03.02.1988
Efri deild: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4158 í B-deild Alþingistíðinda. (2917)

212. mál, fangelsi og fangavist

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingdeildarmönnum fyrir þeirra undirtektir og athugasemdir við frv. Ég hygg gott til samstarfs við þá og aðra þm. um framgang þessa máls og treysti þá að málið fái vandaða meðferð í allshn. þessarar hv. deildar og veit að þar verður málinu sinnt af alúð. En ég vildi líka leggja það inn strax í upphafi að þetta mál tefjist nú ekki úr hófi fram í meðförum þingsins þótt það eigi að fá vandaða meðferð því að það er vissulega þörf á að færa ákvæði um fangelsismál og fangavist til nútímahorfs til að tryggja rétta framkvæmd þessara mála, réttarstöðu þeirra sem við fangelsin starfa og fanganna sem í þeim þurfa að dveljast.

Ég vildi víkja fyrst nokkrum orðum að því sem kom fram í máli hv. 11. þm. Reykv. Guðmundar Ágústssonar og vildi þakka honum stuðning við frv. og margar gagnlegar athugasemdir. En ég hlýt þó að gera við það vissa athugasemd, sem hann sagði að ekkert hafi verið gert til þess að laga núverandi fangelsisaðstöðu upp á síðkastið. Það er vissulega rétt að þarna hefur ríkt mikil kyrrstaða um áratug eða svo. Ég vildi minna á enn að í fjárlögum fyrir árið 1988, sem Alþingi samþykkti, er í fyrsta sinn í langan tíma samþykkt fjárveiting til að reka nýtt fangelsi, fangelsi við Kópavogsbraut 17, sem fyrst og fremst er ætlað fyrir kvenfanga. Það er að vísu rétt að það er ekki byggt sérstaklega til þessara þarfa, en þykir henta vel til þeirra og gæti gefið færi á að sinna sumum af þeim sérþörfum sem ég veit að hv. 11. þm. Reykv. eins og ég ber mjög fyrir brjósti að sinnt verði. En ég mun víkja að því nokkrum orðum á eftir þegar ég kem að því að ræða hvað kunni að verða fram undan hvað varðar húsakost fangelsanna, áform og úrbætur.

Hv. 11. þm. Reykv. spurði í fyrsta lagi hvort fangelsismálastofnun mundi fara með reynslulausn og náðun fanga eftir að hún væri orðin að veruleika, ef frv. yrði samþykkt, og hvert yrði hlutverk fullnustumatsnefndar og tengsl fangelsismálastofnunar og fullnustumatsnefndar hvað varðar afplánun. Ég vil gera það alveg skýrt að ég hef ekki í huga að fullnustumatsnefnd hætti störfum, alls ekki. Hins vegar verður samstarf hennar og fangelsismálastofnunar ákaflega mikilvægt. Ég geri þó ráð fyrir að fangelsismálastofnun og forstöðumaður hennar verði þar með einn helsti ráðgjafi fullnustumatsnefndar og ég tek undir það með hv. 11. þm. Reykv. að hegðun fanga í fangelsinu og viðleitni sem hann þar kann að hafa sýnt til að bæta ráð sitt á að mínum dómi að hafa áhrif á hvort reynslulausn skuli veitt eða ekki.

Þá kem ég að annarri spurningu hv. 11. þm. Reykv. en hún snerist um: Hvað er það sem til stendur að gera? Hann fór ítarlega yfir ástand núverandi fangahúsa, bæði í Reykjavík og annars staðar. Ég geri ekki athugasemdir við þá lýsingu sem þar kom fram. Hún er rétt. Að Skólavörðustíg og á Akureyri er ekki aðstaða til þess að fangar geti notið útiveru eða stundað vinnu svo vit sé í. Úr því þarf að bæta. Ég geri ráð fyrir, eins og kom fram í framsöguræðu minni, að gefa þinginu skýrslu um húsakost fangelsanna og ástand húsanna, þarfir og hugmyndir um hvernig úr þessu megi leysa, en eins og kom líka skýrt fram í mínu máli geri ég ekki ráð fyrir að leggja þar fram áform um að byggja stórt nýtt fangelsi þótt ég vilji segja það skýrt að ég tel þörf fyrir að byggja gæsluvarðhaldsfangelsi í Reykjavík. Ég tel mikla þörf fyrir að bæta húsakostinn að Litla-Hrauni. Ég hef í huga stækkun að Kvíabryggju, þó þannig að þar njóti sín áfram þeir kostir sem fylgja því að reka tiltölulega fámenna stofnun sem gerir kleift að sinna högum hvers og eins sem þar verður að dveljast. Ég er sem sagt með lausnir í huga sem svari þörfum tímans hverju sinni og þegar þessi skýrsla verður fram komin vonast ég til þess að undirstaða fáist fyrir skipulegri fjárveitingar til þessa málaflokks á næstu árum. Ég held að þetta sé hyggilegri leið en sú að samþykkja með lögum að byggja skuli stofnun svo og svo á ákveðnum stöðum. Ég vil líka hlýða mjög á starfsmenn fangelsanna í þessu efni, þá sem fyrir þeim standa á degi hverjum. Það hef ég reyndar þegar gert og hugsa mér að gera enn betur þegar fram í sækir og að sjálfsögðu er líka nauðsynlegt að kynnast vandlega viðhorfum fanganna sem þarna dveljast.

