03.02.1988
Efri deild: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4151 í B-deild Alþingistíðinda. (2914)

212. mál, fangelsi og fangavist

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi fagna því að þetta frv. hefur verið lagt hér fram. Í því koma fram mjög veigamiklar breytingar á þeim lögum sem nú eru í gildi, vægast sagt miklar breytingar út af því að þau lög, sem gilda um fangelsi og fangavist og hafa gilt síðan 1973, gerðu ráð fyrir því að hér yrði ríkisfangelsi og lögin eru byggð upp á þeirri forsendu og átti núverandi fyrirkomulag að leggjast af með því ríkisfangelsi sem átti að byggja við Geitháls. Eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh. hefur verið fallið frá þeirri byggingu, en hins vegar hefur ekkert verið gert í því að laga núverandi fangelsisaðstöðu. Það eru sömu fangelsin núna og voru þegar gömlu lögin voru sett, fyrir utan það að fangelsið á Akureyri hefur verið tekið í notkun, upphaflega sem kvennafangelsi en nú síðar sem fangelsi fyrir karlmenn.

En það kemur margt gott fram í frv. sem hér hefur verið lagt fram og fagna ég því og þá sérstaklega að þar er gert ráð fyrir samræmdri stjórn fangelsismála og að hún verði í höndum fangelsismálastofnunar. En það er kannski eitt atriði varðandi fangelsismálastofnunina sem ég vildi spyrja dómsmrh. út í, hvort það er gert ráð fyrir því að fangelsismálastofnunin hafi með reynslulausn að gera og náðun á einn eða annan hátt eða hvort það verði áfram í höndum fullnustumatsnefndar. Ég byggi þetta aðallega á því að eins og staðan er núna hefur ekki skipt máli hvernig fangi hefur hagað sér í fangelsi, hvort hann hefur hagað sér vel eða illa. Það hefur ekki haft nein áhrif á veru hans í fangelsinu. Þetta tel ég mjög bagalegt út af því að inni í fangelsum, því miður, eru menn sem verður að mínu mati varla bjargað, en stór hluti eru menn sem hafa lent kannski af slysni á glapstigum og að mínu mati vel tekið þátt í samfélaginu á nýjan leik að fangelsisvistinni lokinni.

En það sem ég ætlaði aðallega að ræða hér um er ekki beint varðandi þetta frv., ég hef lýst þeirri skoðun minni að ég fagna tilkomu þess og flestum meginatriðum sem í frv. eru, heldur hvort það standi til að einhverju leyti að bæta úr að því er varðar fangelsin sjálf, hvort í bígerð sé að koma á nýjum fangelsum er byggð verði sem fangelsi en ekki að breytt sé einhverju óhentugu húsnæði í fangageymslur. Þau fangelsi sem nú eru á Kvíabryggju og á Litla-Hrauni voru upphaflega reist í öðrum tilgangi en hýsa þar fanga. Á Akureyri er kannski fangelsið sama marki brennt og Hegningarhúsið, það átti að vera fangelsi til skammtímadvalar. Þessi atriði hef ég töluverðan áhuga á að fá að vita um, hvort það séu einhverjar breytingar í farvatninu eða þetta komi til með að breytast á næstu árum þó þess sé ekki krafist að það verði á þessu ári.

Svo ég víki aftur að þessum fangelsum og reki hvernig þau eru og byrji þá fyrst á Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, þá er þar yfirleitt viðkomustaður. Þar eru fangar frá tveimur vikum upp í 2–3 mánuði og jafnvel lengur, alveg upp í ár. Eftir því sem mér hefur skilist er þar ein kona sem hefur verið þar frá því í mars á síðasta ári. Þar er engin aðstaða til vinnu og annars er þarf til að stytta föngum dvölina á þessum óæskilegu stöðum.

Á Akureyri er mjög líkt farið og vert að íhuga hvernig staðan hefur breyst á Akureyri. Þegar Akureyri var kvennafangelsi var mikið frjálsræði þar og kannski liður í jafnréttisbaráttunni að þá var kvenföngum heimilt að fara um helgar til Reykjavíkur og fengu að fara í kvikmyndahús og fara í innkaupaleiðangur eftir því sem mér hefur skilist. En síðan því var breytt í fangelsi fyrir karlmenn hefur þessi þjónusta öll verið afnumin og þeir sitja þarna inni eins og hverjir aðrir fangar á öðrum stofnunum. Það er sem sagt mjög lítil aðstaða þar eins og í Hegningarhúsinu fyrir vinnu eða tómstundaiðkun.

