03.02.1988
Neðri deild: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4172 í B-deild Alþingistíðinda. (2933)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Flm. (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um lánskjör og ávöxtun sparifjár sem ég flyt á þskj. 279. Þetta mál var lagt fram um miðjan desember, en þær miklu annir sem hér hafa staðið yfir síðan við að afgreiða mál ríkisstjórnarinnar hafa valdið því að ekki hefur verið mælt fyrir því fyrr. Það verður þó ekki sagt að það mál sem frv. fjallar um hafi verið í láginni í þjóðmálaumræðunni þessar vikurnar. Þvert á móti hafa ýmsir stjórnmálamenn keppst við að lýsa því kerfi, sem við búum við í peningamálum, sem óhæfu og hafa menn þá fundið sökudólginn í annars garði og keppst við eins og forðum að afneita eigin verkum. Sannleikurinn er sá að allir flokkar og stjórnmálamenn bera þarna meira og minna sameiginlega ábyrgð, en misjafna þó.

Lögin frá 1979, um verðtryggingu fjárskuldbindinga, voru sett í tíð vinstri stjórnar framsóknar, Alþfl. og Alþb., en sjálfstæðismenn voru þá í stjórnarandstöðu og greiddu atkvæði gegn ýmsum greinum frv. og sátu hjá við lokaafgreiðslu. Frá því lögin voru sett hafa allir flokkar staðið að ríkisstjórn án þess að hreyfa við þessu kerfi og bera þess vegna sameiginlega ábyrgð. Sá sem hér stendur getur heldur ekki skotið sér undan ábyrgð í þessu efni þótt hann ætti ekki frumkvæði að þessu í upphafi. Ég hef hins vegar eins og fleiri gagnrýnt þetta kerfi og svarað spurningum, m.a. á fundum í kjördæmi mínu, vafalaust eins og títt er í umræðunni hjá stjórnmálamönnum, með því að benda á vondu mennina í Seðlabankanum. En þeir sækja vald sitt til Alþingis og ríkisstjórnar á hverjum tíma og ráðherrar eiga að vera menn til að láta ríkisstofnanir vinna í takt við lífið í landinu. Það er á ábyrgð okkar, sem í þessu húsi störfum, ef við svo að auki látum haldast uppi ómanneskjulega framkvæmd laga.

Ég vildi í vaxtamálum ekki bara gagnrýna heldur gera tilraun til að vekja umræður með því að benda á nýjar leiðir þegar sýnt er í hvert óefni er komið. Með frv. þessu á ekki að ganga gegn sparifjáreigendum heldur að þeir verði tryggðir með gengistengingu langtímainnstæðna. En það er heldur ekki ætlunin með frv. að halda áfram að kollkeyra atvinnufyrirtækin og heimilin í landinu heldur þvert á móti.

Ég hef unnið að gerð frv. frá í haust. Hef ég fengið til liðs við mig hina hæfustu menn og getað byggt á rökstuddu áliti fjölmargra leikra sem lærðra. Þeirra á meðal eru athafnamenn, bankamenn, löglærðir menn og menn sérmenntaðir í hagfræði peningamála.

Frv. varðar breytingu á lögum nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, og lögum nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála. Síðarnefndu lögin hafa gengið undir nafninu „Ólafslög“, kennd við þáv. forsrh. Ólaf Jóhannesson. Meginmarkmið þeirra laga var að stöðva rýrnun sparifjár á órólegu verðbólguskeiði, en það hefur varla verið hugsun þeirra sem að lögunum stóðu að leyfa eða jafnvel lögleiða okurvexti í þjóðfélaginu.

Ólafslög nr. 13/1979 fela í sér verðtryggingu fjárskuldbindinga. Hún er í meginatriðum á þá lund að höfuðstóll skuldar breytist með verðlagsþróun sem mæld er með svonefndri lánskjaravísitölu. Grein nr. 33 í lögunum kveður á um að verðtryggingunni skuli komið á í áföngum fyrir árslok 1980. Ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens, sem ég átti þátt í að styðja til valda, framlengdi í byrjun árs 1981 aðlögunartíma laganna til loka þess árs. Jafnframt voru vextir af gengistryggðum afurðalánum lækkaðir úr 8,5% í 4% og almenn vaxtalækkun boðuð frá 1. mars sama ár að telja. Allt gekk skaplega í efnahagsmálum nefnt ár, 1981. Þegar full verðtrygging fjárskuldbindinga hófst hins vegar árið eftir, 1982, vegna þrýstings frá Seðlabankanum samfara almennum vaxtahækkunum fóru efnahagsmálin hins vegar úr böndunum. Atvinnuvegirnir þurftu gengislækkanir og launþegar urðu oft að fórna hluta af verðbótum á kaupgjald sitt. Frá september 1982 til sama tíma 1983 hækkaði lánskjaravísitalan um 96% þannig að skuldir þegnanna nær tvöfölduðust á einu ári.