Ég er ánægður með að hv. 11. þm. Reykv. tók undir þá skoðun að það sé nauðsyn — þótt ill sé — að setja ákvæði til að heimila leit vegna fíkniefna. Það er ekki tilviljun að þetta er í frv. eins og hann nefndi réttilega. Því miður þarf að hafa þessa heimild algerlega ótvíræða því það er vágestur í fangelsunum eins og víðar í þjóðfélaginu, sem við verðum að verjast með öllum tiltækum ráðum, sem er ásókn fíkniefnanna í líf og heilsu fólks og því miður er það rétt, eins og fram hefur komið í máli þeirra sem hér hafa talað auk mín, að fíkniefnin eru algeng í hópi afbrotamanna.

Það er líka ástæða til að nefna, af því að það hafa nefnt bæði hv. 11. þm. Reykv. og 9. þm. Reykn. í sínu máli, að deildaskiptingin er á þessu stigi ekki bundin í frv. Ég tel það ekki hyggilegt því að það er ekki hægt að sjá fyrir nákvæmlega hvaða viðmiðanir séu þar bestar. En í mínum huga er það fyrst og fremst tvennt sem þar kemur til álita: Í fyrsta lagi að gefa þeim mönnum kost á, sem standa sig vel, sýna framför, stunda vinnu eða nám, halda sig frá óhollum efnum, að þeir færist í betri stað í fangelsinu og að slík framför hafi áhrif á reynslulausn, hugsanlega á þeirra leyfi og samgang við fólk utan fangelsis.

I öðru lagi er svo það, sem hv. 9. þm. Reykn. kom inn á, að deildaskiptingin eigi að taka mið af þeim veruleika sem við horfumst í augu við, sem eru fíkniefnin, bæði innan og utan veggja fangelsanna, þó ég vilji ekki gera svo mikið úr því sem hann gerði, hv. 9. þm. Reykn., að í fangelsunum að því væru brögð að þar væru menn sem vissu ekki af því, væru í vímu allan tímann, ef ég legg út það sem sagt var. Ég óttast nú, því miður, að flestir þeirra viti fullvel af því að þeir gista fangelsin. En það dregur ekkert úr því að það er mikil þörf á að reyna að beita deildaskiptingu til að halda aðgreindum þeim mönnum sem vilja og sýna að þeir séu að reyna að losa sig við fjanda þann. En það er ekkert auðvelt og það er alveg rétt ábending, sem kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv., að til að geta skipt í deildir þurfum við húsakost sem er að einhverju leyti öðruvísi en sá sem nú er. Dæmið sem hann nefndi, að fangar á Litla-Hrauni færu í einangrun eða öryggisfangelsi ef þeir óskuðu eftir því að vera lausir við félagsskap annarra, er ekki heppileg lausn. Hins vegar er þetta öryggisfangelsi, úr því að 11. þm. Reykv. nefndi það, annað dæmi um nýtt hús á þeim tíma sem liðinn er frá því að lögin um ríkisfangelsi voru sett. (Gripið fram í.) Já, það er rétt, en hús er það samt.

En hins vegar er það nú alls ekki mín meining að mæla því bót sem er. Hið rétta er að í þessum efnum hefur verið mikil kyrrstaða og þetta mikilvæga svið hefur því miður ekki fengið viðhlítandi aðhygli eða fjárveitingar frá löggjafanum.

