03.02.1988
Efri deild: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4165 í B-deild Alþingistíðinda. (2920)

212. mál, fangelsi og fangavist

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Örfá orð vegna þessara síðari ræðna hv. 9. þm. Reykn. og 11. þm. Reykv.

Það má vera, hæstv. forseti, að í orðaskiptum okkar áðan hafi gætt nokkurrar ónákvæmni, en ég get fullvissað hv. 9. þm. Reykn. um að milli mín og hans er enginn skoðanamunur um kjarna málsins, nefnilega þörfina á því að taka fíkniefna- og vímuefnavandann í fangelsunum og utan þeirra föstum tökum og hitt að huga vel að því hvernig okkar vonandi mannúðlega þjóðfélag býr að því ólánssama fólki sem hv. 9. þm. Reykn. gerði að umtalsefni áðan, nefnilega geðsjúkum mönnum sem þurfa að sæta öryggisgæslu og þeim sem geðveikir verða í fangavist. Þar er enginn munur á mínum skoðunum og þeim sem hv. 9. þm. Reykn. lýsti svo vel í sinni fyrri ræðu.

Hv. 11. þm. Reykv. ítrekaði skoðanir sínar um hvernig standa ætti að uppbyggingu fangelsanna og ég fagna því að hann skuli ítreka þá skoðun að það sé hyggilegra að byggja á frekar smáum einingum og fámennum fangelsisstöðum en stórum. Ég er honum algerlega sammála um þetta.

Hann ræddi líka afbrotamálastefnuna ef nota mætti það orð á íslensku yfir það sem hann gerði að umtalsefni. Það er vissulega rétt að með bættri félagslegri þjónustu og ráðgjöf við þá sem í fangelsum lenda, ekki síst þegar athugað er hversu há endurkomutíðnin er í fangelsin, megi bæta ástandið almennt talað, en það er náttúrlega veigamikill þáttur í stefnu samfélagsins gegn afbrotum að reyna að koma í veg fyrir þau, að girða fyrir þau verk sem valda fangelsun manna. Það er mikilvægur hlekkur í þessari keðju sem hv. 11. þm. Reykv. nefndi ekki, þ.e. varnir gegn afbrotum, en ég veit að það er ekki af því að hann vilji vanrækja hann. Þetta er uppeldismál og ég held að það sé rétt skoðun að það uppeldi geti byrjað í fangelsunum og það sé ekki vonlaust verk þótt erfitt sé.