01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4073 í B-deild Alþingistíðinda. (2859)

159. mál, haf- og fiskveiðasafn

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vildi aðeins örfáum orðum þakka þeim hv. þm. sem hér hafa talað undirtektir við efni þessarar till. og kannski minna á það í leiðinni að í till. er ekki tekin nein afstaða til þess hvar slíkt safn ætti að starfa eða standa heldur einungis á það bent að vel mætti hugsa sér að það yrði á Akranesi.

Sömuleiðis hafa umræður hér þróast nokkuð á þann veg að ræða um söfn og safnamál almennt, sem kannski er ekki óeðlilegt, og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég ætla ekki, herra forseti, að ræða það mál hér varðandi byggðasöfnin og verkaskiptinguna, en það er kannski rétt að vekja athygli á því í einni setningu eða svo að það er búið að ræða það mál oft og ítarlega í mörg ár og skipa margar nefndir til að fjalla um þau mál, en þegar einhverju á að breyta rísa alltaf einhverjir upp öndverðir og segja: Það má engu breyta. Það er ekkert sem segir að byggðasöfnin væru lakar sett alkomin hjá sveitarfélögunum sem er langeðlilegast vegna þess að það er hrein hungurlús sem þau hafa fengið frá ríkissjóði fram til þessa.

En ég er svo sem vanur að hlusta á neikvætt nöldur, leyfi ég mér að segja, stundum frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og skiptir þá litlu máli um hvaða mál er verið að fjalla. Þó hann segðist taka jákvætt undir efni þessarar till. fann hann henni raunar flest til foráttu.

Það má ræða hér í löngu máli um söfnin í landinu og aðstöðu þeirra, en menn skulu ekki gleyma því, eins og hér hefur raunar komið fram, að Listasafn Íslands tók í notkun mjög glæsileg húsakynni núna sl. laugardag sem eru til sóma og þar eru hlutirnir gerðir af miklum myndarskap. Það er þjóðinni til sóma. Það þarf vissulega að gera betur við ýmis önnur söfn. Ég get verið sammála ýmsu því sem hv. þm. og fleiri hafa sagt um nauðsyn náttúrufræðisafns. Hún er vissulega brýn og er búin að vera lengi.

Ég ítreka svo að lokum að hér er ekki verið að gera tillögu um að safni af þessu tagi sé komið á laggirnar heldur fyrst og fremst um að gerð sé áætlun um hvernig svona stofnun gæti verið, eins og hv. 5. þm. Reykv. réttilega sagði í ræðustól áðan.

Herra forseti. Ég hygg að e.t.v. muni eðlilegra að till. verði til umfjöllunar í hv. félmn. Sþ. en í allshn.