14.01.1988
Efri deild: 53. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4038 í B-deild Alþingistíðinda. (2808)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vakti athygli á því þegar ég kvaddi mér hljóðs um þingsköp hér fyrr í dag að nauðsynlegt væri að mjög ítarlegar umræður gætu átt sér stað hér í deildinni um þetta frv. og í tengslum við það og það veldur mér miklum vonbrigðum að hæstv. fjmrh., sem má tala svo oft sem honum sýnist, skuli gefa tilefni til mjög ítarlegrar umfjöllunar um mörg veigamikil mál í þjóðfélaginu, loksins þegar þeir nefndarmenn fjh.- og viðskn., sem láta sig málið varða, eru allir dauðir og fá ekki lengur að taka til máls í deildinni, og getur í skjóli þess komið hér með setningar sem vekja miklu, miklu fleiri spurningar heldur en svör.

Ég vil í þessu samhengi biðja hæstv. ráðherra allra náðarsamlegast að útskýra í fyrsta lagi hvað hann átti við með niðurgreiddum vöxtum hjá Húsnæðisstofnun og hvernig það — ég veit ekki hvort það á að kalla það stikkorð, sem hæstv. ráðherra var með — samrýmist þeim hugmyndum sem hæstv. félmrh. hefur um niðurgreiðslur vaxta, t.d. í sambandi við kaupleigukerfið. Væri fróðlegt að fá að vita um það, ég hef ekki frétt af því, en það væri fróðlegt að fá að vita um það hvort uppi séu hugmyndir um að draga úr þeirri auknu áherslu, sem fjárlagafrv. hefur þó verið með í sambandi við Byggingarsjóð verkamanna, þar sem gert er ráð fyrir því að auka mjög það fjármagn sem varið er til þess að veita ódýrustu lánin með 1% vöxtunum. Eru uppi hugmyndir um að falla aftur frá þessari stefnumörkun eða er á bak við þetta hjá fjmrh. sú hugsun að það eigi að sverfa enn að þeim sem njóta hinna óhagstæðu lána hjá Húsnæðisstofnun ríkisins? Og þykir honum hlutur þeirra sem búa við verri vaxtakjörin of góður?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað hann eigi við þegar hann er að tala um skattameðferð vaxta. Sérstaklega þykir mér athyglisvert að heyra hvort hann sé með það í huga að aftur verði heimilað að vextir verði að fullu frádráttarbærir til tekjuskatts vegna öflunar eigin húsnæðis. En eftir því sem raunvextir hækka, þá hlýtur maður að spyrja sjálfan sig að því hvenær að því komi að nauðsynlegt sé að endurskoða núverandi ákvæði skattalaga varðandi frádráttarbærni vaxta til þess að þeir sem eru að afla sér eigin húsnæðis og ekki falla inn í verkamannabústaðakerfið geti vænst þess að komast yfir þá erfiðu hjalla sem þeir verða nú að komast yfir líka vegna hárra raunvaxta og vegna vísitölukerfisins. Væri fróðlegt að fá að heyra hvaða hugmyndir eru uppi um endurskoðun á undirstöðuatriðum vísitölukerfisins.

Ég vil við þetta tækifæri aðeins lýsa því yfir að eins og á stendur í þjóðfélaginu er ég andvígur því að sparifé verði skattlagt. Ég mun beita mér gegn því. Ég tel að það sé mikil nauðsyn fyrir okkar þjóðfélag að hægt sé að draga úr erlendri skuldasöfnun og vísasti vegurinn til þess er auðvitað sá að efla innlendan sparnað. Þess vegna tel ég að það væri illa farið, ég tel það úr samhengi við ástand þjóðfélagsins ef uppi eru hugmyndir um það að fara að skattleggja sparifé.