14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4033 í B-deild Alþingistíðinda. (2805)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég kvaddi mér einungis hljóðs vegna þess að hv. 7. þm. Reykv. beindi til mín spurningum, sem raunar er kannski ekki mitt að svara og væri frekar hæstv. menntmrh. að svara, varðandi þá endurskoðun sem nú á sér stað á útvarpslögunum.

Staðreyndir þess máls eru þær að meðan hv. núv. þm. Sverrir Hermannsson gegndi embætti menntmrh. og af því að honum var það ljóst eins og mörgum öðrum að á núgildandi útvarpslögum eru margir annmarkar, þá skipaði hann nefnd til þess að endurskoða útvarpslög. Formaður þeirrar nefndar er Knútur Hallsson, ráðuneytisstjóri í menntmrn. Aðrir nefndarmenn eru Haraldur Ólafsson, fyrrv. alþm., og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi að ég hygg. Þessa þriggja manna nefnd skipaði Sverrir Hermannsson meðan hann gegndi embætti menntmrh. Hún er að störfum og mér er um það kunnugt að nefndarmenn hafa rætt við forustumenn Ríkisútvarpsins og þeir hafa rætt við forsvarsmenn og fulltrúa ýmissa annarra ljósvakamiðla, þeirra sem hér starfa.

Ég hygg að svo sé ráð fyrir gert að þessi nefnd ljúki störfum nú síðla vetrar. En ég get auðvitað ekkert um það sagt og engu um það spáð hvenær nýtt frv. til útvarpslaga kunni að sjá dagsins ljós. Það verður vonandi ekki mjög löng bið á því, en auðvitað á þetta mál eftir að fá alla pólitíska umfjöllun í þingflokkum. Þetta er mál sem hlýtur að verða mjög mikið rætt hér þegar þar að kemur.

En vegna þess að til mín var beint þessari spurningu taldi ég rétt að gefa a.m.k. þessar upplýsingar sem ég vissi bestar og réttastar á þessu stigi máls.