14.01.1988
Sameinað þing: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4057 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

222. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Í gildandi lögum um vísitölu framfærslukostnaðar og skipan kauplagsnefndar, sem eru nr. 5/1984, segir „að kauplagsnefnd skuli ekki sjaldnar en á fimm ára fresti láta fara fram athugun á því hvort ástæða sé til að endurskoða grundvöll vísitölu framfærslukostnaðar og skuli sú athugun fyrst fara fram á árinu 1985. Ef allir nefndarmenn telja að lokinni slíkri athugun að endurskoðunar sé þörf getur kauplagsnefnd ákveðið að gera skuli nýja neyslukönnun til að endurnýja grundvöllinn.“

Í samræmi við þessi lagaákvæði þá ákvað kauplagsnefndin í júlí 1985 að láta gera á sínum vegum neyslukönnun á árunum 1985 og 1986. Þessi könnun fór þannig fram að tekið var af handahófi allstórt úrtak einstaklinga úr þjóðskránni og náði könnunin til heimila þess fólks sem í úrtakinu lenti.

Könnunin var tvíþætt. Annars vegar var ætlast til þess að þátttakendur héldu nákvæma búreikninga yfir öll útgjöld heimila sinna um tveggja vikna skeið, hins vegar skyldu þeir færa skýrslur um ársútgjöld vegna tiltekinna útgjaldaflokka, svo sem árskostnað af rafmagnsnotkun eða húsakyndingu, kaupum á húsbúnaði, heimilistækjum, bílum, um bílanotkun, um ferðalög og fleira af því tagi sem ekki verður fangað upp í tveggja vikna könnun. Að þessu leyti var könnunin lík þeirri sem gerð var árin 1978 og 1979 og sem núverandi vísitölugrundvöllur er á byggður. En hún var hins vegar frábrugðin fyrri könnun, og fyrri könnunum reyndar, og þar kem ég að nokkru að efni þeirra viðbótarspurninga sem hv. 7. þm. Reykv. jók í mál sitt áðan. Til dæmis náði þessi nýja könnun til alls landsins og jafnt til einhleypra sem hjóna með og án barna og til foreldra og annarra heimilismanna í þeim heimilum sem í úrtakinu lentu. Fyrri kannanir hafa hins vegar verið bundnar við höfuðborgina og eingöngu tekið til hjónafólks, hvort sem þau voru með börn á framfæri sínu eða ekki, miðað við 17 ára aldur og yngri. Þetta er mikilvæg viðbót við þessa könnun og gefur vonandi færi á að finna nýjan fróðleik í þessu efni, m.a. um framfærslukostnað á landsbyggðinni, sem hv. þm. Svavar Gestsson vék að í sínu máli áðan.

Það er skemmst frá því að segja að frá því að upptöku á þessu efni lauk hefur Hagstofan unnið að því að vinna úr gögnunum. Þetta starf hefur því miður tekið lengri tíma en ætlað var í upphafi. Ekki síst vegna þess að tölvuvinnsla gagnanna hefur tafist. Þá voru svörin eins og gengur misjöfn að gæðum og yfirferð og samræming á efninu hefur reynst nokkuð tímafrek. Það má geta þess að nýtanleg svör fengust frá 376 heimilum eða 200 fleiri en í könnuninni 1978–1979 og þessi neyslukönnun tekur núna til 1300 einstaklinga. Ég get nefnt það til fróðleiks að meðalfjölskyldan í þessari nýju neyslukönnun telur 3,48 einstaklinga, en var 3,66 mannsbörn í núgildandi grunni vísitölunnar.

Hagstofan gerir nú ráð fyrir að úrvinnslunni ljúki að mestu í þessum mánuði og þá verði líka lokið gerð draga að nýjum vísitölugrundvelli. En þá tekur við yfirferð kauplagsnefndar og endanleg ákvörðun um vísitölugrunninn. Eins og kom fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar er það sjálfstæð ákvörðun að taka upp nýjan vísitölugrunn, en það væri unnt að taka hann upp, ef nefndin ákveður það, fyrir vorið að mínum dómi.

Þá vil ég að lokum geta þess vegna orða hv. þm. og fyrirspyrjanda að Hagstofan áformar að gefa út niðurstöður neyslukönnunarinnar í sérstakri skýrslu á þessu ári.

Eins og fram hefur komið liggja enn ekki fyrir heildarniðurstöður og það er því ekki hægt að fullyrða um breytingu á samsetningu útgjalda heimilanna. Það er ekki langt síðan að neyslan var könnuð síðast með þessum hætti og ég býst því ekki við neinum stórbreytingum. En ég tel það næsta víst að hlutur matvæla í heildarútgjöldum reynist minni en hann var 1978–1979, en vægi ýmissa útgjalda sem tengjast tómstundum og frístundum manna hafi aukist. Svo er auðvitað alveg víst að mikil breyting hefur orðið á vöruvalinu í útgjöldunum því nýjar þarfir hafa rutt eldri þörfum úr vegi.

Mér kæmi ekki á óvart, svo ég víki beint að því sem spurt var um, að hlutur matvælanna lækki úr 24% í núgildandi grundvelli í þessum mánuði í á að giska 20–22% í hinum nýja. Þetta er þó ekki þekkt niðurstaða heldur ágiskun enn.

Eftir því var líka spurt hvort hægt væri að kanna útgjaldamunstur eftir hæð tekna. Það er skemmst frá því að segja að Hagstofan skipulagði neyslukönnunina núna þannig að niðurstöður fengjust um útgjöld eftir gerð og stærð fjölskyldna, eftir búsetu og loks eftir tekjuflokkum. Möguleikarnir á því að fá raunhæfar og sundurliðaðar nákvæmar niðurstöður takmarkast af stærð úrtaksins og svörunum sem gefin voru. En ég býst þó við því að þarna megi fá marktækar niðurstöður um meginflokka, t.d. í Reykjavík, utan Reykjavíkur og kannski fyrir lágar tekjur, miðlungstekjur og allháar tekjur. Það er hins vegar kauplagsnefndar að ákveða hvernig niðurstöður neyslukönnunarinnar verða nýttar til að mynda nýjan vísitölugrundvöll, svo ég víki enn að orðum hv. fyrirspyrjanda. En hér fást í efninu áreiðanlega möguleikar til að gera ýmsar kannanir og athuganir og ég mun gera sannarlega ráðstafanir til þess að alþm. og Alþingi verði kynntar þessar niðurstöður.