A Kvíabryggju er staðan nokkuð góð eftir því sem ég best veit, en á Litla-Hrauni, eins og fram kom hjá hæstv. dómsmrh., er mörgu ábótavant, bæði er varðar húsakostinn og klefana, vinnu og annað er varðar vistunina. Ég mundi vilja, eins og ég rakti áðan, fá að vita hvort standi til að breyta þessum fangelsismálum.

Ég er einn af þeim sem hafa trú á því að hægt sé að bæta menn í fangelsisvist. Að vísu hefur sú skoðun verið á undanhaldi. Fólk heldur að þetta séu menn sem verða ekki bættir, en af þeirri reynslu sem ég hef af þessum málum veit ég að þarna fara menn inn sem gætu vel spjarað sig í þjóðfélaginu og verið góðir þjóðfélagsþegnar, en því miður hafa menn farið þarna inn og komið verri út aftur. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að í frv. er heimild til leitar á föngum og þeim sem heimsækja fanga í fangelsum. Ég held að það sé mikil nauðsyn að slík heimild sé fyrir hendi. Ég þykist vita að tilkoma þessarar heimildar hafi verið sú að atvik kom upp á Litla-Hrauni sem síðan leiddi til þess að það hefur ekki verið talið heimilt að grípa til slíkra ráðstafana. Fíkniefni eru nefnilega að mínu viti eitt af því sem á ekki að fyrirfinnast í fangelsum. Ég hef mjög lúmskan grun um að það sé í fangelsum í dag. Hvað mikið get ég ekki sagt til um.

Að því er varðar það að bæta menn sem í fangelsi koma, þá held ég að forsendan sé sú að aðhlynning sé góð, þ.e. vistarverur sem eru þannig að á móti þeim kemur einhver ylur sem vilja hjálpa þessum mönnum við að bæta sig. Vinna er einn stór þáttur í því og því fagna ég því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að það stæði til að auka þá vinnu sem nú er. Eins og fram kom í hans máli eru það þrír tímar sem fangar á Litla-Hrauni vinna á dag, einn og hálfur tími fyrir hádegið og einn og hálfur tími eftir hádegi. Ég hef þá trú að margir þeir menn sem koma inn í fangelsin geti bætt ráð sitt með slíkri meðferð. Þá vil ég í því sambandi minnast á 10. gr. laganna er varðar deildaskiptingu og fagna því sérstaklega að það skuli koma inn í lögin, en hins vegar get ég ekki séð hvernig það verður í núverandi fangelsum tekið upp.

Á Litla-Hrauni hefur verið einhver mynd eða ómynd af deildaskiptingu þannig að fangar hafa beðið um að fara í einangrunarklefa svo að þeir þurfi ekki að vera með hinum föngunum. Þeim beiðnum hefur verið sinnt. Þessir einangrunarklefar eru í þeirri byggingu sem var reist þegar Guðmundar- og Geirfinnsmálið var uppi. Þetta eru ekki heppileg híbýli fyrir menn sem vilja bæta ráð sitt. En þetta virðist vera í mínum huga eini möguleikinn á því að hægt sé að koma upp deildafyrirkomulagi.

Síðan er annað atriði hvernig á að velja í deildir og svo hvaða ávinning fangi hafi af því að fara í æðri deild. Ég vil leggja á það áherslu að hvað snertir þá sem hafa sýnt góða hegðun og fara í betri deild verði tekið tillit til þess sérstaklega þegar sótt er um reynslulausn eða náðun. En slíkt hefur ekki, eins og ég sagði fyrr í máli mínu, verið uppi á teningnum, að ég best veit og samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið, heldur hefur fullnustumatsnefndin meira litið á þann tíma sem viðkomandi hefur verið í fangelsinu en hvernig hann hefur hagað sér.

