01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4080 í B-deild Alþingistíðinda. (2863)

165. mál, Vesturlandsvegur

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Till. þessi til þál. fjallar um athugun á nýrri legu Vesturlandsvegar um Hvalfjörð og Grunnafjörð. Hvalfjörður hefur löngum þótt nokkuð langur til þess að þræða fyrir hann og talinn þröskuldur á leið manna til Vesturlands og víðar um land. Allir þm. Vesturlands standa að þessari till., þar sem farið er fram á að ríkisstjórnin láti gera nauðsynlegar rannsóknir á því hvaða leið sé heppilegast að fara. Nefnd eru göng undir Hvalfjörð og almenn könnun á besta vegarstæði á þessari leið.

Till. er flutt af öllum þm. Vesturlandskjördæmis. 1. flm. hefur gert glögga grein fyrir sínu máli eins og hans var von og vísa svo það er ekki þörf á að bæta miklu við.

till. sem nefnd er og þykja má nýstárlegust um að grafa göng undir fjörðinn er ekki ný af nálinni. Hún hefur verið nefnd áður. Ég man t.d. hvað Gunnar Bjarnason, kennari á Hvanneyri, sagði þegar rætt var um Hvalfjarðarveginn fyrir mörgum árum og mönnum varð tíðræddast um að þræða fyrir botn fjarðarins eða jafnvel byggja brú yfir fjörðinn. Þá sagði Gunnar sem löngum er bjartsýnn framkvæmdamaður: Þið eigið bara að fara undir fjörðinn. Það er ekkert mál.

Þetta mál er heldur ekki nýtt að því leyti að því hefur verið hreyft oft á liðnum árum í tillöguformi, m.a. á síðasta þingi, ef ég man rétt. Hvalfjarðarnefndin, sem skoðaði þetta mál fyrir 15 árum, skilaði ítarlegu áliti sem frsm. vék að.

Það er nú liðinn hálfur annar áratugur síðan sú nefnd lauk störfum og því full ástæða til að athuga þetta mál ítarlega að nýju. Það er ekki enn þá kominn vegur með bundnu slitlagi alla leið fyrir fjörðinn og það hefur ekki enn þá verið ráðist í vegagerð eða brú yfir Botnsvog sem var ofarlega á dagskrá hjá Hvalfjarðarnefndinni svokölluðu.

Það er nú svo og því má ekki gleyma að vegurinn fyrir Hvalfjörð hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu árum. Þetta er falleg leið og mun fljótfarnari en hún var áður fyrr. Það er t.d. mikill munur að aka fyrir Botnsvoginn nú eða var fyrir einu ári. Það var lagt bundið slitlag á þessa leið um Múlahlíð og Þyrilshlíð á síðasta sumri og var það mikill munur frá því sem var. Að vísu var ráðist í þessa framkvæmd fyrir viðhaldsfé og það er ekki nógu gott þegar þörf er fyrir það fé í aðra vegi. Það var rétt hjá hv. 1. flm. að það eru enn þá alldýrir kaflar eftir á þessari leið, 12 km af malarvegi, sagði hann. Það er meira sunnan fjarðarins en í Vesturlandskjördæmi.

En aðalatriðið er að tækninni fleygir fram. Þessi mál hafa verið í stöðugri endurskoðun. Það er ágætt að skjóta nýjum hugmyndum á loft sem geta leitt til nýrrar niðurstöðu í ljósi þess að ný tækni getur nú leyst mál sem áður virtust vonlaus og óframkvæmanleg. Þess vegna er full ástæða til að láta skoða þetta mál ítarlega.