14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4025 í B-deild Alþingistíðinda. (2803)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil fyrst láta í ljós nokkra undrun og vonbrigði yfir því að hv. 6. þm. Reykv. þótti sem ég hefði verið með einhverjar dylgjur þegar ég var hér áðan einmitt að taka undir það sem þessi hv. þm. sagði í gærkvöldi að það væri nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. hlustaði á spurningar þm. Ég var einmitt að taka undir það með þessum hv. þm. sem hann sagði í gærkvöld, að þm. hefðu öðrum skyldustörfum að gegna en að sitja hér inni í deildinni að ástæðulausu. Einmitt vegna þess að ég skildi afskaplega hvað þessi hv. þm. sagði þegar hann talaði um það að tími þm. væri dýrmætur og við ættum að bera virðingu fyrir tíma hvers annars. Þá vildi ég leggja áherslu á það að við mundum líka reyna að nota tímann vel í dag úr því að við værum nú saman komin hér og reyna að tala almennilega um það frv. sem fyrir liggur.

Við höfum nú á undanförnum dögum haft það heldur náðugt á meðan neðri deild hefur staðið í ströngu. Maður getur satt að segja ekki skilið hvað þeir eru málglaðir í neðri deild. Ég hef að vísu átt þar sæti í mörg ár og veit að þar eru margir mælskir og málsnjallir menn, sem hafa sumir komið hér upp í deildina og maður hefur fengið að hlýða á hér sér til mikillar ánægju og veltir því stundum fyrir sér hvernig mundi fara fyrir efri deild ef þetta fólk hefði ekki komið upp í deildina. Til allrar hamingju hefur nú sumt af þessu fólki komið hingað upp þannig að maður hefur fengið að hlusta á snjallar og góðar ræður. Og ég vildi endilega áður en þinghlé verður fá að hlusta á eitthvað meira af þessu. (Gripið fram í: Er ekki ein ræðan að koma núna?)

Ég vil líka í annan stað segja það að þessi ummæli hv. þm. um dylgjurnar í mér eru kannski sprottin af því að ég held að stundum leiðist þessum hv. þm. hér í þinginu. Ég hef orðið var við að hann er afskaplega . . . — Herra forseti, nú hef ég fengið tvo úrskurði um hvernig á að ávarpa þingmann sem er kona. Ég man að fyrrv. formaður Framsfl., Eysteinn Jónsson, gaf þann úrskurð að það ætti að segja háttvirtur þingmaður og þar af leiðandi hann, en fyrsti varaforseti þessarar deildar hefur sagt að það eigi að segja háttvirtur þingmaður en hins vegar hún. Nú væri fróðlegt að fá að vita svo maður kunni sig hvað hæstv. forseti segir um þetta. (Forseti: Í þingsköpum segir að þm. skuli ávarpaðir sem háttvirtir, og við munum halda okkur við þingsköpin hér í hv. Ed.) Sem sagt hvorki hann né hún heldur háttvirtur, og er það Salómonsúrskurður eins og var að vænta hjá hæstv. forseta. — Mér finnst sem sagt að þessi hv. þm. sé stundum þannig þenkjandi að hann ætli mönnum illt. Að hann tali um okkur eins og við viljum ekki jafn vel og hv. þm. Og ég hef tekið eftir því hér í deildinni að hv. þm. er að tala um það að ýmsir aðrir séu ekki í eins miklum tengslum við fólkið í landinu og vera skyldi, sem auðvitað gefur það í skyn að þessi hv. þm., einmitt hann sé betur kominn í þessum efnum, sé miklu nánari fólkinu í landinu en einhverjir aðrir. Og vegna þess að mér hefur skilist að ég sé í hópi þessara „hinna“ og við sem viljum styðja þá ágætu hæstv. ríkisstjórn sem nú situr, þá þykir mér svolítið leiðinlegt að fá þennan dóm hjá hv. þm. sem ég veit raunar að vill ekki vera dómharður, heldur sanngjarn í sínu máli. (Gripið fram í. ) En ég hygg hins vegar að þessi umræða sé að verða vinsæl upp á síðkastið að koma hér upp í ræðustól og tala í kringum hlutina en ekki nálgast efnið beint.