Það væri kannski ágætt í þessari umræðu að spyrja þá líka hæstv. dómsmrh.: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í afbrotamálum yfir heildina? Hérna er aðeins verið að taka á einum þætti. Eftir því sem mér er kunnugt um er í flestum löndum ákveðin stefna sem heitir t.d. í Danmörku „kriminalpolitik“. Þá er litið yfir allan ferilinn og þá frá rannsókn og alveg til loka, þangað til maðurinn er kannski orðinn nýtur þjóðfélagsþegn aftur. Eins og flestir vita er mikill seinagangur í þessum málum, því miður, varðandi rannsókn, ákæru og síðan dóm. Ég minnist þess þegar ég var í fyrri vinnu minni, það hefur verið seinni hluta árs 1986 eða um áramót, að ég var með mann sem var í gæsluvarðhaldi, og það er ekki búið að ákæra enn þá, en það er nokkuð viðamikið mál. Samt liggja upplýsingar allar á borðinu. Manni finnst með þennan mann að hann bíði í ofvæni og sé búinn að bíða núna í meira en ár eftir því hvað komi til með að gerast. Það má búast við því að eitt ár líði þangað til dómur falli í því máli. Hann er kannski búinn að bæta ráð sitt og þegar dómurinn fellur allt í einu er honum kippt út úr samfélaginu og allar aðstæður breyttar. Þess vegna mundi ég vilja fá upplýsingar núna um hvort það standi ekki til að eyða meiri peningum í þennan þátt í ríkiskerfinu og þykist raunar vita að ástæðan m. a. er sú að mannekla er og þá sérstaklega að það eru ekki borguð sæmileg laun hjá ríkinu fyrir þessa menn. Ég held að það vanti núna tvo fulltrúa hjá saksóknara og það hefur ekki tekist að ráða í þær stöður, en þetta eru yfirleitt stöður sem eru mjög eftirsóknarverðar erlendis. Það má ekki skella allri sökinni á kerfið eða mennina sem vinna í kerfinu.

Það þarf að hugsa betur um „kriminal„pólitíkina og annað er varðar afbrotamál og fangelsismál, athuga hvaða markmiðum á að ná með slíku. Hingað til hafa varnaðaráhrifin verið alls ráðandi í kenningum varðandi afbrot og refsingu, bæði hin almennu og hin sérstöku, hin almennu að menn sjái á meðferðinni á þessum manni að það sé óhagstætt að brjóta lögin og hin sérstöku að kippa þeim manni sem brotlegur hefur verið gagnvart lögunum úr umferð svo að hann sé ekki skaðlegur öðrum.

Það má kannski líka í þessu sambandi athuga það viðhorf sem hefur ríkt gagnvart afbrotamönnum. Það hefur í fjölmiðlum og í umræðu verið mjög neikvætt. Á þeim tíma sem mest var rætt um afbrot, það var þegar svokölluð meðferðarstefna var uppi og ríkisfangelsi, sem rætt var um hér áður, átti að byggja upp samkvæmt henni, var tilhneiging til að líta á afbrotahneigð sem sjúkdóm og fengu afbrotamenn þá alla vega ekki mjög slæmt orð á sig. Það má kannski velta líka fyrir sér muninum á sjúkdómi, t.d. alkóhólisma, og afbrotahneigð. Hér áður fyrr var litið á alkóhólisma sem mjög neikvæðan, en síðan skipt var um stefnu og litið á alkóhólisma sem sjúkdóm fær hann miklu jákvæðari ímynd í huga almennings. Þess vegna er líka spurningin með afbrotamennina að það verði breyting að því leyti til hjá fólki að það sjái að þetta eru ekki alslæmir menn. Eins og ég sagði áðan eru mörg tilvik þarna sem því miður verður ekki bjargað eða mjög erfitt að bjarga. Það er spurning um að líta á manninn sem slíkan en ekki afbrotið. Síðan er líka á það að líta að fangelsisvist og afbrot er afleiðing en ekki orsök.

Þetta eru almennar hugleiðingar um fangelsi og refsivist.

Þetta frv. er að nokkru leyti staðfesting á því sem hefur verið að þróast í fangelsismálum er varðar réttindi og skyldur fanga og finnst mér mjög vel að reglur sem gilt hafa skuli nú lögfestar og skýrar línur séu um hvers er rétturinn og hvers skyldurnar.

