01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4084 í B-deild Alþingistíðinda. (2867)

165. mál, Vesturlandsvegur

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ætli það fari ekki svo flestum þegar þeir aka fyrir Hvalfjörð að þeir láti sig dreyma um brú yfir fjörðinn. Ég þykist muna það allt frá barnæsku minni að mig hafi dreymt um að í staðinn fyrir að aka fyrir þennan langa fjörð gæti maður farið á brú fjallsbrúnanna á milli. Ég held að það gildi um okkur flest að við höfum látið okkur dreyma það. Ég efast heldur ekkert um að þessi draumur muni rætast. Spurningin er bara hvenær mun hann rætast og hver verður aðdragandinn að því.

Það var rifjað upp áðan að í skýrslu frá árinu 1972 hefðu menn komist að þeirri niðurstöðu að það ætti að leggja veg fyrir Hvalfjörð, en brú eða ferja eða göng kæmu ekki til álita. Ég held að það gildi um þá ákvörðun eins og mörg okkar mannanna verk að þegar ákvörðunin er tekin miðast hún við tilteknar aðstæður og síðan breytast aðstæður. Ég hugsa að það sama gildi um þau tilvitnuðu orð Jónasar Jónssonar að hann hafi mælt þau af fullri skynsemi á þeim tíma, að þá hafi ekki verið rétt að ráðast í framkvæmdir af þessu tagi, en síðan breytast viðhorfin og það sem einu sinni var hárrétt verður rangt miðað við nýjar forsendur, heldur í sjálfu sér gildi sínu miðað við gamla tímann, en þetta þýðir að við þurfum að endurskoða ákvarðanir okkar reglulega. Þetta held ég að komi engum okkar á óvart.

Sú ákvörðun sem tekin var árið 1972 um að byggja upp veginn fyrir Hvalfjörð þýddi vitaskuld að það ætti að gera það með myndarlegum hætti og sú framkvæmd var og er mjög dýr. Þegar menn þess vegna núna gagnrýna að ekki skuli vera komið bundið slitlag fyrir Hvalfjörð ættu menn að hafa í huga að sú framkvæmd, sem þm. stóðu frammi fyrir að framkvæma, var óheyrilega dýr. Þess vegna líka hefur verið tekin ákvörðun nú nýverið um það af þeim þm. sem hér eiga hlut að máli, hvort heldur þeir eiga land sunnan fjarðarins eða norðan, að leggja bráðabirgðaslitlag og það held ég að hafi verið rétt ákvörðun og réttari en hin eldri ákvörðun frá 1972 varðandi að byggja upp veginn eins og þar var ráð fyrir gert af þeirri einföldu ástæðu að við getum í fyrsta lagi ekki beðið svo lengi með framkvæmdir sem það mundi þýða ef við ætluðum að byggja upp vegi með þeim hætti sem þá var gert ráð fyrir og í annan stað værum við þá að horfa fram hjá þeim öðrum möguleikum, draumum okkar um að komast yfir eða undir Hvalfjörðinn í staðinn fyrir að fara fyrir hann.

Ég lenti í því fyrir tveimur árum eða svo að til mín var leitað með það að skoða möguleika á ferjurekstri yfir Hvalfjörð. Það var ekki leitað til mín sem stjórnmálamanns heldur út af faglegri þekkingu minni, sérþekkingu minni um að meta þá valkosti og ég gerði það. Ég skal j áta að þegar ég var fenginn til verksins var ég mjög vantrúaður á að þessi möguleiki gæti yfirleitt komið til greina. En þegar ég stóð upp frá því og sá hversu gífurlegur umferðarþunginn var og hverjir möguleikar væru á því að hann mundi enn frekar aukast ef samgöngur greikkuðu — sbr. það sem hefur gerst á Suðurlandi og þá atvinnustarfsemi sem hefur t.d. risið upp í Hveragerði eftir að lagður var góður vegur þangað — sannfærðist ég um að ferjurekstur yfir Hvalfjörð, miðað við það að fullnægja ákveðnum skilyrðum, gæti verið skynsamleg ákvörðun og gæti verið arðbær ákvörðun.

