14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4035 í B-deild Alþingistíðinda. (2807)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Mér þótti vænt um að heyra að hv. 6. þm. Reykv. Guðrún Agnarsdóttir beindi tali sínu ekki sérstaklega til mín þegar hún hafði uppi ásakanir á ráðherra fyrir fjarveru þegar þeirra mál væru til umræðu og viðurkenndi að ég hefði reynt eftir föngum að vera viðstaddur umræðu þeirra mála sem ég er forsvarsmaður fyrir hér á Alþingi.

Annað mál: Um fjárhag Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Það lætur nærri að Framkvæmdasjóður fatlaðra hafi til ráðstöfunar á þessu ári um 270 millj. kr. sem er sú upphæð sem hv. 7. þm. Reykv. taldi að honum bæri lögum samkvæmt.

Þriðja mál: Um Áburðarverksmiðjuna og spurninguna um það hvort tillaga sú sem hér hefur verið flutt er tímabær. Mér láðist að geta þess að eitt af þeim tæknilegu atriðum sem eru ókönnuð en þarf að rannsaka fyrir 1. febr. er hvort mögulegt kunni að vera að stilla þannig saman framleiðslu verksmiðjunnar að það ammoníak sem þar væri framleitt yrði notað jafnóðum til köfnunarefnisframleiðslu svo að ekki kæmi til birgðasöfnunar af þeim sökum. Einnig að í stað þess að flytja inn ammoníak og geyma á verksmiðjusvæði þá verði kannað hvort ekki yrði hægt að flytja inn í staðinn áburð á framleiðslustigi sem svo yrði fullunninn í verksmiðjunni. Ef þetta reyndist tæknilega fýsilegt yrði þessi umræddi og háskalegi tankur óþarfur.

Að því er varðar skuldastöðu Áburðarverksmiðjunnar vil ég aðeins árétta það að ég sagði ekki eitt einasta orð um það hvort þetta fyrirtæki væri til vandræða, vel eða illa rekið eða nokkurn skapaðan hlut. Það er reyndar á hvers manns vitorði sem til þekkir að gert hefur verið átak í að bæta rekstur verksmiðjunnar, sem m.a. kemur fram í því að samkvæmt ársreikningum Áburðarverksmiðjunnar hefur skuldastaðan farið heldur batnandi. Þannig voru skuldirnar 1983 544 millj., 1984 832,5 millj., 1985 tæplega 800 millj., 1986 640 millj. og svo samkvæmt áætlun 1987 þessar 450 millj. rúmlega, en þá er þess líka að geta að framleiðslumagn áburðar hefur snarminnkað á undanförnum árum. (EgJ: Þetta voru betri upplýsingar heldur en í fyrri ræðunni.) Þær eru svolítið ítarlegri. Í fyrri ræðunni var nefnd ein tala, nú eru nefndar fleiri tölur samkvæmt sömu heimildum.

Herra forseti. Tveir hv. þm. hafa spurst fyrir um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum og kvartað undan því að sá sem hér stendur var ekki fús til þess að efna til eldhúsdags um vaxtamál. Ég tek undir með hv. þm. að það væri vissulega fróðlegt að efna til mjög rækilegrar umræðu um vaxtamál, um starfskjör atvinnuveganna, um gengismál o.s.frv. þó að ég sé reyndar þeirrar skoðunar að til þess sé ekki staðurinn eða stundin nú.

Það væri fróðlegt að hér færu fram umræður um hverjar eru helstu orsakir fyrir umtalsverðri hækkun raunvaxta sérstaklega á undanförnum árum.

Það væri fróðlegt fyrir Alþingi að skoða þann lagaramma sem Alþingi hefur búið framkvæmdavaldinu með því að vaxtaákvörðunarvaldið er í stórum dráttum tekið af ríkisstjórn, með þeim fyrirvara þó að Seðlabankinn hefur íhlutunarvald að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Sömuleiðis væri afar fróðlegt að fara í ítarlega umræðu sem fæli í sér að gera samanburð á þróun raunvaxta hér á landi og í helstu viðskiptalöndunum. Sá samanburður mundi leiða í ljós að margar þær fullyrðingar sem hafa verið hafðar í frammi af hv. stjórnarandstöðu í því efni fá ekki staðist.

