14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4045 í B-deild Alþingistíðinda. (2821)

170. mál, veiting atvinnurekstrarleyfa til erlendra ferðaskrifstofa

Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Skv. lögum nr. 60/1976 um skipulag ferðamála og reglugerð nr. 175/1983 hefur Ferðamálaráð eftirlit með skipulögðum hópferðum erlendra aðila til Íslands. 1. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ferðamálaráð Íslands skal eftir því sem unnt er fylgjast með áætlunum erlendra aðila um sölu á hópferðum til Íslands í atvinnuskyni. Skal Ferðamálaráð kynna þeim með nægilegum fyrirvara ákvæði þessarar reglugerðar og sjá um að framfylgja þeim. Ferðamálaráð skal einnig eftir föngum kynna þeim aðrar þær reglur sem gilda um komu og dvöl erlendra ferðamanna á Íslandi.“

Á undanförnum árum hefur ferðamannaþjónusta verið ört vaxandi atvinnugrein hér á landi. Jafnframt því að þessi atvinnugrein hafi vaxið svo mjög hefur meira og meira borið á erlendum ferðahópum hér á landi sem eru á vegum erlendra ferðaskrifstofa. Virðist oft sem íslenskir aðilar komi þar hvergi nærri. Margir þessara hópa koma með allan mat með sér og gista í tjöldum. Er afrakstur Íslendinga af veru þessara ferðahópa á landinu því oft takmarkaður. Með auknum umsvifum erlendra ferðaskrifstofa hér á landi er hætta á að áhrif okkar á þróun ferðamála hérlendis verði minni og afraksturinn þá einnig.

Vafasamt er að erlendir aðilar sem hingað koma með hópa af fólki til að leyfa því að njóta sérstakrar náttúru landsins muni setja náttúruvernd í fyrsta sæti. Ég tel að strangar reglur þurfi að gilda um veitingu atvinnurekstrarleyfa þeirra ferðaskrifstofa sem skipuleggja ferðir um landið með hópa fólks, ekki síst erlendra. Ég leyfi mér ásamt hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur að spyrja samgrh. eftirfarandi spurninga sem eru á þskj. 184:

„1. Hve margar erlendar ferðaskrifstofur fengu atvinnurekstrarleyfi hér á landi árin 1986 og 1987?

2. Á hvern hátt fylgist samgrn. með því að þær ferðaskrifstofur sem hér starfa hafi til þess tilskilin leyfi frá íslenskum stjórnvöldum?

3. Hvernig er háttað miðlun upplýsinga til ferðaskrifstofanna um lög og reglur sem hér gilda og tengjast starfsemi þeirra á Íslandi?"