02.02.1988
Neðri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4124 í B-deild Alþingistíðinda. (2897)

207. mál, barnalög

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Það er ekki oft sem við fáum tækifæri til að ræða um börn og velferð þeirra hér í sölum Alþingis og ber að fagna því að við fáum tækifæri til þess núna. Geysileg mótsögn er oft í viðhorfum til barneigna í þjóðfélaginu. Sjálfsagt þykir að eignast börn en þegar þau eru fædd má segja að þjóðfélagið sé þeim fjandsamlegt. Fæðingarorlofið er allt of stutt, barnabætur eru lágar, skóladagur sundur slitinn og úti á landi þurfa mörg börn að búa fjarri foreldrum sínum vegna skólagöngu. Þarfir barna hafa oft lotið í lægra haldi fyrir þörfum vinnumarkaðarins. Stóraukinni þátttöku kvenna í atvinnulífinu hefur ekki verið mætt sem skyldi með aukinni þjónustu, svo sem öruggri barnagæslu, samfelldum skóladegi og skólamáltíðum. Þetta eru allt þættir sem miklu meiri gaum ætti að gefa því að samfélaginu ber skylda til að búa vel að öllum börnum. Þau eru framtíð þjóðarinnar og því getur verið dýrkeypt að spara fé til aðbúnaðar þeirra.

Frv. það sem hér er til umræðu, um breytingar á barnalögum, fjallar um breytingar á tiltölulega nýsettum lögum eða frá 1981. Það hlýtur að vera aðalmarkmið þeirra, sem semja þetta frv. til laga, að lagfæra þá agnúa sem komið hafa fram á gildandi lögum með velferð barna þá fyrst og fremst í huga.

Ég verð að taka undir það með hæstv. dómsmrh. að þetta frv. er mjög gott, góðar athugasemdir það er gott að fá bæði rök með og á móti frv. sem maður kannski hefur sjálfur ekki mjög mikla þekkingu á í framkvæmd — þannig að ég má til með að hrósa þeim sem frv. sömdu fyrir hve vel þetta er sett fram.

Mikilvægustu þættir þessa frv. eru í 16.–18. gr. þar sem lagt er til að foreldrar sem skilja geti samið umsameiginlega forsjá barna sinna. En hvað felst í sameiginlegri forsjá? Í athugasemdum við frv. á bls. 6, kafla IlI stendur, með leyfi forseta:

„Leggja ber áherslu á að í samningi um sameiginlega forsjá barns felst ekki í sjálfu sér að barn búi hjá báðum foreldrum og því síður jafnlengi ár hvert hjá hvoru um sig.“

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt atriði og þess vegna finnst mér ekki passa beint við það sem kemur þarna aðeins seinna: „Hins vegar veitir samkomulagið (skipanin) svigrúm til þess fyrir foreldra að semja svo um að barnið dveljist (búi) hjá öðru t.d. í þrjá mánuði og í næstu þrjá mánuði hjá hinu.“ Ég held að það sé mjög varhugavert að hafa svona ákvæði þarna inni og ég tel nánast að það ætti að vera skylda að barnið hafi fastan samastað hjá einum aðila, hjá öðru foreldri, sem í flestum tilfellum er móðirin, en að það sé aðeins í undantekningartilfellum sem hægt er að semja um atriði eins og þetta sem kemur þarna fram og er kannski aðeins gefið í skyn að sé möguleiki með þessari athugasemd.

Ef við lítum aðeins seinna í þennan sama kafla þá stendur þar: "... ef sameiginleg forsjá er viðhöfð, þá eru báðir foreldrar forsjármenn barns og lögráðendur þess. Báðir ráða því þá sameiginlega hvernig til skipast um persónuhagi barns, um dvalarstað, vist á dagvistarstofnun, skólagöngu, ýmislegt varðandi uppeldi barnsins, aðild að trúfélagi, sitthvað varðandi þátttöku þess í félagsstarfi, hvort það gangi undir læknisaðgerð, hvort það verði ættleitt og loks eru báðir foreldrar þá lögráðendur barns að því er varðar fjármuni og fjárráðstafanir.“ Það er því mikið sem foreldrar þurfa að hafa samskipti sameiginlega.