Sömuleiðis væri afar fróðlegt að hafa uppi umræðu um þróun vaxta og áhrif vaxta á fjármagnskostnað og hag fyrirtækja. Í því efni vil ég sérstaklega nefna að fjármögnun fyrirtækja í sjávarútvegi og fiskiðnaði er að verulegu leyti erlent fé sem lýtur heimsmarkaðskjörum á vöxtum sem við fáum ekki um þokað. Breytingar á vaxtastefnu hér innan lands mundu ekki hafa umtalsverð áhrif á rekstrarstöðu þessara fyrirtækja. Hins vegar er það álitamál hvort þróun raungengis hér á landi eða öllu heldur þær breytingar sem átt hafa sér stað á hlutfallslegu verðmæti hinna ýmsu gjaldmiðla hefðu ekki haft meiri áhrif og sneggri umskipti í för með sér til hins verra fyrir þessi fyrirtæki heldur en jafnvel þróun vaxta.

Sömuleiðis væri ákaflega fróðlegt fyrir hv. alþm. að efna til vandlegrar umræðu um skattmeðferð á vaxtatekjum og þau áhrif sem núverandi skattareglur hafa í þá átt að skapa hér því sem næst takmarkalausa eftirspurn eftir lánsfé og bera þær skattareglur sem hér gilda saman við það sem gildir í öðrum háþróuðum löndum í kringum okkur, t.d. sér í lagi í Bandaríkjunum og reyndar flestum löndum Efnahagsbandalags Evrópu.

Allt væri þetta fróðlegt. Sömuleiðis að lýsa skoðunum sínum á því hvaða leiðir eru færar innan núgildandi lagaramma til þess að stuðla að lækkun raunvaxta. Ég skal nefna nokkur atriði sem mér eru ofarlega í huga:

1. Að ríkið dragi snarlega úr hallarekstri sínum. Að ríkið reyni að reka sinn rekstur miðað við forsenduna: Jöfnuður í ríkisfjármálum, að afla sem mestra tekna fyrir sínum útgjöldum. Ekkert eitt atriði hefur verið gagnrýnt jafnharkalega af hv. stjórnarandstöðu og þessi viðleitni núverandi hæstv. ríkisstjórnar. Þetta er þó skilyrði fyrir því að ríkisvaldið minnki afskipti sín, samkeppnisáhrif sín á þröngum og ófullkomnum innlendum fjármagnsmarkaði og sé þar af leiðandi ekki spennuvaldur í því að hækka vexti.

2. Mínar hugmyndir mundu snúast að því að endurskipuleggja bankakerfið á Íslandi sem er úrelt og óhóflega dýrt í rekstri. Af okkar hálfu hefur verið uppi viðleitni til þess, stefnumótun í þá átt og viðleitni í þá átt, en sætt verulegri gagnrýni hér á hinu háa Alþingi. Um það virðist ekki vera samstaða að það sé mjög nauðsynlegt að vinna snarlega að því að endurskipuleggja bankakerfið í formi stærri og öflugri hlutafjárbanka, þar sem viðskiptaleg ábyrgð væri í heiðri höfð fremur en pólitísk stýring. (Forseti: Ég vil minna á að það er reiknað með fundi í sameinuðu þingi kl. eitt.) Ég tek tillit til þess og mér er kunnugt um það. Ég er að reyna að gegna þinglegri skyldu minni að svara fsp. sem beint hefur verið til mín. (EgJ: Þetta er nú komið út fyrir það.) Nei, nei. Það var spurt um vaxtastefnu og spurt um hvaða skoðanir ég hefði á vaxtastefnu og ég hef verið ávítaður tvisvar af hv. stjórnarandstæðingum fyrir að hafa ekki virt fyrirspyrjendur svars.