Í frv. er gert ráð fyrir því varðandi afplánunarfangelsi að fellt verði niður „varðhald“. Ég held að það sé afleiðing þess, sem gerst hefur, að á undanförnum árum hefur ekki verið gerður greinarmunur á þessu tvennu, fangelsi og varðhaldi. Hugsunin með varðhaldi var sú að það væri minni refsing og þeim föngum ætti að halda sér og stæði vistin yfirleitt í styttri tíma en fangelsun. Því var mjög oft beitt varðandi sérrefsilög, en fangelsun aftur á móti þegar um alvarlegri brot var að ræða. Ég held að rökin fyrir því að koma þessu í eitt séu aðallega þau að það hafa aldrei verið neinar skýrar reglur þarna á milli. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér fyndist eftirsjá í því að fella niður varðhald. Þar er um að ræða minni háttar brot og brot er ekki varða stór atriði í huga fólks. Þó að sjálfsögðu séu öll brot gegn reglum ríkisins alvarleg er þarna ekki um að ræða eins alvarleg brot og brot gegn hegningarlögum.

Ég var búinn að lýsa því áðan að ég fagnaði fangelsismálastofnun, en það sem ég vildi fá að vita er hvernig hún kemur inn í gang mála varðandi reynslulausn og náðun, hver er hugsunin.

Svo er annað atriði sem ég vildi vekja máls á og raunar kom hæstv. dómsmrh. inn á það. Það er varðandi öryggisgæsluna. Mig langar að spyrja: Hvað þýðir í 3. gr. „ef sérstakar ástæður krefjast er einnig heimilt að vista þar þá sem dæmdir eru í öryggisgæslu“? Hverjar þurfa þessar sérstakar ástæður að vera? Eru það þær ástæður að ríkið geti ekki komið þeim fyrir á öðrum stöðum eða er eitthvað annað sem býr þarna að baki?

Í 8. gr. kemur fram að fangelsismálastofnun ákveður í hvaða fangelsum afplánun fer fram. Ég held að það þurfi að setja nokkuð ákveðnar reglur um þetta, þá eflaust nánar í grg., hvernig á að velja hver á að fara hvert.

Ég var búinn að minnast á 10. gr. Ég tel að það sé til bóta. Og líka 13. gr. er varðar vinnuna.

Síðan kemur seinni hlutinn af 13. gr. er varðar samfélagsþjónustuna. Þá þætti mér fróðlegt að fá að vita hver á að ráða því hvort maður á að sitja í fangelsi eða hvort hann eigi að stunda vinnu utan fangelsisveggjanna og þá ef dómur gengur um að maður lendi í fangelsi hvort það eigi að breyta þeim dómi. Er ágætt að fá svar við því.

Það er líka annað sem kemur fram í 15. gr. Mig langar fyrir forvitni sakir að vita hvort það standi til að fullnægja þeirri grein, en þar segir: „Fanga skal séð fyrir aðstöðu til tómstundaiðkana og líkamsþjálfunar.“ Stendur þá til að hætta með Hegningarhúsið á Skólavörðustíg og Akureyrarfangelsið eða hvað á að gera?

Sama er varðandi 16. gr. Þar segir: „Fangi skal vera einn í klefa.“ Það er á Litla-Hrauni einn í klefa, en það eru fleiri í klefa á Skólavörðustígnum.

Í 17. gr., sem ég var búinn að fagna, er heimild til að leita á þeim sem heimsækja fanga.

Á þessu stigi hef ég ekki meira um frv. að fjölyrða, en ég sit í þeirri nefnd sem fær þetta til meðferðar og vonast eftir því að við fáum gleggri upplýsingar og nánari um ýmis atriði er varða frv.

En eitt gleymdist varðandi frv. og mig langar að spyrja hæstv. dómsmrh. um það að gefnu tilefni. Hann talaði um að taka blóð- og þvagsýni og minntist á smitsjúkdóma. Þá vil ég spyrja hann að því hvort hafi komið upp á Litla-Hrauni eða í fangelsum að fangar hafi verið haldnir eyðni og í framhaldi af því: Ef svo er, hvenær uppgötvaðist að fangar væru haldnir þessum sjúkdómi?

Ég hef ekki fleira um þetta að segja, en ég hef beint ákveðnum spurningum til dómsmrh. og ef ég þekki hann rétt gefur hann mér greinargóð svör. En ég vil að lokum fagna þessu frv. og mun líta á það mjög jákvæðum augum.