01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4070 í B-deild Alþingistíðinda. (2854)

159. mál, haf- og fiskveiðasafn

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna till. til þál. um haf- og fiskveiðasafn sem hv. 3. þm. Vesturl. ber fram. Ég held að það sé tímabært að athugað verði hvort það sé ekki möguleiki að koma á laggirnar slíku safni. Það er eins og við vitum ekki vansalaust að ekki skuli betur hlúð að sögu og þróun undirstöðuatvinnugreinar okkar, sjávarútvegs, en gert er.

Ég hef sjálfur skoðað erlendis nokkur söfn, bæði svokölluð siglingasöfn, fiskasöfn og söfn sem lúta að fiskveiðum, og hef reyndar komið í þau söfn sem hv. 3. þm. Vesturl. vitnaði í í Bergen og hafði mikla ánægju af að skoða þau. Ég held að það væri til mikilla bóta að það væri unnið að því að koma upp slíkum söfnum hér. Það er mjög mikilvægt að fólkið í landinu eigi þess kost að skoða á einum stað sem flesta þætti sem lúta að sjávarútvegi og fiskveiðum því að það mun auka skilning á þeim málaflokki.

Ég vil þó varpa fram þeirri hugmynd hvort það væri ekki rétt að kanna hvort þetta væri gert einnig í samráði við Háskóla Íslands varðandi rannsóknir og annað slíkt sem kemur inn í þetta.

Ég vil einnig taka undir það sem hv. 2. þm. Austurl. kom inn á varðandi söfn almennt í landinu. Það er rétt hjá honum að Náttúrufræðisafnið er mjög illa statt og hefði þurft að búa það betur. Ég hef oft skoðað þetta safn og haft töluverða ánægju af því. Þó að það sé ekki stórt er það glettilega gott miðað við aðstæður.

Ég tel að það væri mjög æskilegt að skoða öll þessi mál í samhengi og vinna að því að koma slíku safni upp, en ég er sannfærður um að þegar til framtíðar er litið gæti slíkt safn jafnvel staðið undir daglegum rekstri því að ég er sannfærður um að yngra fólkið í landinu hefur mikla ánægju af að koma og skoða slík söfn, sérstaklega fiskasöfn, þar sem lifandi fiskar eru til sýnis og annað slíkt. Það má vel vera að það geti verið staðsett á Akranesi þess vegna.

Ég held hins vegar að það breyti ekki öllu hver staðsetningin er, en þó er skemmtilegt við Akranes að þar er varðveittur okkar síðasti kútter og er það gert með miklum myndarbrag við byggðasafnið. Það væri þess vegna mjög skemmtilegt að setja upp safn í sambandi við það. Víða um land í byggðasöfnum hefur samt verið vísir að söfnum hvað varðar skipasöfn þó ekki sé það stórt í sniðum.

Ég fagna þessari till. og vona að hún fái góða meðferð hjá þinginu og þakka flm. fyrir að bera hana fram.