Það er t.d. mjög eftirtektarvert að þegar við komum inn í þessa hv. deild í morgun, þá var hér sjónvarpsvél beint að ræðumanni í þingsal til að byrja með, til að sjá hvernig fundurinn færi af stað fyrst eftir hléið sem var í nótt. Síðan allt í einu hvarf sjónvarpsmaðurinn á brott og enginn veit hvers vegna. Kannski var upphafið á umræðunni svona ómerkilegt að sjónvarpsmennirnir misstu áhugann. (Gripið fram í.) Kannski eru þeir ekki myndrænir þeir þm. sem við taka. Maður gerir sér ekki almennilega grein fyrir því. En hvort sem tilgangurinn hefur nú verið sá eða ekki að vekja athygli með eftirminnilegum hætti á því að deildinni tókst ekki að ljúka störfum í gær, þá hefur það nú vakið verðuga athygli og skulum við vona að þær umræður sem hér fara fram muni geri það líka.

Ég vil segja við hv. þm. að ég veit ekki hvort einungis er hægt að mæla dugnað ráðherra eftir því hvort þeir sitja yfir umræðum sem kannski varða ekki beint þeirra mál sérstaklega. Einhver duglegasti ráðherra, man ég, sem talað var um á árum áður, Magnús Jónsson, var t.d. ekki ævinlega mjög þaulsætinn í Sþ., ef ég man rétt, fór fljótt þá úr húsinu og fór að vinna uppi í fjmrn. Á hinn bóginn var hann mjög þaulsætinn yfir sínum eigin málum og því sem honum þótti varða sérstaklega sitt ráðuneyti. Því vitaskuld þurfa ráðherrar í mörg horn að líta og ég tala nú ekki um þegar þingfundir hafa dregist svo mjög á langinn sem orðið hefur nú í haust og á þessum vetri, þá er auðvitað eðlilegt að ráðherrar verði að grípa hverja stund sem þeir geta til þess að gegna öðrum skyldustörfum sínum en þeim að sitja undir ræðum hv. þm. Nú var ég ekki beðinn um það í gær að reyna að safna saman öllum ráðherrum Sjálfstfl. hér inn í deildina, en hefði auðvitað lagt mig fram um það ef sú ósk hefði fram komið, að öðru leyti en því sem við töluðum um og rætt var um.

Ég verð að segja líka vegna þeirrar miklu áherslu sem Kvennalistinn hefur lagt á framgang og viðgang Ríkisútvarpsins að það kom mér nokkuð á óvart þegar ég fletti upp í þeim brtt. sem Kvennalistinn bar fram við fjárlagafrv. að ég skyldi ekki rekast á neina brtt. sem varðaði Ríkisútvarpið frá þm. Kvennalistans. Er það rétt tekið eftir? Það þykir mér mjög undarlegt vegna þeirrar miklu áherslu sem Kvennalistinn hefur einmitt lagt á Ríkisútvarpið í sambandi við lánsfjárlögin og afgreiðslu þeirra. Nú vitum við hins vegar og er uppi sá skilningur í fjh.og viðskn., og hefur ekki verið einskorðaður við einn flokk, að eðlilegt sé að lánsfjárlögin taki mið af fjárlögunum og oft hafa lánsfjárlög verið afgreidd í mjög miklu hasti í tímaþröng fyrir jólin, einmitt eftir þeim niðurstöðum sem orðið hafa í fjvn. Það eru auðvitað fjárlögin sem eiga að marka útgjöld ríkisstofnana. Þess vegna hefði það verið eðlilegur vettvangur fyrir Kvennalistann að taka málið með miklum dugnaði og myndarskap upp við afgreiðslu fjárlaganna. Ef tillögur þar hefðu síðan verið samþykktar hefði auðvitað komið af sjálfu sér að við hefðum lagt til að breyta þessu frv. í samræmi við það.