Það er auðvitað mjög gott að báðir foreldrar geti haft jafna möguleika á að hafa áhrif á persónulega hagi barnsins. En það sem þarf samt fyrst og fremst að setja í öndvegi er hvað er barninu aðallega til góðs. Ef litið er á hvað í þessari sameiginlegu forsjá felst, þá er ekki hægt að sjá að neitt í núgildandi lögum mæli gegn því að foreldrar hafi þann hátt á sem þarna er gert ráð fyrir, því að það er ekkert sem bannar foreldrum að hafa samvinnu varðandi hagi barnsins. Ef foreldrar hafa það mikinn þroska til að bera að þau geti sameinast um þessi atriði, þá er vandséð hvers vegna það þarf að vera bundið í lögum. Þannig finnst mér svona fljótt á litið ekki neitt mæla gegn því að allt það sem talið er felast í sameiginlegri forsjá geti gilt undir þeim lögum sem nú gilda. Ég get ekki séð neitt sem mælir gegn því og mér er meira að segja kunnugt um það að margir foreldrar hafa þennan hátt á núna þó að því miður sé það of sjaldan. (GHelg: Má ég biðja þm. að tala ofurlítið hærra?) Ég skal reyna það.

Þó að við í nútímaþjóðfélagi teljum að allir eigi að hafa sama rétt, bæði konur og karlar, og þá sömu skyldur, þá er það nú svo að móðirin hefur í flestum tilvikum ábyrgð á börnunum hvort sem hún er í hjónabandi eða ekki. Það er oftast móðirin sem hefur haft með forsjá barnanna að gera og það er því eðlilegt í flestöllum tilvikum að börnin verði í umsjá móðurinnar áfram ef til skilnaðar kemur. Það má sem sagt búast við því að þetta fyrirkomulag verði áfram þó að þetta frv. nái fram að ganga, þ.e. að móðirin hafi áfram börnin hjá sér.

Ef við lítum aðeins á rökin sem mæla með sameiginlegri forsjá þá er, eins og hæstv. dómsmrh. kom að áðan, þessum nýju reglum ætlað að höfða til ábyrgðarkenndarforeldra og einnig að auka tengsl barns og foreldris og tryggja afskiptarétt. Síðan kemur fleira til. Sameiginleg forsjá er líkleg til að auka jafnstöðu foreldra, giftra og ógiftra. Mér finnst að öll þau rök, sem eru talin hér upp og mæla með sameiginlegri forsjá, taki meira mið af foreldrunum en barninu og þykir mér það mjög miður. Mér finnst allt of lítið sem mælir með því að forsjáin sé sameiginleg. Og eins og ég sagði áðan: Ef fólk skilur í góðu og samkomulagið er það gott og fólk hefur það mikinn þroska til að bera og er í það miklu jafnvægi eftir skilnað að það geti komist að samkomulagi, þá held ég að það skipti ákaflega litlu máli fyrir barnið hvort þetta er fest á pappír eða ekki. Þannig að ég er mjög hrædd við þetta, að þarna sé barnið ekki haft í öndvegi. Það má vel vera að það mæli einhver rök með því en ég á mjög erfitt með að koma auga á þau rök. Ég er m.a.s. mjög hrædd um að ef togstreita verður um barnið eða börnin, eins og oft vill verða, þá muni möguleikinn á sameiginlegri forsjá slá á frest uppgjöri og viðhalda togstreitu sem kemur þá auðvitað verst niður á börnunum.

Þannig er hugsjónin að baki breytingarinnar mjög göfug en spurningin er um tilfinningalega þáttinn sem oft ruglar fólk þegar út í skilnað er komið. Og það er mjög hætt við því að — ja, á ég að kalla það apparatið — að apparatið reyni að ýta fólki út í þetta fyrirkomulag og segi: Þetta getur verið lausn á ykkar vandamáli. Skilnaður hefur alltaf mjög mikla erfiðleika í för með sér fyrir barnið. Það getur því verið að þarna sé verið að reyna að leysa vandamál foreldranna án þess að hugsað sé um tilfinningar barnsins. En eins og stendur í athugasemdunum með frv. aðeins seinna, með leyfi forseta:

„Sameiginleg forsjá barns eftir skilnað foreldra eða önnur samvistaslit er úrræði sem vafalaust getur komið að góðu liði og verið barni fyrir bestu, en það greinimark verður ávallt að hafa hér að leiðarljósi.“ — Og það er svo sannarlega rétt að það greinimark verður einmitt að hafa að leiðarljósi.

