03.02.1988
Efri deild: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4156 í B-deild Alþingistíðinda. (2915)

212. mál, fangelsi og fangavist

Salome Þorkelsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja umræður um frv. Ég vildi aðeins koma hér og fagna því sérstaklega að það hefur nú verið endurflutt, en eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra var frv. flutt á síðasta þingi en var þá ekki afgreitt.

Það hefur einnig komið fram að ég var einn af þeim nefndarmönnum sem var falið að gera heildarúttekt á fangelsismálum og endurskoða lög og reglur þar að lútandi og þetta frv. er einmitt samið á grundvelli starfs þeirrar nefndar.

Þegar nefndin var að störfum heimsótti hún flest fangelsi í landinu, Litla-Hraun, Kvíabryggju, Hegningarhúsið, Síðumúla og Bitru, og við reyndum að kynna okkur eins vel og kostur var hvernig aðstaðan var í fangelsum hér á landi og hver aðbúnaður fanga var. Við ræddum að sjálfsögðu bæði við fangaverði, hittum fanga og áttum fundi með fulltrúum þeirra þar sem þeir komu á framfæri við okkur því sem þeim lá á hjarta. Ég tel að það hafi verið mjög gagnlegt fyrir nefndina að fá þessa aðstöðu til að kynnast stöðu þessara mála með þessum hætti. Jafnframt áttum við fundi með fulltrúum Verndar, sem eins og kunnugt er hafa unnið mikið starf í þágu fanga eða fangahjálpar, og fulltrúa Skilorðseftirlits ríkisins og fanga svo að eitthvað sé nefnt.

Niðurstaða okkar eftir að hafa heimsótt fangelsin var sú að við töldum að starfsfólk í fangelsum ynni sín verk af stakri samviskusemi og jafnvel betur en hægt væri að ætlast til miðað við viðkomandi aðstæður og fyrirkomulag í fangelsunum. En eins og fram hefur komið er viðurkennt að aðstaða í fangelsum hér á landi er langt frá því að vera eins og hún ætti að vera eða eins og kröfurnar ættu að vera.

Við, eins og ég sagði, ræddum við ýmsa aðila sem hafa með þessi mál að gera og kom mjög skýrt fram hjá þeim öllum að endurhæfing fanga hlýtur að vera grundvallaratriði í öllum refsimálum og að fangar verði nýtari þjóðfélagsþegnar að lokinni refsivist, með hvaða hætti sem hún svo hefur verið, og þannig verði t.d. endurhæfingin að byrja í fangelsunum sjálfum. Þar er aðgerðarleysið eitt stærsta vandamálið.

Vinna í fangelsi skiptir miklu máli og þessi vinna þarf að vera eins fjölbreytileg og mögulegt er og vera arðbær. Þá kom það líka skýrt fram að það að gefa föngum kost á skóla eða að mennta sig, hvort sem þar er um að ræða starfsmenntun eða þá aðra menntun, sé mjög þýðingarmikið og jákvætt.

Það kemur fram í 2. gr. frv. í 5. lið um hlutverk fangelsismálastofnunar, sem er nýtt ákvæði miðað við fyrra frv., og ég tel eftir því sem ég get best séð að það hljóti að vera til bóta, að sjá á um að í fangelsum sé veitt sérhæfð þjónusta, svo sem heilbrigðisþjónusta, prestsþjónusta o.s.frv. Kannski á það ekki beint heima undir þessum lið, en mig langaði að spyrja hvernig væri hugsað það hlutverk sem Vernd hefur haft og ég held að allir viðurkenni nú að sé til mikilla bóta, hvernig hlutverk þess félags sé hugsað í framtíðinni.

Nú voru menn sammála um það, a.m.k. þeir starfsmenn sem hafa sinnt málum Verndar og hins vegar Skilorðseftirlitið, að þó að þetta gæti skarast eitthvað hefur verið þarna mjög góð samvinna á milli. Það þarf að vera bein skilgreining á hlutverkum þessara aðila, annars vegar Verndar og hins vegar Skilorðseftirlitsins. Það kom fram í umræðum innan nefndarinnar að þetta þyrfti að vera á hreinu því að það ætti ekki bara að byggjast á þeim einstaklingum sem starfa hverju sinni.

Ég veit ekki hvort það er ástæða fyrir mig að fjalla miklu meira um þetta. Ég vildi aðeins koma þessum hugleiðingum á framfæri og láta það koma fram að nefndin sem vann þetta verk á sínum tíma reyndi að kynna sér sem best stöðu þessara mála og ekki síst með því að heimsækja fangelsin. Segja má að það hafi verið lífsreynsla út af fyrir sig og væri kannski hverjum manni hollt að gera það.

En mig langar til þess líka, af því að hæstv. ráðherra minntist á samfélagsþjónustuna og fsp. mína sem ég bar upp fyrir hann fyrir stuttu hér á hv. Alþingi, ég held að það hafi verið í lok nóvember, að geta þess að þá kom fram að hann hafði nýlega skipað þá nefnd sem var samþykkt skv. þáltill., sem ég var einn af flm. að, um að skipa nefnd til að kanna hvort endurgjaldslaus vinnuþjónusta í þágu samfélagsins geti við ákveðnar aðstæður komið í stað afplánunardóma í fangelsi. Mig langar að spyrja hvort það sé vitað hvenær sú nefnd muni ljúka störfum og hvort niðurstöður hennar gætu hugsanlega komið inn í umfjöllun um frv. í hv. allshn.

Að öðru leyti vil ég endurtaka þakkir mínar fyrir að frv. er nú komið fram. Ég ætta ekki að fjalla frekar um það því ég á sæti í nefndinni og hef því tækifæri til að koma athugasemdum á framfæri á þeim vettvangi.