En þarna kemur í ljós hjá Kvennalistanum við afgreiðslu fjárlaganna eins og við þekkjum raunar þm. allir, þegar menn eru að reyna að stilla í hóf útgjaldakröfum sínum, að eitthvað verður að liggja eftir. Og nú var það val Kvennalistans eftir að hann hafði lagt fram brtt. við fjárlagafrv. að láta Ríkisútvarpið sitja á hakanum fremur en margt annað. Ég er alls ekki með þessu að segja að ég efist um einlægan vilja Kvennalistans til þess að auka umsvif Ríkisútvarpsins. Það eina sem ég er að segja með þessu er að líka í brtt. stjórnarandstöðunnar kemur fyrr eða síðar að því að þeir sem kröfuharðastir eru verða að láta eitthvert lát verða á aðfinningum eða brtt. til þess að þeir verði ekki að almennu athlægi meðal þjóðarinnar. Þess vegna er það nú svo að jafnvel sá þm. Kvennalistans sem átti mikinn þátt í því að byggja upp atvinnuleikhúsið á Akureyri, hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir, flutti margvíslegar brtt. við lista- og menningarlið fjárlagafrv. en sleppti á hinn bóginn þessu gamla óskabarni sínu, Leikfélagi Akureyrar. Ugglaust ekki vegna þess að þessum hv. þm. hafi ekki runnið blóðið til skyldunnar og hafi ekki viljað hækka þau framlög heldur hefur þm. fundist að svo vel væri gert við þetta einstaka leikfélag að það væri úr samhengi við aðra liði þessa útgjaldaliðar að bera fram frekari tillögu til hækkunar þar. Ég dreg alls ekki í efa einlægan vilja einmitt þessa þm. til þess að styðja almennt að leiklistarstarfi í landinu. Ég dreg það ekki í efa. En það sýnir líka með öðru að einhvers staðar verða menn að stoppa og með einhverjum hætti kunna sér hóf, líka í sínum björtustu og villtustu brtt. Ég held að nauðsynlegt sé að þetta komi fram.

Það var annað sem vakti mikla athygli mína í þeim umræðum sem fram hafa farið og það voru þær útskýringar sem hæstv. fjmrh. gaf á 7. gr. frv. sem varðar Herjólf hf., Vestmannaeyjum. Eins og sá liður var í lánsfjárlagafrv. upphaflega segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Herjólfi hf., Vestmannaeyjum er heimilt að taka lán á árinu 1988 að fjárhæð 100 millj. króna, eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt til hönnunar og smíði ferju.“ Nú er það auðvitað svo að þegar Alþingi með þessum hætti heimilar að ríkisábyrgðir séu veittar fyrir Herjólf hf. til töku erlends láns, þá er ætlast til þess að fjmrh. meti lánsbeiðnina þegar þar að kemur, meti hvaða tryggingar rétt sé að setja fyrir lánsbeiðninni og meti hvort skynsamlega og rétt sé staðið að hönnun og smíði hinnar nýju ferju. Og ef ágreiningur kemur upp milli hlutafélagsins og fjmrh. er það auðvitað fjmrh. sem hefur síðasta orðið. Það er því alls ekki hægt að halda því fram að nein efnisrök hafi verið af hendi fjmrh. til þess að koma því sérstaklega að að hann skyldi meta þessa hluti.

Á hinn bóginn verður ekki skilið öðruvísi en svo þegar þessir tveir hv. þm., 4. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson, fyrrv. formaður Alþfl., og Guðmundur G. Þórarinsson, 10. þm. Reykv., leggja slíkt ofurkapp á að fjvn. megi fylgjast með málinu, og ekki nóg með, það bæta síðan öðrum ráðherra við, hæstv. samgrh., og deildin samþykkir þessar brtt., þá liggur auðvitað mjög nærri að líta svo á að í þessu felist visst vantraust á hæfni fjmrn. til að fara eitt með þessi mál. Og er eftirtektarvert að þessir þm. skuli einvörðungu binda sig við Herjólf í málinu en ekki ýmislegt annað. Það er í mínum huga algjörlega út í bláinn að bera þetta saman við samgöngubætur eins og t.d. jarðgöng, sem eru mjög vel undirbúin og hönnuð öll af Vegagerð ríkisins og allt, allt annars eðlis, og hafa fengið mjög mikla umfjöllun í þinginu.

