01.02.1988
Sameinað þing: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4103 í B-deild Alþingistíðinda. (2881)

183. mál, langtímaáætlun í samgöngumálum

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Mér var að sjálfsögðu kunnugt um þá þáltill. sem hv. síðasti ræðumaður hefur lagt fram í þinginu og ég get tekið undir að að vissu leyti er það sem hér er mælt fyrir samhljóða því sem þar er lagt til. En það er eitt sem skilur þarna á milli og það er að þarna er gert ráð fyrir langtímaáætlunum allt til ársins 2010 um hvernig þessi mál geti þróast og hverju við megum búast við á þessu 20 ára tímabili.

Það má í sambandi við till. sem hv. 4. þm. Norðurl. e. minntist á einnig geta þess að fyrir þinginu eru margar aðrar þáltill. sem geta fallið undir þetta sama og mætti þar nefna þá till. sem var rædd í dag um Vesturlandsveg og fleiri tillögur sem bornar hafa verið fram.

Ég hef ekki neitt við það að athuga að þessi till. verði til umræðu í atvmn. og ég mundi þá taka undir það, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, að það væri vel athugandi að ræða þær í samhengi.

Ég sé að klukkan er að nálgast fimm og ég hef þá ekki þetta lengra.