01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4072 í B-deild Alþingistíðinda. (2857)

159. mál, haf- og fiskveiðasafn

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka undir með flm. þessarar till. Ég hygg að þessi till. sé tímabær og vel til fundin og ég vil taka undir með þeim sem telja að tillgr. sé vel orðuð og vel hugsuð.

Það er ábyggilega enginn vafi að Íslendingar, sem hafa líf sitt fyrst og fremst af hafinu, eiga að reyna að koma upp slíku safni eins og hér er um að ræða og kannski umhugsunarefni að við skulum í litlum sem engum mæli sjálfir kenna í okkar skólum haffræði og fiskifræði.

Ég lýsi yfir stuðningi við till. Hún er, eins og kom fram hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni, um að skipa nefnd til að kanna uppsetningu og gera áætlun um stofnun og rekstur slíks safns. En ég vil jafnframt taka undir með þeim sem hér hafa tekið til máls aðrir og minnst á önnur söfn og forgangsröð þegar þar er að komið.

Sannleikurinn er sá að okkur Íslendinga langar til að gera æðimargt og þessi tillaga ber kannski ekki hvað síst vitni um hvað okkur langar til að gera og hugurinn ber. okkur áfram og það er margt sem vantar. Þetta er eitt af því sem við vildum gjarnan gera.

Við vorum á laugardaginn að opna Listasafn Íslands í nýjum húsakynnum eftir 15 ára baráttu. Þar er í rauninni mikið óunnið og mikið eftir. Þjóðminjasafnið, sem fær eitthvað rýmra húsnæði við það að Listasafnið flytur, vantar fé til að bæta sitt hús sem lekur og þar er öll aðstaða mjög slæm.

Hér var rætt um náttúrufræðisafn sem vissulega væri eitt af því sem við þyrftum að byggja hið allra fyrsta. Kannski kæmi þar best til greina samvinna milli ríkis og Reykjavíkurborgar. Um það eiga margir drauma. Að því starfa margir áhugahópar. Það mál er vissulega mjög brýnt.

Margir hafa rætt um tækjasafn, að eldri tæki og vélar í landinu séu víða að grotna niður og menn séu að missa af því að koma upp slíku safni. Menn tala um að bæta aðstöðu Þjóðskjalasafnsins og þannig mætti lengi, lengi telja. Ég held að við megum samt ekki láta henda okkur að vera með allar byggingar í gangi í einu. Við hljótum og verðum að hafa einhverja forgangsröð. Í safnamálum okkar eru fjölmörg verkefni óunnin.

En af heilum huga styð ég það að skipuð verði nefnd til að gera áætlun um stofnun og rekstur haf- og fiskveiðasafns. Það hlýtur að vera eitt af þeim söfnum sem við sjáum fyrir okkur í framtíðinni.