Á hinn bóginn hlýt ég að segja að ef þessi háttur á að verða tekinn upp í fyrsta lagi að lánsfjárlög verði með öllum þeim fyrirvörum sem neðri deild gekk frá í sambandi við þetta sérstaka atriði, þá hlýtur að vakna sú spurning hjá okkur, t.d. í mínu kjördæmi, hvernig á því megi standa að þessir tveir þm. sem fluttu brtt. skyldu ekki taka með aðrar ferjur eins og t.d. ferjuna til Hríseyjar sem eins stendur á um. Þörfin er brýn alveg eins og þörfin er brýn á nýrri Vestmannaeyjaferju. Vilji þingsins stendur áreiðanlega til þess að sómasamlega sé séð fyrir samgöngum Hríseyinga, eins og fram kom á afgreiðslu fjárlaga á sl. ári. En á hinn bóginn þótti mönnum sem undirbúningur málsins væri ekki kominn á það stig að hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. teldu sig geta mælt með því að Hríseyjarferjan yrði tekin inn sem sérstakur liður í lánsfjárlagafrv. Ég veit ekki betur en þetta sérstaka mál hafi verið athugað í fjh.- og viðskn. Ed. Og við treystum hæstv. fjmrh. fullkomlega til að fara með málið og töldum það satt að segja í góðum höndum þar sem hæstv. fjmrh. er, enda veit hann það af fyrri ummælum mínum að ég ber til hans mikið og óskorað traust.

Ég tel með öðrum orðum að það hafi verið fullkomlega eðlileg, heiðarleg og skynsamleg vinnubrögð í málinu þó svo að setningin hefði verið óbreytt eins og hún var upphaflega. En ég ítreka það sem ég sagði í gær, hæstv. forseti, af tilefni tillöguflutnings þessara tveggja þm. sem voru svo mikið að flýta sér að þeir urðu við sömu umræðuna að flytja brtt. við sína eigin brtt. sem er nú næsta fátítt í þinginu. Það er eins og þeir hafi ekki lesið prófarkir að þessum fáu orðum sem brtt. var, svo mikið var fumið og fátið, eða þeir hafi ekki hugsað málið í botn.

En við höfum því miður orðið varir við það oftar en í þessu eina máli að einmitt þessir tveir þm. hafa verið með undanskot og hafa verið að reyna að smokra sér hjá því að taka fyllstu ábyrgð á stjórnarstefnunni og vilja þó báðir láta taka sig hátíðlega í sínum eigin flokkum og tala með alvöruþunga í fjölmiðlum. Þeir eru nú svo ungir að ég vil ekki nefna elliglöp í þessu sambandi. En það er þó a.m.k. löngun til að vekja athygli á sér. Það er löngun til þess.

Auðvitað vitum við öll að einstakir þm. stjórnarmeirihlutans þurfa að kyngja ýmsu. Auðvitað vita menn það um þann mann sem hér stendur í stólnum að hann er ekki fullkomlega sammála eða sáttur við hvert einasta atriði í stjórnarstefnunni. Skárra væri það nú! Auðvitað er hann það ekki. En maður verður að láta mikið yfir sig ganga þegar maður vill styðja góða menn til góðra verka. Og eins og oft hefur komið fram þá eru auðvitað þriggja flokka stjórnir örðugri heldur en tveggja flokka og best væri auðvitað ef einn flokkur gæti farið með meirihlutavald í landinu. Við vöktum einmitt athygli á því sjálfstæðismenn fyrir síðustu kosningar að svo gæti farið, eins og mál þróuðust, að við mundum uppskera þriggja flokka ríkisstjórn sem að sjálfsögðu reynir miklu, miklu meira á samheldni, á þolinmæði heldur en þær stjórnir sem eru tveggja flokka.

Það er kannski af þessum sökum, hv. 7. þm. Reykv., sem þessar þriggja flokka stjórnir taka ekki eins mikið tillit til stjórnarandstöðunnar og tveggja flokka stjórnir. Ég veit að þessi hv. þm. hefur orðið fyrir vonbrigðum með að það skuli ekki vera tekið nógu mikið tillit til sín núna, en hann veit líka, hv. þm., að þetta er ekkert einsdæmi.

