02.02.1988
Neðri deild: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4140 í B-deild Alþingistíðinda. (2908)

201. mál, almannatryggingar

Flm. (Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég tala fyrir frv. sem ég flyt ásamt öðrum þm. Borgarafl. í Nd. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér bæði frv. og grg.:

„1. gr. Við 5. mgr. 51. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir svohljóðandi: Þó skal greiða örorkulífeyrisþegum 50% örorkulífeyris og tekjutryggingar.

Fjárhæð þessi skerðist eftir sömu reglum og tekjutrygging, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga þessara.

2. gr. Lög þessi öðlast gildi nú þegar.“

Greinargerð:

„Örorkulífeyrisþegar, sem dveljast á stofnunum á vegum sjúkratrygginga, fá greidda vasapeninga, nú að upphæð 4212 kr. á mánuði. Þessi fjárhæð á að endast fyrir öllum persónulegum þörfum, svo sem fatnaði, snyrtivörum, skemmtunum og ferðalögum. Ólíkt því sem er með flesta ellilífeyrisþega á þessi hópur í fæstum tilfellum aðgang að lífeyri úr lífeyrissjóði og á engar eignir.

Það er yfirleitt viðurkennt að yngra fólk hefur meiri og víðtækari persónulegar þarfir en eldra fólk. Fatlað fólk, sem dvelst á stofnunum þar sem sjúkratryggingar greiða dvölina, hefur sömu þarfir og aðrir þjóðfélagsþegnar á sama aldri til þess að lifa lífinu lifandi.

Í Danmörku t.d. er þessi sérstaða viðurkennd. Þar fá fatlaðir örorkulífeyrisþegar, sem dveljast á stofnunum fatlaðra, vasapeninga sem eru nærri helmingi hærri en vasapeningar almennt.

Sú fjárhæð, sem nú er greidd, nægir ekki fyrir brýnustu þörfum þessa hóps og eru þess mörg dæmi að leita verður til viðkomandi sveitarfélags um viðbót.

Samtök fatlaðra hafa um árabil bent á nauðsyn þess að hagur þessa hóps sé bættur. Þar sem hér er ekki um þá fjárhæð að ræða eða þann fjölda einstaklinga að miklu máli skipti í heildarútgjöldum ríkisins væri það Alþingi til sóma að rétta nú hlut þessa fólks myndarlega.“

Einhverra hluta vegna eru vasapeningar fatlaðra lægri en vasapeningar t.d. aldraðra. Í september núna í haust, ég hef ekki yngri tölur, munar þetta 746 kr. Þetta er ekki stór upphæð, en það má segja að fyrir þá sem fá svona lítið munar allt einhverju.

Það sem við erum að fara fram á, að hækka þennan lífeyri um 50%, er heldur ekki stór upphæð. En það er þeim sem eiga við þetta að búa mikið mál að þetta fáist samþykkt.

Eins og tekið er fram í grg. er fjöldinn allur af þessu fólki fólk sem ekki hefur neinn lífeyri og neinar aðrar greiðslur. Margt af því er ungt. Á þeirri tækniöld sem við lifum á vitum við að margt af því verður fatlað af slysum. Annað er náttúrlega fatlað frá fæðingu eða alltaf.

Sú upphæð sem fólki er ætluð nú, röskar 4 þús. kr. á mánuði, til að sjá þeim fyrir öllum fatnaði, skemmtunum og ferðalögum er náttúrlega ekki neitt. Ég var að reyna í haust að vekja áhuga ungs fólks fyrir þessu máli og það var afar dapurt á svipinn og sagði sem svo: Je minn. Þetta er eins og við förum með á einu balli eða á einni skemmtun. Það er vafalaust rétt.

Það er svo að þetta fólk vill, eins og segir í grg., gjarnan fá að lifa lífinu lifandi. Það hefur áhuga fyrir að fara við skulum segja í leikhús, á ýmsar skemmtanir. Það vill klæða sig eins og jafnaldrar þess þó það sé inni á stofnunum. Það sjá allir hvað langt í frá er að það geti uppfyllt þetta ef það á að lifa á þessum aurum eingöngu.

Það er ákvæði í 51. gr. laga um almannatryggingar sem heimilar að hækka greiðslur til þeirra sem ekki hafa neinar tekjur aðrar en þessar, um 25%. Einhverra hluta vegna hefur þessi heimild aldrei verið notuð mér vitanlega.

Ég var að lesa um það leyti sem ég var að glugga í þetta mjög merkilega grein eftir Lýð Björnsson sagnfræðing sem birtist í síðasta hefti Sveitarstjórnarmála. Þessi grein er ekkert löng, en þar tekst þessum ágæta sagnfræðingi að draga saman mikinn fróðleik í stuttu máli og setja hann fram svo ljósan að að er hreinlega gaman að lesa það. Þarna kemur ýmislegt fram sem ég hafði ekki hugmynd um áður.