Ætla hefði mátt að þessi dýrkeypta reynsla af verðtryggingu fjárskuldbindinga hefði nægt landsmönnum til skilnings á hættunni henni samfara. Svo varð þó ekki. Ráðuneyti Steingríms Hermannssonar reyndi að vísu að spyrna fæti við beinum vaxtahækkunum í byrjun ferils síns. Kaupgjaldsvísitalan var tekin úr sambandi en lánskjaravísitalan ekki. Þetta leiddi til greiðsluerfiðleika hjá íbúðaeigendum og byggjendum, síðan til verkfalla og grunnkaupshækkana.

Í ágúst 1984 voru vextir gefnir frjálsir. Afleiðingin sést best á því að á síðustu tólf mánuðum, desember 1986 til desember 1987, hafa vextir hækkað um liðlega 113%. Gengislækkun blasir við á ný svo og miklar kaupkröfur verkalýðshreyfingar og launþega almennt.

Hér er vert að undirstrika að staða okkar væri væntanlega allt önnur í dag ef ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefði borið gæfu til að afnema lánskjaravísitöluna um leið og kaupgjaldsvísitöluna. Liggur ekki líka fyrir til hvers vaxtafrelsið hefur leitt eða sú hliðarstarfsemi sem fram fer í peningakerfinu auk gráa markaðarins og okursins?

Spámenn vaxtastefnunnar boðuðu þróun til jafnvægis milli framboðs og eftirspurnar með hækkandi frjálsum vöxtum. Síðan þegar jafnvægi væri náð mundu vextir lækka og smám saman aðlaga sig vöxtum í frjálsum viðskiptalöndum okkar. Ég trúði á þetta og studdi því frjálsa vaxtastefnu. Reynslan hefur því miður orðið þveröfug við það sem gert var ráð fyrir. Óheyrilegur fjármagnskostnaður er við það að kollkeyra atvinnulífið og heimilin í landinu. Á gráa markaðnum er haldið fram að vextir séu allt að 100% og á svarta markaðnum allt að 300%. Okurvextirnir virðast því þrífast hvað sem lögin kveða á um. Og halda menn að jafnvægið komi ef við bíðum áfram eða er ástandið í dag jafnvægið sem hávaxtamennirnir voru að bíða eftir?

Við komum einmitt böndunum yfir verðbólguna í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ef þessir þættir peningamálanna hefðu þá fylgt með væri verðbólgan í dag ekki á hraðri uppleið. En það er eins og enginn þori að skera á meinið sem hrint var af stað 1979.

Og enn er okkur stöðugt að verða á. Við höfum verið þessar vikurnar að undanförnu að hjálpa verðbólgupúkanum við það að styðja skattkónginn Jón Baldvin í því að koma áfram matarsköttum og álögum á atvinnuvegina. Nú þurfti þvert á móti til að viðhalda fastgengisstefnunni að halda við í álögum á atvinnuvegina og heimilin með öllum tiltækum ráðum og ná í framhaldi af því hagstæðum kjarasamningum. Eitt af bestu meðulunum í þeirri baráttu er að ráðast á vextina og lánskjaravísitöluna, en eitt af verstu meðulunum voru matarskattarnir.

Finnar og Ísraelsmenn reyndu verðtryggingu peninga á sjötta og sjöunda áratugnum en gáfust upp á henni eftir 14–12 ár. Aðeins ríki Suður-Ameríku halda enn í þetta kerfi en flest er á heljarþröm vegna skuldaviðja. Á svipaðan veg er að fara fyrir okkur Íslendingum að óbreyttu. Lánskjaravísitalan hefur sprengt gjaldþol þegnanna. Sér í lagi á útflutningsframleiðslan undir högg að sækja því hún þarf að borga þrisvar til fjórum sinnum hærri vexti, 35–40% en viðskiptalönd okkar 8–11.