Ég vona að það verði farið vel yfir þessi atriði í nefndinni og leitað álits þeirra sem hafa farið með forsjármál og fyrst og fremst verði miðað við að allar breytingarnar verði til bóta fyrir barnið, að foreldrarnir komi þar á eftir. Það má ekki líta á svona atriði sem lið í misskilinni jafnréttisbaráttu. Mér finnst oft bera á að jafnréttið sé fólgið í því að taka réttinn af móðurinni, það eru meira að segja margir sem ég hef rætt við sem finnst jafnvel að við eigum að hverfa til fyrri laga þar sem réttur móðurinnar var ótvíræður. En ég skal ekki segja um það núna hvort það væri gott, þó að vissulega finnist mér í fljótu bragði það kannski vera besta lausnin. Vegna þess að það er staðreynd að móðirin hefur alltaf hugsað um börnin og þjóðfélagið hefur ekki breyst nægilega mikið og jafnréttið er ekki komið það langt og foreldraábyrgðin er ekki jöfn, því miður, í flestöllum tilfellum. Við megum vara okkur á því að koma þarna með eitthvað sem er kannski tímaskekkja, eins og stundum er sagt að Kvennalistinn sé. Við verðum að fara mjög varlega, þannig að barnið verði haft algjörlega í forgrunni, en ekki, eins og mér finnst svolítið bera á í rökum sem koma fram í athugasemdunum, hugsa of mikið, og bara alls ekki, um það hvort þetta fyrirkomulag sé eitthvað auðveldara fyrir fólk sem er að skilja. Það getur ekki verið tilgangurinn með þessu.

Herra forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég aðeins minnast á 7. gr. frv., sem er ekki kannski nein veruleg breyting frá fyrri lögum. En þar er talað um framlag til ungmennis sem er í skóla eða í starfsþjálfun og það er talað þar um að það verði að krefjast þess að fá framlag frá, ja, oftast frá föður, til 20 ára aldurs ef það er við nám. Ég varpa fram þeirri spurningu hvort ekki væri rétt að það þyrfti ekki að gera þessa kröfu, það væri sjálfsagður réttur barna eða ungmenna til tvítugs ef það er við nám að fá áfram framlag til menntunar frá því foreldri sem ekki hefur forsjána eða umsjá barnsins. Það getur stundum verið tilfinningalega erfitt fyrir ungmennin að þurfa sjálf að sækja um þetta, sérstaklega ef því er svo hafnað, og síðan þarf e.t.v. að dæma foreldrið til greiðslu. Ég vil því varpa því fram hvort ekki megi athuga nánar þessa grein, hvort það sé ekki rétt að breyta henni aðeins meira.

Síðan vildi ég aðeins minnast á 21. gr. sem fjallar um sektir. Þegar ég las þessa grein fyrst hafði ég einhvern veginn á tilfinningunni að barnið væri orðið eins og byggingarframkvæmdir sem við þyrfti að beita dagsektum ef byggingin væri ekki tilbúin á réttum tíma og mér fannst þetta svolítið fráhrindandi til að byrja með. Sjálfsagt er allt gott meint með þessari grein, en ég hef aðeins efasemdir um að þetta sé rétt aðferð ef maður hefur í huga velferð barnsins og að tryggja umgengni barnsins við í flestum tilfellum föðurinn, vegna þess að þarna erum við enn að hugsa um barnið en ekki rétt föðurins heldur rétt barnsins. Og ég efast á vissan hátt um að það sé rétt að beita svona sektum. Þetta var í fyrri lögum og þetta er bara breyting til hækkunar og verðtryggingar. Ég held nú að þessu sé ekki oft beitt og vonandi þarf aldrei að beita svona dagsektum. En ég velti því líka hér upp hvort ekki sé betra að finna einhverja aðra lausn á þessu með umgengnisréttinn.

En eins og ég sagði áðan þá vonast ég til að ítarlega verði fjallað um þetta í nefndinni. Ég heyrði að hæstv. ráðherra lagði til að um þetta yrði fjallað í félmn. þar sem ég á sæti og því vonast ég til að geta fjallað nánar um málið þar og við síðari umræður og að þetta fái góða umfjöllun hér í deildinni.