03.02.1988
Neðri deild: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4167 í B-deild Alþingistíðinda. (2927)

34. mál, aðför

Frsm. allshn. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. um frv. til laga um breytingu á lögum um aðför nr. 19 4. nóv. 1887. Nál. er á þskj. 522. Frv. þessa efnis og raunar samhljóða var flutt á síðasta þingi af sama flm., hv. varaþm. Jóni Magnússyni. Frv. varð þá ekki útrætt en tekið til athugunar í allshn. og sent til umsagnar nokkurra aðila. Allshn. hefur nú farið yfir þessar umsagnir og á grundvelli þeirra og umræðu í nefndinni mótað sínar skoðanir um afgreiðslu málsins.

Þessar umsagnir voru frá stjórn Neytendasamtakanna, stjórn Sýslumannafélagsins, laganefnd Lögmannafélags Íslands, stjórn Dómarafélags Íslands og réttarfarsnefnd. Frá þessum aðilum komu ýmsar athugasemdir. Stjórn Dómarafélagsins taldi æskilegra að heildarendurskoðun færi fram á lögunum þótt ákvæði frv. kynnu að vera til bóta. Laganefnd Lögmannafélagsins taldi sig fylgjandi tilgangi frv., en lagði til að farið yrði að tillögu réttarfarsnefndar um breytingar á því, enda yrði tilganginum fyllilega náð þannig. Stjórn Dómarafélagsins lagðist gegn frv.

Réttarfarsnefnd sendi rækilega umsögn. Þar kom m.a. fram að nefndin taldi ákjósanlega þá breytingu á 33. gr. aðfararlaga að heimila fógeta að boða dómfellda til framkvæmdar aðfarargerðar á starfsstöð sinni. Á frv. væru hins vegar annmarkar sem réttarfarsnefnd teldi nauðsynlegt að bæta úr. Í framhaldi af rökstuðningi fyrir skoðun réttarfarsnefndar gerði hún tillögu um að frv. yrði fært í það horf sem samræmdist þessum skoðunum.

Allshn. gerir þessar tillögur réttarfarsnefndar að sínum og flytur því nýtt frv. þessa efnis á sérstöku þingskjali, 523. Ef farið verður að þeirri tillögu allshn. og það frv. samþykkt mundi af því leiða að frv. á þskj. 34 kæmi ekki til frekari afgreiðslu í þinginu.

Undir þetta álit rita allir nefndarmenn, en hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Herra forseti. Á dagskrá þessa fundar, 3. liður dagskrárinnar, er frv. um aðför, þskj. 523 og 231. mál. Nd. Ég spyr hæstv. forseta hvort hann hafi nokkuð við það að athuga að ég mundi þá gera grein fyrir því frv. í beinu framhaldi af þessu áliti nefndarinnar. (Forseti: Ég hef ekki neitt að athuga við þá málsmeðferð og er þá heimilt að gera grein fyrir því frv.) Já takk.

Frv. allshn. felur í sér nokkrar fleiri breytingar en frv. á þskj. 34, auk þess sem 33. gr. laganna, en um það fjallaði frv. hv. varaþm. Jóns Magnússonar, er á annan hátt orðuð en í því frv.

1. gr. frv. nefndarinnar felur í sér breytingu á 25. gr. laganna, 1. málsgr. Þar er bætt inn öðrum málsl. 1. málsgr. til samræmis við breytingar sem gerð er tillaga um á 33. gr. laganna. Þeirri grein er svo breytt frá frv. og lögunum. Í frv. á þskj. 34 var ráðgert að fógeti geti af sjálfsdáðum eða samkvæmt beiðni dómhafa ákveðið að boða dómþola á starfsstöð sína fremur en að byrja aðfarargerð á heimili gerðarþolans. Þessa valkvæðni verður að telja óæskilega. Því gerir frv. allshn. ekki ráð fyrir slíku heldur að ósk dómhafa nægi.

