sökuð um það að hún hafi sýnt ráðherrum ósanngirni varðandi afgreiðslu mála. Ég veit ekki betur en að báðar deildir þingsins hafi nætur og daga verið á harðahlaupum við að afgreiða alls konar mál fyrir ríkisstjórnina. Ég hélt að það sæti síst á ráðherrunum að kveða þannig að orði eins og hæstv. fjmrh. gerði varðandi þessa deild hér áðan.

Ég vil þá einnig benda á það að varðandi umræður um þinghaldið í dag er það rétt að það kom til tals að hugsanlegt væri að þessum fundi gæti lokið á einni klukkustund. Það er rétt hjá hæstv. forseta. Það var ævinlega, og í hugum örugglega allra þeirra sem viðstaddir voru, miðað við það þó að umræður gætu gengið með eðlilegum hætti. Í morgun töluðu tveir þm. stjórnarandstöðunnar á undan hæstv. fjmrh.

Þeir töluðu samtals í 26 mínútur. Hæstv. fjmrh. talaði næstur og talaði í 27 mínútur. Þannig að miðað við svona eðlilegt umræðustig og eðlilegan umræðuanda hér í deildinni þá var auðvitað vel hægt að gera ráð fyrir því að þetta mál tæki ekki mikið meira en klukkustund hér í þessari hv. deild eins og hæstv. forseti gat um.

En það er hins vegar rétt að ítreka það út af orðum hv. 2. þm. Norðurl. e., sem vill halda umræðum áfram sem mest um þetta mál — og það er auðvitað ekki nýtt að stjórnarliðið hvetji til jafnvel lengri umræðna en ella væri þörf á — en það er nauðsynlegt að ítreka það vegna ummæla hans að þetta samkomulag var ekki þannig bundið að menn segðu sem svo: Þetta skulu vera 60 mínútur og ekkert þar umfram.

Ég vil þá víkja að einstökum þáttum í orðum hæstv. fjmrh. og fyrst að Ríkisútvarpinu. Hann skýrði frá því að fjárhagur Ríkisútvarpsins ætti að vera í lagi á þessu ári miðað við tilteknar forsendur, m.a. þær að raunhækkun á auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins á þessu ári yrði 10%. Hverjum finnst það sennilegt að Ríkisútvarpið geti náð raunhækkun á auglýsingatekjum sínum um 10% á sama tíma og fjöldi fjölmiðla er meiri en nokkurn tímann hefur áður verið í samkeppni um þessar sömu auglýsingatekjur? Ég hygg að þessi tekjuspá fyrir Ríkisútvarpið, og þar með rekstrarspá fyrir það, sé ákaflega völt og vafasöm að ekki sé meira sagt.

Hæstv. ráðherra sá ástæðu til að mótmæla því sérstaklega sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði í gærkvöld að í einstökum stjórnarflokkum væri um að ræða óvild í garð Ríkisútvarpsins og þá sérstaklega í Sjálfstfl. eins og hv. þm. Eiður Guðnason sagði. Ég hygg að skoðun hv. 3. þm. Vesturl. á þessu sé rétt. Það er veruleg óvild í garð Ríkisútvarpsins í Sjálfstfl. Það þarf ekki annað en að nefna eitt dæmi, það að hæstv. forsrh. hafði uppi um það hugmyndir á opinberum vettvangi fyrir örfáum mánuðum að rétt væri að selja Rás 2, losa Ríkisútvarpið við hana þó að það sé ljóst að hún er einmitt veigamikill þáttur í að tryggja Ríkisútvarpinu aðgang að auglýsingatekjum sem nú eiga að skila Ríkisútvarpinu 10% meira að raunvirði á þessu ári en árinu 1987.

