14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4055 í B-deild Alþingistíðinda. (2834)

216. mál, heilbrigðiseftirlit á innfluttri matvöru

Ingi Björn Albertsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Stefáni Valgeirssyni fyrir þessa fsp. því ég tel eins og hann mjög brýnt og nánast skilyrði að hér sé mjög strangt heilbrigðiseftirlit á innfluttri matvöru. Nægir að minna á þær fréttir, sem nú eru að berast af okkar útflutningsafurðum, um þær kröfur sem nú er verið að gera til sláturhúsa okkar og loka jafnvel fyrir okkur mörkuðum.

En það sem dreif mig helst hérna upp var viðhorf hæstv. ráðherra þar sem hans skoðun er sú að þetta eigi að skoðast í tolli áður en því er hleypt inn á markað og inn í landið. Ég tek mjög sterklega undir þetta því ég tel í hæsta máta vafasamt að dreifingaraðilar og verslanir skuli hafa þetta eftirlit með höndum.