Þá skuli kveðja dómfellda til gerðarinnar með ábyrgðarbréfi, símskeyti eða öðrum sannanlegum hætti með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara. Með þessu ákvæði er fallið frá þeirri reglu að stefnuvottar annist birtingu kvaðningar fyrir dómþola um að mæta á starfsstöð fógeta vegna beiðni um aðfarargerð. Að áliti réttarfarsnefndar er slíkur háttur óþarfur, þ.e. að boðun fari fram með stefnuvottum.

Í nýrri löggjöf hér á landi á sviði réttarfars hefur dregið mjög úr fyrirmælum um birtingu tilkynninga og kvaðninga með stefnuvottum og er sú þróun í samræmi við breytingar á réttarfarslögum í öðrum ríkjum Norðurlanda og víðar þar sem notkun stefnuvotta hefur að verulegu eða öllu leyti verið aflögð. Sending tilkynninga með símskeytum eða ábyrgðarpósti hefur því verið metin nægjanleg í stað birtingar stefnuvotta og er áreiðanlega ákjósanlegri tilhögun fyrir margra hluta sakir.

Í 2. málsgr. 1. gr. frv. á þskj. 34 er gert ráð fyrir að dómhafi geti gert kröfu um aðför í þinglýstum og skráðum eignum dómþola mæti hann ekki við gerðina. Rétt sýnist að nema á brott þetta skilyrði um að eignarhald gerðarþola sé skráð með einhverjum tilteknum hætti. Gerðarbeiðandi ber ávallt fulla fébótaábyrgð á aðfarargerð og stæði því bótaskyldur gagnvart þriðja manni ef hann vísaði á eign hans til fjárnáms í misgripum. Ábending gerðarbeiðanda á eign gerðarþola hlyti eðli málsins samkvæmt aðeins að beinast að eignarréttindum sem gerðarbeiðandi telur fullvíst að heyri til gerðarþola, enda hefði gerðarbeiðandi enga hagsbót af því að benda á eign til aðfarar að öðrum kosti.

Regla 3. málsgr. 1. gr. frv. á þskj. 34 um upphafsstað aðfarargerðar sýnist óþörf breyting frá gildandi lögum. Heimildir eru til að hefja aðfarargerð á heimili gerðarþola, starfsstöð hans eða á þeim stað sem hann er að finna ef fógeta þykja ástæður til.

Í 2. málsgr. 34. gr. aðfararlaga er að finna reglu sem kveður svo á að það standi ekki í vegi aðfarar þótt dómþoli hittist ekki fyrr en við aðfarargerð. Er þar mælt fyrir um með hverjum hætti fógeti geti tilnefnt aðra menn til að taka málstað dómþolans við gerðina og er ákvæðið sýnilega miðað við aðstæður þegar aðfarargerð fer fram á heimili gerðarþolans. Þessari reglu þarf því að breyta til samræmis við annað sem lagt er til í frv.

Skv. 4. gr. frv. allshn. er svo 2. málsgr. 45. gr. laganna breytt og hún umorðuð til samræmis við það sem áður er sagt um sendingu tilkynninga, þ.e. með ábyrgðarbréfi.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir frv. því sem nefndin flytur á þskj. 523. Frv. er byggt á tillögum réttarfarsnefndar eins og áður sagði og fram kemur í nál.

Þótt hér sé um nýtt frv. að ræða frá því sem nefndin fékk til athugunar er þó tilgangi flm. þess frv. náð, þ.e. að aðför megi hefja á starfsstöð fógeta og að dregið sé úr kostnaði og tímasóun við aðfarargerðir.

Við 1. umr. þess máls lýsti hæstv. dómsmrh. því yfir að hann væri því fylgjandi að frv. í samræmi við álit réttarfarsnefndar yrði samþykkt. Frv. sem ég hef hér greint frá og allshn. flytur er í samræmi við það. Þar sem allshn. flytur þetta frv. og hefur að sjálfsögðu þegar rætt það til hlítar legg ég ekki til að frv. verði vísað til nefndarinnar heldur aðeins til 2. umr. að þessari lokinni.