Á þessu ári, 1988, er það ákvörðun ríkisstjórnarinnar að skera niður framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins um 130–150 millj. kr. samkvæmt upplýsingum ríkisstjórnarinnar sjálfrar eftir að á árinu 1987 er um að ræða niðurskurð á sömu tekjustofnum Ríkisútvarpsins upp á 250 millj. kr. Svo koma þessir blessaðir menn hér, eins og hv. 3. þm. Vesturl. og segja: Málefni Ríkisútvarpsins eru í endurskoðun. Ég spurði áðan: Hvaða endurskoðun? Það var skýrt frá því að hæstv. menntmrh. hefði sett einhverja athugun á fjárhag Ríkisútvarpsins í gang. Ég tel í raun og veru að það sé gott eitt um það að segja að fjárhagur Ríkisútvarpsins sé skoðaður, en ég teldi að við slíkar aðstæður, þegar upp kemur mál af þessu tagi sem snertir hornstein útvarpslaganna, þá ætti auðvitað að kalla til fulltrúa allra flokka hér á hv. Alþingi til þess að fara yfir allar rekstrarforsendur Ríkisútvarpsins og annarra ljósvakamiðla hér í landinu. Vegna þess að þarna er í raun og veru verið að tala um endurskoðun útvarpslaganna. Og ég endurtek þá spurningu sem ég bar fram hér áðan: Hver er að endurskoða? Hvar er þessi endurskoðun? Hver ber ábyrgð á henni? Vegna þess að hv. 3. þm. Vesturl. getur í þessum efnum ekki hafa átt við þá almennu rekstrarendurskoðun sem hæstv. menntmrh. mun hafa sett í gang á Ríkisútvarpinu.

Ég vil þessu næst víkja að málefnum Áburðarverksmiðjunnar og þeirri tillögu sem ég flyt hér ásamt tveimur öðrum þm. Reykjavíkurkjördæmis um 30 millj. kr. lántökuheimild til þess að bæta og styrkja öryggi í Áburðarverksmiðjunni, sérstaklega vegna ammoníaksgeymisins. Hæstv. fjmrh. skýrði frá því hér að ríkisstjórnin hefði í morgun gert samþykkt um málið. Gott og blessað var það. Það er ágætt. Það er gerð samþykkt um málið. Það sem mér finnst hins vegar kostulegt í þessu er það að þegar þessi samþykkt er gerð um þetta mál, Áburðarverksmiðjuna, þá liggur hér fyrir í deildinni tillaga frá fulltrúum þriggja stjórnmálaflokka. Af hverju var ekki rætt við þá um leið og þessi samþykkt var gerð til þess þannig að stuðla að því að þeir gætu með auðveldari hætti dregið tillöguna til baka sem hér liggur fyrir? Hvernig stendur á því að það var ekki gert? Auðvitað væri enginn skaði skeður þó að þessi lántökuheimild væri samþykkt, sem við gerum hér tillögu um upp á 30 millj. kr., vegna þess að sú heimild dugir fyrir ódýrari lausninni, en auðvitað ekki fyrir dýrari lausninni. Ef sú dýrari yrði valin, þá er auðvitað einfaldasti hlutur í heimi að keyra hér gegnum þingið ábyrgðarheimildir til viðbótar við þessar 30 millj. þannig að það dygði til þess að endurnýja algjörlega þennan ammoníaksgeymi. En hér er komið að þessu sama og maður kynnist aftur og aftur hjá þessari ríkisstjórn: Það má alls ekki samþykkja eina einustu tillögu frá stjórnarandstöðunni. Alls ekki. Alls ekki eina einustu tillögu. Það má ekki hafa samráð við stjórnarandstöðuna um eitt eða neitt í efni máls, hvaða mál sem um er að ræða. Og þó er þetta mál varðandi Áburðarverksmiðjuna þannig að það er bersýnilegt að þm. stjórnarandstöðunnar eru tilbúnir að leggja sig fram um að ná um þetta mál heildarsamkomulagi. Því hefur verið lýst yfir, bæði af mér og fleiri talsmönnum stjórnarandstöðunnar hér í þessari deild. En þrátt fyrir það er samþykktin gerð í ríkisstjórninni án þess að nefna nokkurn hlut við stjórnarandstöðuflokkana. Það er þetta venjulega tillitsleysi. Það er þessi venjulega þurrafrekja, sem einkennir þessa ríkisstjórn, að nudda málunum þannig fram. Það má ekki tala við stjórnarandstöðuna helst um eitt eða neitt nema kannski í mesta lagi varðandi það hvort fundir eigi að standa í klukkutíma eða einn og hálfan tíma.

Ég held að það sé rangt sem hæstv. fjmrh. sagði að tillaga okkar um þetta efni sé ekki tímabær. Hún er fyllilega tímabær eins og ríkisstjórnin staðfestir sjálf í morgun með samþykkt sinni þar sem hún bregst við skýrslu starfshóps sem segir: Það er veruleg hætta — það er reyndar notað orðið „skelfileg“ hætta — fyrir þetta byggðarlag, fjölmennasta byggðarlag í landinu, sem stafar af því hve illa er búið að þessum ammoníaksgeymi Áburðarverksmiðjunnar.