Ég ætlaði að fara örfáum orðum um það sem hv. 11. þm. Reykv. innti eftir og varðar stefnu ríkisstjórnarinnar í afbrotamálum almennt, það sem hann vildi nefna „kriminalpolitik“ og óskaði eftir því að litið yrði yfir allan ferilinn frá rannsókn, ákæru, til dóms og afplánunar og þess, sem ég tel nú ekki síður mikilvægt, hvernig þeim sem þolað hefur refsivist gengur að komast út í þjóðfélagið aftur sem nýtir menn að lokinni afplánun. Þetta nefndi hv. 11. þm. Reykv. ekki, en ég veit að hann telur það eins og ég kannski mikilvægasta þrepið í þessum ferli. Ég get fullvissað hv. ræðumann um að það er minn vilji og ríkisstjórnarinnar að einmitt verði litið á dómsmálin og refsimálin í þessu víðtæka samhengi. Ég vildi líka leyfa mér að benda á að nú er unnið að umbótum á mörgum sviðum dómsmálanna. Bæði á sviði dómstóla þar sem í undirbúningi er dómstólafrumvarp, á sviði meðferðar einkamála og á sviði meðferðar opinberra mála. Allt er þetta til þess hugsað að koma í veg fyrir óþarfar tafir í dómskerfinu, tafir sem valdið geta persónulegum vandkvæðum og jafnvel harmleikjum, eins og hv. 9. þm. Reykn. kom inn á í sínu máli og reyndar hv. 11. þm. Reykv. líka. Því miður eru brögð að því, sem báðir nefndu, að menn þola sína dóma eftir að langt er um liðið frá því að brotið var framið og jafnvel að dómur gekk og við aðrar aðstæður. Það þarf að reyna að koma í veg fyrir þetta. Ég tel að sú samræming á afplánun sem fólst í því að afplánun fangelsisdóma var færð til dómsmrn. á sínum tíma og nú enn frekar með því að fela þetta þeirri stofnun, sem hér er kölluð fangelsismálastofnun, muni einmitt geta stuðlað að skjótari meðferð, þ.e. skjótari afplánun og betra samræmi í fullnustu refsidóma. Þetta kemur þó ekki fyrir margt eða mikið ef dómsmálagangurinn sjálfur er hægur og ómarkviss. Úr því þarf að bæta á sínum stað og að því er líka unnið. Ég endurtek að ábendingar hv. 11. þm. Reykv. eru vel þegnar. Ég skil þær þeim skilningi, sem fram hefur gengið af mínum orðum. Það þarf einmitt að skoða fangelsismálin í þessu samhengi. En það verður ekki allt sagt í einni og sömu prédikun. Það ætla ég heldur ekki að reyna en sný mér að ýmsu öðru sem fram kom í máli 11. þm. Reykv. og annarra sem hér hafa talað.

Ég vildi þá svara því beint, sem til mín var beint, að það munu ekki vera dæmi um að fangi í íslensku fangelsi hafi reynst smitaður af eyðni svo mér sé kunnugt. Um það var spurt vegna þeirrar heimildar sem þetta lagafrv. felur í sér til að taka blóð- og þvagsýni úr föngum.

Ef ég svo vík að beinum ábendingum og athugasemdum hv. 11. þm. Reykv. við einstakar frvgr. vildi ég fyrst víkja að því sem hann nefndi varðandi 3. gr., en þar segir að ef sérstakar ástæður krefja er einnig heimilt að vista þar þá sem dæmdir eru í öryggisgæslu, þ.e. í fangelsum. Þar vildi ég segja að þær sérstöku ástæður sem þarna er til vísað varða að sjálfsögðu ekki persónu þess manns sem ósakhæfur hefur verið úrskurðaður heldur eingöngu það neyðarúrræði að það kunni að þurfa að hýsa slíka menn í fangelsum ef ekki er um neina aðra lausn að ræða. Þetta er þó eingöngu neyðarúrræði frá hálfu hins opinbera, en varðar ekki aðstæður þess ólánssama ósakhæfa manns sem um er að tefla hverju sinni. Ég vona að þetta svari spurningu hv. 11. þm. Reykv. En ég drap á það í mínu máli að á fjárlögum þessa árs væri vísir að fjárveitingu til að undirbúa hvernig best sé að haga meðferð á öryggisgæslu ósakhæfra manna.

Ég vildi þá víkja að öðru atriðinu sem hv. 9. þm. Reykn. kom að í sínu máli. Það er sannarlega þörf á úrbótum vegna geðsjúkra afbrotamanna. Þetta eru tvenns konar mál. Annars vegar menn sem ósakhæfir eru sakir geðveiki og eiga ekki að vera í fangelsum. Það er gert alveg skýrt í frv. sem áður var ekki skýrt og reyndar var gert ráð fyrir sjúkradeildum í ríkisfangelsinu. Það er ekki í tillögu minni nokkurs staðar. Hitt málið er svo hvernig fara skuli með þá menn sem veilir verða á geði í fangelsi eða í fangavistinni. Þeir eiga að sjálfsögðu að njóta sjúkraþjónustu ef þeir verða fyrir slíkri hremmingu. Þeim eins og öðrum mönnum getur orðið meint af þessum völdum og það þarf þá að leita þar réttra læknisráða.

