01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4072 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

159. mál, haf- og fiskveiðasafn

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa stuðningi við þá hugmynd sem fram kemur í þessari till. um að þeim efnisþáttum sem hún fjallar um séu gerð sérstök skil í aðgengilegum söfnum hér á landi. Hugmyndin um að reisa slíkt safn á Akranesi t.d., eins og hv. flm. nefndi, er auðvitað líka góðra gjalda verð og þess er að minnast t.d. hvernig sjávarlífssafnið í Vestmannaeyjum setur svip á þann bæ. Er óhætt að segja að það safn er eins og perla, svo merkilegt er það og athyglisvert. Þar hefur átt í hlut einstaklingur sem af frábærum áhuga og samviskusemi hefur komið þessu safni á laggirnar.

Ég óttast það dálítið í sambandi við þá hugmynd sem hér hefur verið til umræðu að það að gera slíka stofnun að ríkisstofnun, sem sé staðsett annars staðar en í tengslum við væntanlegt náttúrugripasafn á höfuðborgarsvæðinu, dreifi kröftunum e.t.v. um of. Þess vegna er það ábending mín að sú hugmynd sem þessi till. fjallar um verði til umfjöllunar hjá ríki og viðkomandi sveitarfélögum sameiginlega, hugsanlega samtökum sveitarfélaganna í Vesturlandskjördæmi. Það sem ég er með í huga er fyrst og fremst þetta, að þessum þætti mála verði ekki alfarið skipað á einhvern annan stað á landinu, þannig að sá eðlilegi þáttur náttúrugripasafns sem tengdist fiski og lífi í sjónum líði ekki við það að hafist sé handa í öðru byggðarlagi.

Mér þykir það hins vegar jákvætt að safni í tengslum við þetta sé komið á laggirnar á Akranesi, en ég legg áherslu á að það má á engan veg verða til að spilla fyrir náttúrugripasafni á höfuðborgarsvæðinu, eins og gert var ráð fyrir fyrir löngu og ég greindi frá í umræðum á Alþingi árið 1985. Þá greindi ég frá því með hvaða hætti unnið hefði verið að því í menntmrn. þá, frá því snemma það ár. Það miðaðist við að safnið yrði sem allra best aðgengilegt öllum almenningi á Íslandi og þess vegna yrði það á höfuðborgarsvæðinu í námunda við Háskólann og á stað sem bæði ungir og aldnir ættu greiðan aðgang að. Yrði sérstaklega gert ráð fyrir því að hinir ungu Íslendingar og börn gætu átt greiðan aðgang. Þar væri hægt að opna huga þeirra snemma á ævinni fyrir þeim gersemum sem íslensk náttúra býr yfir. Þess vegna var það mín hugmynd þá að unnið væri að slíku máli í samráði við samtök foreldra og skólana. Með því væri á engan hátt dregið úr hinu vísindalega gildi safnsins heldur þvert á móti hinn vísindalegi þáttur gerður lífrænni og í nánari tengslum við almenning.