26.10.1987
Neðri deild: 6. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

47. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þetta mál hefur nú þegar fengið töluverða umræðu í fjölmiðlum og valdið nokkrum taugatitringi eins og heyra mátti í ræðu hæstv. ráðherra og síðasta ræðumanns. Hávaðinn í einstökum stjórnarliðum er vægast sagt athyglisverður og bendir sannarlega ekki til þess að tryggilega hafi verið gengið frá málum þegar þessi ríkisstjórn var mynduð. Það verður fróðlegt að fylgjast með áframhaldandi skylmingum þeirra og heyra þá þeirra tillögur um það hvernig leysa á öll þau stórfenglegu vandamál sem við er að fást í húsnæðismálunum. Hvernig vilja þeir tryggja að þeir verði ekki afskiptir um lán sem frekast þurfa á þeim að halda? Hvernig vilja þeir hindra að fjármögnunarkerfið lendi í algjörum ógöngum? Það verður fróðlegt að heyra það og sjálfsagt að skoða þeirra tillögur um það. Að öðru leyti skal ég ekki blanda mér í deilur stjórnarliða en hlýt að láta í ljós von um að þær verði ekki til þess að koma í veg fyrir málefnalega umfjöllun og til þess að hindra að nauðsynlegar umbætur komist á.

Þetta frv., sem hér er til umræðu, þurfti ekki að koma neinum á óvart nema menn hafi haldið að hæstv. félmrh. hafi ætlað sér að sitja og hafast ekki að í ráðherrastólnum. Það var heldur ólíklegt eins og komið er fyrir húsnæðislánakerfinu og eins og umræður um það hafa verið bæði í kringum lagasetninguna árið 1986 og á síðasta þingi. Þá átöldum við það mjög, einkum úr þingflokkum stjórnarandstöðu, hvernig komið væri fyrir þessu kerfi og við gagnrýndum það aðgerðarleysi sem þáverandi stjórnarflokkar virtust ætla að sætta sig við.

Við kvennalistakonur höfðum frá upphafi efasemdir varðandi þessa lagasetningu. Við bentum oftsinnis á að fjármögnunarþátturinn hlyti að fara úr böndunum og við vorum mjög ósáttar við að ekki skyldi tekið tillit til fjölskyldustærðar og annarra aðstæðna við úthlutun lána. Það er löngu orðið ljóst að öll okkar gagnrýni átti rétt á sér og er rétt að það komi fram strax við 1. umr. um þetta frv. að við erum sammála meginmarkmiðum þess sem koma fram í athugasemdum á bls. 2. Það verður að okkar dómi að takmarka þá sjálfvirkni sem núgildandi lög fela í sér og tryggja miklu betur forgang þeirra sem í mestri þörf eru fyrir lánafyrirgreiðslu og niðurgreiðslu vaxta. Þetta höfum við kvennalistakonur margsinnis sagt og höfum haft verulegar áhyggjur af framkvæmd þessara mála samkvæmt gildandi lögum. Það er svo hins vegar stór spurning hvort þetta frv., ef það verður að lögum, bætir nokkuð verulega úr. Um það höfum við nokkrar efasemdir.

Ég vil þá fyrst vitna til 1. gr. frv. þar sem kveðið er á um heimildir til skerðingar og jafnvel synjunar á láni vegna atriða sem lýst er í liðum a, b og c. Í lið a t.d. varðar slík heimild fólk sem á fleiri en eina íbúð fyrir. Það hlýtur að vera umdeilanlegt hvort maður sem á íbúð fyrir á rétt á láni með niðurgreiddum vöxtum. Ekki sjáum við kvennalistakonur brýna nauðsyn til þess. Mér fyndist réttara að þessi liður orðaðist einfaldlega svo: a. Umsækjandi á fullnægjandi íbúð fyrir.

Stærðarmörkin í c-liðnum eru líka umdeilanleg og mættu vera lægri án þess ég hafi á takteinum eðlilega viðmiðun. En hvað þessi atriði varðar og raunar allt í þessum lögum og reglum verða þau að vera skýr og afdráttarlaus. Viðmiðun þarf að vera ljós. Mér finnst ekki nógu skýr ákvæði í þessu frv. Ég held það verði ekki auðvelt að vinna eftir þessum reglum eins og þær eru hér fram settar. Um þetta verður vonandi fjallað rækilega í nefnd, en eins og segir í 5. gr. frv. gilda ákvæði 1. gr. ekki aftur í tímann og gilda því ekki um þær umsóknir sem nú liggja fyrir. Það gera hins vegar ákvæði 2. og 3. gr.

Um 2. gr. vil ég segja að við efumst stórlega um að hún nái tilgangi sínum, þ.e. fyrri setning málsgr. Fresturinn til að svara umsækjendum hefur reynst of stuttur, en lenging í þrjá mánuði skiptir ekki miklu, sérstaklega ekki þegar afgreiðslufrestur lánsins er jafnlangur og hann augljóslega verður áfram í náinni framtíð. Aðstæður fólks eru oft fljótar að breytast og ég óttast að þessi tilhögun verði ekki til þess að koma í veg fyrir verslun með lánsloforð eins og tíðkast hefur í einhverjum mæli og hæstv. ráðherra kom inn á áðan. Árs fyrirvarinn samkvæmt síðari setningu 2. gr. ætti að nægja ef upplýsingar til umsækjenda um réttinn eru góðar þannig að þeir geti sjálfir áttað sig á sínum rétti.

Um útfærslu 4. gr. er allt óljóst, eins og hæstv. ráðherra kom að, og taldi jafnvel að tæki vikur og jafnvel mánuði að komast að niðurstöðu um hvernig hún yrði best útfærð. Ýmsir hafa látið í ljós vantrú á að hún verði auðveld í framkvæmd. Við erum ekki þeirrar skoðunar og styðjum að þessari skipan verði komið á. Við teljum eðlilegt að niðurgreiðslur vaxta séu til þeirra sem eru að byggja í fyrsta sinn og stækka við sig vegna fjölskyldustærðar. Aðrir lántakendur ættu að greiða sömu vexti og eru á lífeyrissjóðsbréfunum.

Herra forseti. Ég held ég hafi ekki fleiri orð um efni þessa frv. Við eigum fulltrúa í félmn. og treystum því að rækilega verði fjallað um málið og æsingalaust. Við erum sammála meginmarkmiðum frv. en höfum að sjálfsögðu fyrirvara á um stuðning við það og um einstakar greinar þess eftir því hvernig málið þróast í meðförum nefndarinnar. En ég endurtek að okkar skoðun er sú að þeir sem eru að byggja í fyrsta sinn og eignast sína fyrstu íbúð og þeir sem eru að stækka við sig vegna stækkunar fjölskyldu eiga að hafa algjöran forgang um úthlutun og niðurgreiðslu vaxta.

Það er margt annað í sambandi við húsnæðismál sem væri vert að ræða og vil ég þá nefna sérstaklega fjármögnunarþáttinn en ekki síst verðtryggingu lánanna og vaxtastig og viðmiðun verðtryggingar við lánskjaravísitöluna. Ég leyfi mér að minna á tillögu Kvennalistans fyrir tveimur árum á Alþingi um viðmiðun verðtryggingar langtímalána einstaklinga vegna húsnæðiskaupa við vísitölu kauptaxta. Aðrir hafa viljað leggja byggingarvísitöluna til grundvallar. Þetta teljum við brýnt að skoða sem allra fyrst.

En, herra forseti, ég vil gera mitt til þess að þetta mál megi komast sem fyrst til nefndar og mun ekki eyða tímanum í almennar umræður um húsnæðismál.