Þetta eru verkefni sem ég vil og mun beita mér fyrir að finna farsælar lausnir á í samráði við heilbrmrh. og eins og ég vék að í fyrri ræðu minni hef ég þegar lagt að því nokkur drög. Auðvitað er langt frá því að hægt sé að lofa þarna fullkomnum lausnum. En þó hlýtur okkar velferðarríki að stefna að því að sinna eins og best má verða þessu ólánssama fólki.

Ég ætlaði svo að drepa á það sem sagt var um ákvæði 13. gr. um hver skuli ákveða beitingu annarra refsiúrræða skv. þeirri grein. Þar ætlaði ég að segja að það mun fyrst og fremst verða tillöguefni fullnustumatsnefndar til dómsmrh. eins og ég lít á þetta mál. Það er hins vegar mjög mikilvægt að forstöðumaður þeirrar stofnunar, sem daglega sér um fangann sem í hlut á, eigi orð í málinu og skilorðseftirlitið ef svo háttar. Einmitt fangelsismálastofnunin á að geta sameinað þessar upplýsingar og ráðgjöf og þar með orðið ráðgjafi fullnustumatsnefndar í þessum málum. En þetta á eingöngu við það sem er í 13. gr. frv. en ekki um hugsanleg ný refsiúrræði eins og samfélagsþjónustuna. Ég vildi þó segja það skýrt að ég tel það sjálfsagt að fara skuli á sama hátt með það því í vissum skilningi má líta á hugsanlega samfélagsþjónustu án launa í stað fangavistar sem eins konar millistig á milli skilorðsbundins dóms og óskilorðsbundins fangelsis. Þetta er að vísu bara einn flötur á því máli, en flötur, sem kann að skipta máli í framtíðinni.

Á málinu eru fleiri hliðar sem ég ætla ekki að nefna. Sumar gætu þó tengst því sem allir ræðumenn hafa nokkuð nefnt og það er þegar hið refsiverða athæfi tengist áfengissýki eða vímuefnum, fíkniefnanautn. Það er vissulega þörf á að skipuleggja hvernig við þeim vanda skuli snúist í fangelsunum. Ég vildi nefna, vegna þess sem fram kom í máli hv. 9. þm. Reykn., að samstarf við SÁÁ og AA-samtökin er reglulegt og gagnlegt frá sjónarmiði fangelsanna. SÁÁ-menn og AA-menn koma í heimsóknir í fangelsin, sérstaklega til Litla-Hrauns. Það er ekki mjög mikið um að fangarnir notfæri sér þessa fúslega framboðnu þjónustu, en það sem er í þá átt er að sjálfsögðu af hinu góða. Það samstarf má styrkja, en þó tel ég nauðsynlegt að af opinberri hálfu verði vegna þeirra sem í fangelsum eru hugsað fyrir því hvort hægt sé að skipuleggja meðferðarþjónustu vegna vandamála af þessu tagi betur en gert hefur verið í tengslum við fangelsin.

Meira treysti ég mér ekki til að segja um þetta og vona að ég hafi þá svarað því sem fram kom í máli þeirra hv. 11. þm. Reykv. og hv. 9. þm. Reykn., en ætla þá að lokum að víkja nokkrum orðum að því sem kom fram hjá hv. 6. þm. Reykn.

Ég vildi þá byrja á að þakka henni sérstaklega og öðrum nefndarmönnum, sem drögin lögðu að þessu frv., fyrir vel unnin störf. Ég þakka henni líka þau orð sem hún lét hér falla um frv. í þeirri gerð sem það er nú og sérstaklega að hún skuli taka undir þá breytingu á yfirstjórn fangelsanna sem felst í tillögunni um fangelsismálastofnun. Ég skildi hennar orð einnig þannig að hún styddi þá megintillögu um breytta skipan í innri málefnum fangelsanna sem felst í hinu nýja frv. sem er tillagan um heimild til deildaskiptingar.

Hv. 6. þm. Reykn. vék í sínu máli að nefnd sem skipuð var á sl. hausti til að kanna hvort samfélagsþjónusta án launa geti komið til greina sem refsiúrræði hér á landi eða við íslenskar aðstæður í stað fangavistar. Ég get því miður ekki spáð um það hvenær störfum nefndarinnar ljúki og ekki um það hvort ávöxtur af hennar starfi geti lagst á borð með öðrum gögnum þessa máls hjá allshn. þegar hún fer að fjalla um það. Ég vildi segja það sem praktíska ábendingu að ég teldi heppilegra að kveðja formann nefndarinnar og nefndarmenn til fundar með allshn. þegar allshn. hefur sín störf fremur en bíða eftir nefndarskýrslunni því ég á ekki von á að unnt verði að leggja hana fram á þeim tíma sem ég geri mér vonir um að nefndarmeðferðin taki á þessu mikilvæga máli og lýk ég þar með minni ræðu.