Ég hef nú lifað það af að vera í stjórnarandstöðu hér í þinginu, þegar hv. 7. þm. Reykv. var ráðherra. Það væri fróðlegt að fá að vita um eitthvert það mál þar sem sú ríkisstjórn var reiðubúin til að taka svona elskulegt tillit til Sjálfstfl. Ég er ekki alveg viss um að ég muni vel eftir því. Á hinn bóginn man ég vel eftir því að meðan þessi hv. þm. var hæstv. ráðherra var hann allra manna lipurlegastur í umgengni og vildi mjög mikið fyrir mann gera svo langt sem það nú náði. Þannig að ég dreg alls ekki í efa að hann meinar það þegar hann talar um að við eigum að sýna hvert öðru sáttfýsi og tillitssemi og ég get vel tekið undir það. En sé það þurrafrekja núna, var það þá ekki þurrafrekja einhvern tímann áður líka? Auðvitað vill ríkisstjórnin eiga sín blóm. Auðvitað vill ríkisstjórnin miklu fremur sjálf standa að þeim málum sem ganga fram í þinginu heldur en taka upp tillögur stjórnarandstöðunnar. Svo hefur það alltaf verið, enda er það nú svo að tillögur ríkisstjórnarinnar eru svona yfirleitt miklu betur hugsaðar og betur meinandi og taka meir og betur tillit til aðstæðna allra.

Ég vil að síðustu, herra forseti, aðeins segja að ég skil vel þær áhyggjur sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa lýst vegna hins almenna efnahagsástands í landinu og þær miklu áhyggjur sem þeir hafa vegna stöðu útflutningsatvinnuveganna, vegna verðbólguþróunar, eins og henni hefur verið spáð vegna stöðu gengisins. Ég skil auðvitað mjög vel þeirra áhyggjur.

Það hefur áður komið fyrir að skyndilega hafi brugðið til hins verra í íslenskum þjóðarbúskap og við vitum líka að stundum hefur borið við að skyndilega hafi brugðið við til hins betra. Ég hafði pínulítið gaman af því þegar ég sá það í sjónvarpsþætti í fyrradag að hinn nýi formaður Alþb., sem er prófessor í þjóðhagfræði eða hvað það nú heitir (Gripið fram í: Stjórnmálafræðum.) stjórnmálafræðum og heimskunnur leiðtogi, skuli vera svo mikið barn að halda það að 40% hækkun á fiski stafi af 10% söluskatti. Það sýnir náttúrlega ótrúlega mikinn barnaskap og væri kannski rétt fyrir fyrrv. formann Alþb. að kenna þessum eftirvera sínum prósentureikning svo að hann verði betur undir það búinn næst þegar hann fer í sjónvarpið að tala svona mennilega um þá atburði sem hafa verið að gerast. Nema ef vera kynni að þessi nýi formaður Alþb. vilji bæta um betur frá þeim gamla og telji sig sérstakan vin kaupmannanna í landinu og ætli að slengja allri ábyrgðinni af einhverri okurálagningu þeirra á ríkisstjórnina, ef hann vill nú telja að þessar miklu hækkanir, sem hann var að lýsa, séu allar þessari 10% hækkun að kenna. (Gripið fram í.) Svona er þetta ekki. Fiskverðið hækkaði líka, var það ekki? Það komu fleiri kurl til grafar. Það hefði þessi hv. þm. Snæfellinga getað sagt formanni sínum, ef hann hefði verið nærstaddur. Ég held að hann ætti að taka þennan hv. þm. með sér í sjónvarpið næst þegar hann fer þangað. Þá mundi hann ekki segja þessa endemis vitleysu sem hann var að hafa uppi þarna. (Gripið fram í.) Það var frelsið, já. Nú væri fróðlegt að vita hvort þessi hv. þm. væri á móti hækkun fiskverðsins. (SkA: Nei.) Ekki held ég að hann sé nú billegastur allra. Ef maður á að kaupa af honum fiskinn, þá held ég að hann sé ekki fús til þess að gefa mikið eftir í verðinu.

