02.02.1988
Efri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4107 í B-deild Alþingistíðinda. (2884)

229. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um þetta frv. sem eins og hæstv. ráðherra nefndi var flutt á síðasta kjörtímabili. Þó vannst ekki tími til að fjalla um það mjög gaumgæfilega því það var rétt undir þinglok.

Hér eru á ferðinni ýmsar viðamiklar breytingar sem þarf að sjálfsögðu að gaumgæfa betur í hv. heilbr.- og trn. Ed. þar sem ég á sæti og mun ég ekki eyða mörgum orðum að frv. í 1. umr., en mig langar þó aðeins að minnast á nokkur atriði vegna þess sem hér kemur fram.

Hér eru ákvæði um mengunarvarnir og önnur umhverfismál og af því tilefni langar mig til að leggja áherslu á að auðvitað verður umhverfismálum ekki komið í neitt varanlegt eða viðunandi horf fyrr en hér hafa verið gerðar þær stjórnkerfisbreytingar að umhverfismál heyri í heild sinni undir eitt ráðuneyti en sé ekki skipað niður í hólfum, ef svo má segja, í ýmis ráðuneyti þar sem engin heildarsýn fæst yfir þann malaflokk svo víðtækur sem hann er. Ég held að það sé mikið nauðsynjamál að samræma og sameina umhverfismálin í eitt ráðuneyti og ef ég man rétt er það reyndar í starfsáætlun þessarar ríkisstjórnar þannig að ég hvet hæstv. heilbrmrh. til að beita sér fyrir því innan stjórnarinnar að þessari stjórnkerfisbreytingu verði komið á í stjórnartíð ríkisstjórnarinnar því að það er aldrei að vita hversu löng hún verður og kannski þess vegna brýn ástæða til að taka til hendinni þegar í stað.

Síðan er annað sem ég vil aðeins minnast á og það er vegna 12. gr. þar sem kveðið er á um hlutverk hollustuverndar hvað varðar heilbrigðisfræðslu. Ég minni hæstv. ráðherra á það frv. sem Kvennalistinn hefur flutt hér um heilbrigðisfræðsluráð. Það er ekki síst vegna þess að hver stofnunin eða aðilinn á fætur öðrum, sem tilheyra ríkinu, hafa með höndum hlutverkið að fræða almenning um heilbrigðismál. En það fer þó ævinlega svo að það er eitt af mörgum hlutverkum sem stofnanirnar eða aðilarnir hafa og vill gjarnan verða út undan og þess vegna legg ég megináherslu á að þessi starfsemi verði skipulögð og umfram allt veitt nægjanlegt fjármagn hvort sem einhverjum hluta fræðslunnar verður skipað þarna eða í heilbrigðisfræðsluráði eins og Kvennalistinn leggur til eða þá í þeirri stofnun sem ráðuneytið og þá ráðherra sjálfur hefur lagt til eins og getið er um í heilbrigðisáætlun. Það þýðir ekki að gefa einhverjum opinberum aðilum þetta hlutverk án þess að sjá til þess að þessi starfsemi verði fjármögnuð þannig að þeim verði fært að sinna henni svo að vel sé.

Síðan minntist hæstv. ráðherra á mjög mikilvægt atriði sem er eftirlit með innihaldi matvæla, bæði innfluttra og þeirra sem framleiddar eru innan lands. Þetta er löngu orðið mjög brýnt erindi og eins og kom fram í máli hans leikur sterkur grunur á að við séum að verða eins konar ruslakista innflutnings alls kyns niðursuðuvara sem annaðhvort eru hreinlega útrunnar og yfirlímdir miðar til að fela það eða þá að þær eru innfluttar frá löndum þar sem ýmis skordýraeitur og önnur skaðleg efni eru blönduð í matvæli og flestar nágrannaþjóðir okkar leyfa ekki innflutning á. Þetta er aðkallandi verkefni sem ekki bara þarf að setja lög um að fela einhverjum aðila. Það gildir það sama og með heilbrigðisfræðsluna. Það verður að tryggja að þetta eftirlit sé fjármagnað.

Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum að þessu máli nú, en mun að sjálfsögðu taka þátt í gaumgæfilegri umfjöllun um það í nefndinni þegar þar að kemur.