3. Mínar hugmyndir beinast að endurskipulagningu . . . (GHG: Ráðherra ræðst hér á bankastarfsemi í landinu í ræðu sinni.) Á bankastarfsemi? Ég er að lýsa pólitískum hugmyndum, stefnumiðum um endurskipulagningu á bankakerfinu. (GHG: Hvernig getur ráðherrann fullyrt svona í ræðustól?) Herra forseti. (Forseti: Má ég biðja hv. þm. að gæta tungu sinnar. Það er venja hér að einn sé í ræðustól og það verði einn sem hafi orðið og ég bið menn að lúta fundarsköpum.) Nú er mér borið á brýn, herra forseti, að ráðast á fjarstaddan aðila sem mér skilst að sé bankakerfið. En það voru engar athugasemdir gerðar við það þegar hv. þm. Halldór Blöndal . . . (Gripið fram í.) Það voru engar athugasemdir gerðar við það þegar hv. þm. Halldór Blöndal fór nokkrum orðum um nýkjörinn formann Alþb. sem líka var fjarstaddur eins og bankakerfið.

Þriðja atriðið, ef ég má koma því til skila, beinist að endurskipulagningu á fjármagnsmarkaðnum. Hann er ekki frjáls markaður. Hann er takmarkaður fámennismarkaður. Mínar hugmyndir um það væru í þá átt að samræma starfsskilyrði endurskipulagðs bankakerfis og þessa fjármagnsmarkaðar þannig að þær skyldur og kvaðir sem lagðar eru á bankakerfið hefðu líka sín áhrif að því hvað varðar þróun fjármagnsmarkaðarins utan hins eiginlega bankakerfis.

Fjórða meginatriðið sem gæti stuðlað að lækkun vaxta væri algjör endurskipulagning á fjármögnun húsnæðislánakerfisins. En eins og það er núna hefur verið búin til endalaus og takmarkalaus eftirspurn eftir niðurgreiddum lánum. Þjóðin er komin öll í biðröð eftir þessum lánum samkvæmt sjálfvirkum formúlum og það er skammt í það að ríkið beri alla ábyrgð á 70% af íbúðarhúsnæði þjóðarinnar innan skamms tíma.

Fimmta atriðið mundi snúast að aukinni samkeppni í þessum fjármagnsmarkaði, þ.e. heimildum erlendra banka til þess að reka starfsemi hér á landi, en það þarf til þess að knýja bankakerfið til raunverulegrar samkeppni.

Sjötta atriðið mundi síðan snúast að endurskoðun á skattmeðferð vaxta og á endurskoðun, þegar þessi stefna hefur borið árangur, á ýmsum grundvallaratriðum vísitölukerfisins.

Þetta eru nú þau atriði sem mér finnst vera veigamest að því er varðar stefnumótun af hálfu stjórnvalda sem hefði það að markmiði að stýra fjármagnsmarkaðnum inn á æskilegri brautir og reyna að hafa hemil á óhóflegri hækkun vaxta. M.ö.o.: Að standa við það meginmarkmið stjórnarinnar að halda uppi jákvæðum raunvöxtum en hóflegum.

Það kom fram í mínu máli, og undir það tók hv. 7. þm. Reykv., að það mundi skipta sköpum hvernig til tækist með kjarasamninga, að gerðir verði raunhæfir kjarasamningar sem hafi það að markmiði að verja kjör hinna lægstlaunuðu um leið og stefnt yrði að hjöðnun verðbólgu á þessu ári. Það er mín skoðun að þegar slíkir samningar væru í sjónmáli ætti Seðlabankinn lögum samkvæmt hiklaust að beita frumkvæði sínu í vaxtamálum til þess að tryggja lækkun nafnvaxta samstiga lækkandi verðbólgu. Háum vöxtum fylgir vissulega vandi en hið eiginlega vandamál sem við er að fást er verðbólgan.