Auðvitað hljótum við að hafa áhyggjur af því hvernig þessi þróun er. Þessi núv. formaður Alþb. var að tala um spádómsgáfu sína. Ætli hann hafi sagt það fyrir hver yrði kaupmáttaraukning á sl. tveim árum? Ætli hægt sé að finna einhvers staðar orð eftir honum um það hvað hann hefði talið skynsamlegt að þjóðarbúið gæti staðið undir? Ætli hann hafi ekki líka einhvern tíma komið nálægt ríkisstjórn, borið ábyrgð á ríkisstjórn og ætli ástandið á þeim tíma hafi ekki líka verið ógæfulegt, ekki síður og raunar miklu fremur? Auðvitað höfum við miklar áhyggjur af því, Íslendingar, þegar sveiflan er niður á við og við vitum það núna að við getum ekki búist við því einu sinni að kaupmáttur vaxi á þessu ári, heldur hljótum við að gera okkur grein fyrir því að horfur eru á að kaupmáttur verði ekki jafnmikill að meðaltali og hann var á sl. ári. Margt bendir til þess. Þess vegna ríður á miklu að víðtækt samkomulag takist um það milli aðila vinnumarkaðar og við ríkisstjórn, við þá sem bera opinbera, pólitíska ábyrgð að reyna að halda þannig á spilunum að ekki sé verið með vilja að efna til óvinafagnaðar. Einhvern tímann var sagt að sjálfskaparvítin væru verst. Við Íslendingar búum nú við mjög góðan efnahag. Kaupmáttur hefur vaxið verulega. Það var núna síðast í morgun verið að ræða við einn iðnrekanda sem sagði að hann væri búinn að flytja hluta af framleiðslu sinni til Skotlands vegna þess að vinnulaun þar í landi væru lægri en hér á landi. (Gripið fram í.) Hann var að tala um vinnulaunin. (SkA: Ekki nefndi hann það sérstaklega. ) Hann var nú að gera það. Hann hefur kannski verið á fleiri en einni rás, en þar sem ég hlustaði var hann að því. Þá mun náttúrlega á það reyna að víðtækt samkomulag takist um það að ná bærilegum kjarasamningum sem tryggi sem mestan kaupmátt í landinu og feli helst í sér leiðréttingu fyrir þá sem verst eru settir. En það vitum við þm., og það veit raunar þjóðin öll, að eftir því sem verðbólgan vex eftir því er við því að búast að mismunun verði meiri í þjóðfélaginu og halli á þann sem minnst má sín.

Hér er verið að tala um vaxtamálin. Það er alveg rétt hjá hv. 7. þm. Reykv. að þessi ríkisstjórn hefur áhyggjur af þróun peningamála eins og fram kemur í því að nú er stefnt að því að ríkissjóður verði rekinn hallalaus á þessu ári og þannig megi draga úr innlendri lánsfjárþörf ríkissjóðs, sem aftur mun rýmka fyrir öðru, og gæti verið til þess fallið að lækka vextina. Þannig er með þessum aðgerðum og með þessari stefnu í opinberum fjármálum auðvitað verið að stuðla að því að vextir megi lækka.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ástæða er til að tala mikið lengur. Ég var mjög ánægður yfir því þegar ég sá það í sjónvarpinu að formaður Alþb. hefur skilning á því nú að nauðsynlegt sé að fara með gát á þessu ári, nauðsynlegt sé að reyna að standa þannig að kjarasamningum að tryggja kaupmáttinn í landinu og tryggja það að verðbólgan fari ekki upp á nýjan leik. Við höfum dæmi um það úr verkalýðsbaráttunni, nýleg dæmi að slík samstaða getur orðið mjög gagnleg og árangursrík. Og ég vil vænta þess að menn beri gæfu til að láta skynsemina ráða þannig að það ár sem nú er að hefjast verði gjöfult og að þær svörtu verðbólguspár, sem sumir eru að láta uppi, rætist ekki.