En auðvitað þýðir ekkert að tala um þetta við ríkisstjórnina. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er alveg sama hvort þeir eru hér eða einhvers staðar annars staðar. Það skiptir engu máli vegna þess að þeir hlusta aldrei á það sem sagt er hér. Það er alveg sama hvað það er. Jafnvel þótt það séu sanngjarnar almennar athugasemdir, bornar fram af fullri vinsemd, áreitnislaust. Nei, það má ekki hlusta. Það má ekki taka tillit til eins eða neins. Og þegar stjórnarandstaðan ber fram tillögu eins og þessa þá auðvitað hleypur ríkisstjórnin til þannig að það sé gert í nafni stjórnarflokkanna að leysa þetta mál og setja það af stað, en alls ekki stjórnarandstöðunnar.

Nú er það þannig í þessu máli eins og öðrum að ég geri ekki ráð fyrir því að stjórnarandstaðan hafi neinn áhuga á því að láta fella þessa tillögu. Ég held að það væri verra málefnisins vegna að tillagan yrði felld. Við horfum á málefni, við horfum á efni máls en ekki það hver flytur, hvaða flokkur eða hvaða ráðherra. Við horfum á efni máls. En það gera stjórnarflokkarnir hér ekki. Og í þeim efnum er alveg sama hvað það er lítið, málið sem hreyft er. Það er þetta ólýðræðislega hnefaréttarviðhorf sem kemur fram hjá þessari ríkisstjórn aftur og aftur, bæði í þessu áburðarverksmiðjumáli og fleiri málum.

Ég vil þá næst víkja að þeirri tillögu sem við flytjum varðandi skerðinguna á Framkvæmdasjóði fatlaðra. Við teljum að Framkvæmdasjóður fatlaðra eigi við þær aðstæður sem nú eru að fá a.m.k. það framlag sem fjmrn. telur að Framkvæmdasjóðurinn eigi að fá sem er eitthvað um 200 millj. kr. Félmrn. telur aftur á móti að þetta framlag eigi að vera 270 millj. kr. Og miðað við fyrirsjáanlega verðbólguþróun á þessu ári er alveg ljóst að þessi tala ætti að vera allmiklu hærri en stendur í lánsfjárlagafrv. Þess vegna er tillagan flutt af okkur. Hún er ekki síst flutt vegna þess að aftur og aftur á síðasta kjörtímabili flutti núv. félmrh. Alþfl. tillögur um það að þessi sjóður yrði með öllu óskertur. Þar mætti ekki taka 4, ekki 5, 10, hvað þá heldur 20 millj. kr. Nú lýsir formaður Alþfl. því yfir að Framkvæmdasjóður fatlaðra hafi svo sem, með leyfi forseta, andskotans nóg, hafi nóg og þess vegna sé engin ástæða til þess að bæta þar neinu við. Það er stefnubreyting hjá Alþfl. í málefnum Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Það er athyglisvert og ég vek athygli deildarinnar á því.

Við bárum fram nokkrar fsp. varðandi gengismál, vaxtamál og verðlagsmál á árinu 1988. Menn vita að þessi plögg sem við erum með fyrir framan okkur byggja á því að verðlagshækkanir innan ársins 1988 verði 10%. Allir vita að verðbreytingin á árinu 1988 verður miklu meiri. Það veit það hver einasti maður í þessari deild. Það veit hver einasti þm. Þjóðin öll gerir sér grein fyrir því. Við þær aðstæður er auðvitað eðlilegt að stjórnarandstaðan segi hér við ríkisstjórnina: Hvað ætlið þið að gera þegar þetta fer úr böndunum með þessu móti? Hvað ætlið þið að gera? Og hvað segir þá hæstv. fjmrh.? Hann kemur hér í ræðustól og segir um þetta mál: Kjarasamningarnir munu skera úr um þessi mál. — Punktur. Ekkert annað. Þeir hafa auðvitað mikil áhrif. Kjarasamningarnir hafa auðvitað mikil áhrif. En hefur ríkisstjórnin stuðlað að því að menn nái skikkanlegum kjarasamningum í landinu? Ætli álagning matarskattsins sé til að greiða fyrir skikkanlegum kjarasamningum? Ætli fólkið í landinu, sem nú er að borga matvörurnar í búðunum, segi ekki þegar það kemur í sín verkalýðsfélög: Við verðum að fá kauphækkanir til að standa undir þessum ósköpum!?

Vitaskuld er það þannig að ríkisstjórnin hefur með stefnu sinni í raun og veru sagt við verkalýðshreyfinguna: Komið ef þið þorið. — Það er það sem verið er að segja. Það er verið að storka samtökum launafólks í landinu með þeirri skattastefnu, þeirri skattaáþján, sem núv. ríkisstjórn ber ábyrgð á, á hinn almenna mann í landinu.