Nú heyrir það reyndar til sögunnar að ýmsir þeir sem um málið fjölluðu, sérstaklega á Akranesi, vildu ógjarnan heyra á þennan kost minnst. Og hvað kom til? Annars vegar, held ég, draumurinn um brú eða göng undir Hvalfjörð, sem þeir óttuðust að frestaðist ef kæmi til ferjureksturs, og hins vegar þóttust þeir sjá fram á, trúi ég, að sá ferjurekstur sem nú er í gangi með Akraborginni mundi ekki verða rekinn áfram. Spurningin var þá: Var þjónustan við þá að batna eða versna við það að breyta ferjustæðinu, hafa ferjuna yfir Hvalfjörð frekar en frá Akranesi? Þetta nefni ég vegna þess að það tilheyrir umræðunni og ég held að þegar við skoðum þessi mál verðum við að horfa á málin í heild.

Í mínum huga, þegar ég horfi á þessi mál til lengri tíma, er ég eins og ég hef sagt ekki í neinum vafa um að göng eða brú er framtíðin. En ég hef litið svo á að ferjurekstur kæmi vissulega til greina í einn til tvo áratugi. Þá væri að öllum líkindum orðið hagkvæmt að byggja brú eða göng og ferjan mundi flýta fyrir því að þarna kæmi brú eða göng. Þannig hefur þetta litið út af mínum sjónarhóli. Ég skil hins vegar gagnrýnisraddir sem hafa komið upp, en þarf ekki að rekja það neitt nánar.

En það er eitt í umfjöllun þessa máls sem undrar mig mjög og það hefur birst bæði í umræðum hér í dag og í þeirri umfjöllun sem ég kynntist þegar umræða fór fram um þá skýrslu sem ég vann á sínu tíma um hugsanlega ferju yfir Hvalfjörð. Og það er þetta: Það taka engir til máls um þetta mál nema Vestlendingar. Hér gerðist að vísu ein undantekning þar sem fjármagnssérfræðingur Alþingis, Eyjólfur Konráð Jónsson, tók til máls um málið og talaði aðallega um það út frá þeirri hlið. En það var alger undantekning. Þetta er alls ekki eingöngu mál Vestlendinga. Þetta er mál þjóðarinnar allrar af því að hér eru miklir peningar í húfi, en ekki bara af því að það eru miklir peningar í húfi. Hv. þm. Skúli Alexandersson sagði áðan að það væri gott fyrir þá Vestlendinga að komast í samband við höfuðborgarsvæðið. En það er ekki síður gott fyrir höfuðborgarsvæðið að komast í samband við Vesturland og það skyldi þó ekki vera að Vestfirðingar ættu leið um Hvalfjörð, yfir hann, undir hann eða fyrir hann? Það skyldi þó ekki vera að ferðaleið þessi skipti verulegu máli fyrir þá sem búa á Norðurlandi vestra eða þá sem búa á Norðurlandi eystra? Þetta skiptir máli fyrir hvert einasta mannsbarn hvort heldur það býr á Reykjanesi eða Langanesi. Þess vegna má alls ekki líta á þetta mál eins og það sé eingöngu mál Vestlendinga. Þeir eiga þakkir skildar fyrir að vekja máls á málinu, en það verður líka að ætlast til þess af þeim að þeir séu reiðubúnir að ræða það á heilbrigðum grundvelli, sem ég efast ekki um, og að aðrir þm. séu tilbúnir að ræða þetta, styðja við það, fara ofan í það. Þetta hefur mér þótt, herra forseti, einkennilegast í sambandi við þessa umræðu, í rauninni tómlæti annarra landshluta, sem þetta varðar ýkjulaust mjög mikið, og það hefði ég gjarnan kosið að mundi breytast.

Virðulegi forseti. Ég styð þá tillögu sem hér er flutt. Ég tel nauðsynlegt að athuganir af því tagi sem hér er talað um séu framkvæmdar. En ég tel jafnsjálfsagt að það verði horft á þetta mál af víðum sjónarhóli og allir þeir valkostir sem til greina koma verði skoðaðir fordómalaust og með tilliti til þess að ná sem hagkvæmastri og skynsamlegastri þróun varðandi samgöngur yfir eða undir Hvalfjörð.