T.d. eru rúm 100 ár síðan alþm. bar fyrst fram á Alþingi till. um styrktarsjóð handa fátæku alþýðufólki. Þessi þm. var Þorlákur Guðmundsson, 1. þm. Árnesinga, bóndi að ég áreiðanlega held. Tillagan var felld á því þingi.

Næsta þing er 1889. Þá ber hann hana aftur fram og þá er hún samþykkt. Tekna átti að afla með því að allir húsráðendur áttu að leggja til ákveðið gjald, krónu af karlmanni á ári minnir mig og 30 aura af kvenmanni. Tekjur urðu náttúrlega ákaflega litlar og þar af leiðandi varð sjóðurinn í raun og veru aldrei að neinu gagni.

Síðan gerist ekkert fyrr en 1909. Þá er lögleiddur almennur ellistyrkur fyrir fátæka ellihruma. Þessar tryggingar gilda svo þangað til stjórn hinna vinnandi stétta sest að völdum 1934, sú stjórn sem þeir sátu í Hermann Jónasson, Eysteinn Jónsson og Haraldur Guðmundsson. Í þeim stjórnarsáttmála voru lög um almannatryggingar og Haraldur mun hafa beitt sér af miklu harðfylgi fyrir því að fá þessi lög samþykkt. Þau voru samþykkt á þingi 1936 og flutt af öllum þm. Alþfl.

Ég sá það líka í þessari ágætu grein að Vilmundur Jónsson, fyrrv. landlæknir, tók mikinn þátt í störfum þeirra sem undirbjuggu frv. og hann samdi þá grein sem nær yfir sjúkratryggingar, þ.e. að þeir sem eiga við langvarandi veikindi að stríða fái bætur út úr almannatryggingum. Þetta er fyrsti vísir að sjúkradagpeningum.

Ég rekst þó nokkuð víða á eitt og annað sem hann hefur komið nálægt, þessi ágæti maður, Vilmundur Jónsson landlæknir. Ég get ekki setið á mér að segja frá því að í fyrstu kjarasamningum sem Sókn gerði 1934 er mjög merkilegt atriði. Þar er kveðið á um í grein, sem við köllum alltaf 10. gr. og mér þykir mjög vænt um, að fólk fær haldið fullu kaupi í tíu vikur í veikindum. Það þótti afskaplega mikið þá og fram undir líklega 1980 var þetta óþekkt í almennu verkalýðsfélögunum. Og það sem meira var: það er tekið fram að það fólk skuli einnig njóta ókeypis sjúkrahúsvistar, læknishjálpar og lyfja að svo miklu leyti sem sjúkrasamlag greiði ekki.

Þegar ég hef verið að útlista þetta á t.d. námskeiðum sem við höfum haldið skilur ungt fólk ekki hvers vegna þessi grein er svona. En Vilmundur vissi sínu viti. Hann vissi að til var fólk sem hreinlega gat ekki leitað sér læknishjálpar vegna þess að það hafði engan pening til þess. Þetta var þjóðfélag allsleysisins. Hann vissi náttúrlega líka annað, að þá vann margt fólk úr þessum stéttum á sjúkrahúsum og smitaðist gjarnan af smitsjúkdómum sem það átti nokkuð lengi í og þess vegna var nauðsynlegt að hafa þetta inni í samningum. En mér hefur alltaf þótt það ákaflega merkilegt að þetta skyldi komast inn í kjarasamninga. Formaður félagsins var þá 18 ára stúlka, Aðalheiður Hólm. Hún sagði mér að það væri Vilmundur sem hefði komið þessu inn í samninga og Guðmundur Thoroddsen prófessor hefði stutt dyggilega að því.

Aftur á móti hef ég oft setið frammi fyrir konum sem eiga í langvarandi veikindum og eru komnar til mín til að vitja um sjúkrasjóðinn sinn. Ég verð að benda þeim á að fara í sjúkrasamlagið vegna þess að sjúkrasamlagið greiðir yfirleitt ekki aftur fyrir og þá höfðu þær minnst á vottorð við lækninn, en læknirinn afgreitt þetta með því að hann léti þær hafa vottorðið þegar þær væru búnar hjá sér. Þegar ég hringdi í lækninn og bað hann að láta þær hafa vottorð hið snarasta, því þær væru að tapa einhverjum aurum sem þær gætu annars fengið, brugðu þeir strax við. Þeir höfðu ekki hugmynd um að þetta var svona. Þetta vissu þessir eldri læknar sem þekktu kjör almennings eins og þeir gerðu þá.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en við óskum eftir að að lokinni umræðu verði þessu vísað til heilbr.- og trn.