Í rauninni er engu að síður hægt að taka undir það að kjarasamningarnir skipta þarna miklu. En málið er þó hitt: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar? Hefur hún stefnu? Hefur hún fastgengisstefnuna enn þá? Á að halda genginu föstu út árið þannig að gengi íslensku krónunnar verði 38% hærra í lok þessa árs en á árinu 1986? Er fastgengisstefnan enn þá við lýði eða hefur hún verið lögð fyrir róða? Og hver er stefna ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum? Hæstv. fjmrh. á að svara því. Hann á ekki að sleppa út úr þessari deild hér í dag öðruvísi en að svara því hver sé stefna ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum: Er það stefna viðskrh: eða er það stefna utanrrh.?

Vaxtastefna er pólitísk stefna sem á að mótast í sameiningu af flokkunum sem standa að ríkisstjórninni. Hvor stefnan er það sem ræður? Hvaða tillögur hefur hæstv. fjmrh. í vaxtamálum? Hvað vill hann gera? Vill hann leyfa markaðnum „að njóta sín“, eins og það heitir, enn frekar og halda áfram að jaga niður lífskjör fólks og atvinnuvegina í landinu? Eða vill hann grípa inn í með beinum hætti eins og hæstv. utanrrh. hefur sagt aftur og aftur og aftur? Ætlar Alþfl. í viðskrn. áfram að bera ábyrgð á vaxtaokrinu? Ætlar Jón Sigurðsson, hæstv. viðskrh., að ganga inn í söguna með það á bakinu að vera vaxtaokursráðherra Íslands númer eitt? Hver er stefnan? Hvað stendur til?

Mér finnst satt að segja, með leyfi forseta, allt í lagi að rifja það upp að hæstv. fjmrh. var stundum býsna kjaftagleiður um þessa hluti hér fyrir nokkrum mánuðum og hafði ráð á hverjum fingri, í vaxtamálum, í verðbólgumálum, í gengismálum, í atvinnumálum, í kjaramálum, í skattamálum! Og hann hafði svo mikið af svörum að hann kom aldrei í fjölmiðla án þess að spyrja sjálfan sig og svaraði í minnst tvennu, þrennu eða fernu lagi hverju einasta máli sem upp kom. En þegar við hér í þessari deild erum í sjöundu umræðu um lánsfjárlög að spyrja ráðherrann: Hvað vilt þú gera í vaxtamálum? gengismálum? verðlagsmálum? þá er annar uppi en forðum, herra forseti, og þekkir maður nú satt að segja kappann vart fyrir sama mann. Þá segir hann: Kjarasamningar munu skera úr um þetta. Ég hef enga stefnu. Ég er bara fjmrh. Ég bara vinn hérna. Ég hef enga stefnu. Enga skoðun.

Þess vegna ítreka ég það sem hv. 6. þm. Reykv. gerði hér líka áðan: Ég vil fá að vita hver stefnan er. Hvaða stefnu hefur þessi partur af ríkisstjórninni sem hæstv. fjmrh. er? Hefur hann kannski þriðju stefnuna eða hvað?

Ég þakka hv. 5. þm. Austurl. fyrir þær upplýsingar sem fram komu í máli hans um Áburðarverksmiðjuna. Þær skiptu mig máli. Það eru ekki lítil tíðindi að hæstv. fjmrh. lýsir því yfir að skuldir Áburðarverksmiðjunnar um þessi áramót séu í kringum 460 millj. kr. Ég veit ekki betur en hann fullyrti það. En síðan leiðréttir hv. 5. þm. Austurl. það með mjög veigamiklum hætti. Og það er mjög mikilvægt að koma slíkum upplýsingum á framfæri við hæstv. fjmrh., að láta hann vita hvernig staðan er í þeim fyrirtækjum sem hann er að tala um og mæla fyrir hér á hv. Alþingi sem húsbóndi þessa málaflokks.

Ég tel ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara frekar út í þessi mál að sinni. En ég ítreka: Hvar er verið að endurskoða útvarpslögin? Hver er að því? Er það hv. 3. þm. Vesturl. einn? Eða hver er að því? Hver er stefnan í vaxtamálunum? Þetta viljum við fá upp. Og það er alveg ástæðulaust að sleppa ráðherranum út úr deildinni án þess að hann svari þessu úr því að það tókst að svæla hann inn í deildina á annað borð, þó seint væri.