01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4087 í B-deild Alþingistíðinda. (2868)

165. mál, Vesturlandsvegur

Alexander Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Reykv., það sem hann sagði um þessi mál og vekja athygli á því að auðvitað er það meira en lítið furðulegt að í öll þessi ár, það er óhætt að segja í nærri 15 ár eða jafnvel lengur, hefur það einvörðungu komið í hlut okkar þm. Vesturlands að ræða um þann möguleika að láta kanna hvernig væri haganlegast að stytta leiðina um Hvalfjörð. Við höfum flutt um þetta þáltill. á þessu árabili ár eftir ár og reynt að ýta við því að þetta mál fengi vandlega umræðu og meðferð þannig að út úr því kæmi eitthvað raunhæft sem hægt væri að miða við ákvarðanir. Við höfum einnig tekið undir það sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson minntist á í sambandi við sérstaka fjáröflun að því er varðar veg vestur og norður, en það hefur alltaf einhvern veginn farið þannig að umræður um þetta hafa þótt of fjarlægar og það væri óeðlilegt að leggja mikla vinnu í að kanna þessi mál. Þess vegna fagna ég því mjög að undirtektir núna virðast vera a.m.k. raunhæfari að því leyti til að umræður hafa farið fram, bæði á vegum Verkfræðingafélags Íslands hér í Reykjavík og eins í okkar kjördæmi t.d. á Akranesi þar sem var fullt hús og menn sýndu mikinn áhuga fyrir því að ræða þessi mál á breiðum grunni.

Ég held að það sé alveg ljóst að hér er um þýðingarmikið mál að ræða, ekki aðeins fyrir okkur á Vesturlandi sem höfum að sjálfsögðu mestan áhuga á því og höfum sannað í gegnum tíðina að við viljum láta rannsaka þetta mál og leiða það fram til framkvæmda ekki aðeins fyrir okkar kjördæmi heldur fyrir þjóðina í heild. Við skulum ekki gleyma því að það er alltaf að koma fram ný og ný tækni á þessu sviði og okkar vegagerðarmenn og forustumenn í vegamálum, verkfræðingar og tæknimenn hér á landi fylgjast vel með þessum málum og þeir eru fullfærir um að gera góða hluti að því er varðar stórvirki í vegagerð. Það hefur sannast og m.a. í mínu kjördæmi, Vesturlandi, bæði að því er varðar Borgarfjarðarbrúna og veginn fyrir Ólafsvíkurenni og víðar. Þess vegna þurfum við ekkert að hika við að ræða svona mál og kanna þau í botn þannig að við getum tekið ákvörðun um undirbúning framkvæmda í næstu framtíð.

Það er alveg ljóst að nágrannaþjóðirnar í kringum okkur, ég get nefnt Norðmenn og Færeyinga, eru að falla frá því, sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson nefndi áðan, að smíða eða reka ferjur. Þeir eru að falla frá þeirri hugmynd vegna þess að það þykir of dýrt og það þjónar ekki nægilega vel þeim kröfum sem nútíminn gerir í sambandi við umferð. Þess vegna halla þeir sér meira að jarðgangagerð og að gera göng undir sjávarmáli sem hefur verið hjá okkur talinn óeðlilegur kostur, en er sannarlega inni í myndinni í dag. Þess vegna er ég ekkert sérstaklega hrifinn af því að fara í miklar fjárfestingar umfram það sem við neyðumst til annarra hluta vegna í sambandi við ferjurekstur hér á landi. Hann sýnir sig að vera ekki arðbær og ég get ekki séð að hann verði það frekar um Hvalfjörð nema kannski í stuttan tíma.

Ég ætla ekki að ræða þetta meira. Það hefur komið fram hjá tæknimönnum að það er nauðsynlegt að hefja rannsóknir og undirbúning og þess vegna er á vegáætlun í ár 1 millj. til rannsókna í sambandi við Hvalfjörð og þarf að auka þetta fjármagn. Það er talið af þeim sem fjalla um þau mál og hafa á þeim besta þekkingu að það mundi taka 5–10 ár að finna niðurstöður sem hægt er að byggja á í sambandi við jarðgangagerð undir Hvalfjörð. Þetta er ekki langur tími og þess vegna er óhætt að stuðla að því að það verði byrjað á þessum rannsóknum sem allra fyrst.

Ég vildi aðeins leggja orð í belg. Við þm. Vesturlands höfum á öllum tímum staðið sem einn maður að því hugðarefni að finna möguleika á haganlegustu vegagerð um Hvalfjörð og gerum það sem einn maður. Ég geri ráð fyrir því að þar sem málið kemur til umfjöllunar í fjvn. munum við hafa tækifæri til að kynna okkur málið enn betur og reyna að fá þar fram jákvæða niðurstöðu.