Reynt er að blekkja landsmenn með því að aðskilja svokallaðan verðbótaþátt með vöxtum og nefna vexti aðeins raunvexti, þ.e. vexti ofar verðbólgumörkum, en hvar þau mörk liggja er álitamál. Vextir eru samkvæmt skilgreiningu sú fjárhæð sem greidd er yfir ákveðið tímabil fyrir afnot peninga. Þar er ekkert undanskilið. Þannig hefur því ákvæði verið laumað inn í seðlabankalög nr. 36 frá 5. maí 1986 að raunvextir skuli vera sem næst slíkum vöxtum í viðskiptalöndum okkar. Það táknar að vextir hérlendis eigi að elta verðbólguna hver svo sem hún verður og raunvextir að bætast þar við, sbr. 9. gr. laga um Seðlabanka Íslands.

Það er að sjálfsögðu ekkert hægara fyrir atvinnureksturinn í landinu að borga hávexti í verðbólgu en í haglægð nema síður sé. I verðbólgu fara allir útgjaldaliðir hækkandi og kaupþrýstingur er mikill.

Sú forsenda hávaxta sem gefin var af stjórn bankamála, að þeir mundu minnka eftirspurn lána, þar með draga úr peningaframboði og verðbólgu, hefur reynst fölsk eins og áður er sagt. Það hefur reyndar verið vitað fyrir löngu og á það hefur verið bent æ ofan í æ af glöggskyggnum hagfræðingum. Fagna ber því að augu seðlabankastjóra og viðskrh. hafa loks opnast fyrir þessu ef marka má þá yfirlýsingu þeirra í Tímanum 16. des. sl. að hávaxtabremsan sé haldlaus. Hin forsenda hávaxta, að þeir auki heildarsparnað í landinu, er líka röng. Engin sönnun hefur nokkru sinni fengist fyrir slíku.

Með frv. sem hér er til umræðu er leitast við að sníða verstu gallana af peningakerfinu. Lagt er til að gengistrygging sé tekin upp í stað mánaðarlegrar vísitölutengingar og aðeins á langtímaskuldbindingum. Fast gengi er stjórnarstefna svo að meiri stöðugleiki á peningamarkaðnum ætti að sigla í kjölfarið. Ætlast er til að einungis opinberar gengisbreytingar verði teknar til greina, ekki smávegis gengissig eða aðrar slíkar leiðréttingar. Gengistenging fjárskuldbindinga dregur mjög úr viljanum til að lækka gengið. Veltuinnlán er ekki sparnaður heldur fé sem býður viðskipta- og gróðatækifæris í innlánsstofnunum. Sama gildir um almennar óbundnar bækur, jafnvel einnig þriggja mánaða eða sex mánaða bækur sem jafnan fást innleystar með nokkrum vaxtafrádrætti. Vinnulaun leggjast inn á þessar bækur og gjarnan bankalán til bráðabirgða. Aðeins langtímainnistæður til árs eða lengur eru raunverulegur sparnaður fólks sem leggur hluta tekna sinna inn á slíka reikninga til ávöxtunar.

Bundin spariinnlán jukust milli áranna október 1986 til október 1987 aðeins um 26% sem er minni upphæð en vextirnir sem bætast við innstæður.

Vaxtabreytingar hafa valdið tilfærslu peningaupphæða milli reikninga en heildarsparnaður í landinu sem prósenta af þjóðartekjum hefur verið fallandi í áratug. Stundaraukning spariinnlána verður skýrð með sveiflum í þjóðartekjum og með lánaþenslu. Gífurlegur kostnaður fyrir innlánsstofnanir er samfara ávísanareikningum og ber eigendum þeirra að bera kostnaðinn en ekki lántakendum. Í þessu sambandi má benda á þá staðreynd að bankakostnaður er fjórum til sex sinnum meiri hér en erlendis.

Sú hefur verið venjan, þegar maður kemur í banka, sparisjóði eða aðra lánastofnun og biður um peningalán, að spurt er um árstekjur og greiðslugetu. Eftir tilkomu lánskjaravístölu er þessi öryggisráðstöfun, sem er grundvöllur skilvísi, tilgangslaus. Lántakandinn veit ekki að hverju hann gengur. Það fer eftir duttlungum vísitölunnar á ókomnum árum. Sama gildir um þann sem gefur út verðbréf eða aðra pappíra. Hann hefur enga hugmynd um hvaða fjárhæð hann kann endanlega að vera krafinn um. Ef verðbréf er á föstum vöxtum og selt gegn afföllum veit útgefandinn að hverju hann gengur.

Margar fjölskyldur hafa misst heimili sín að undanförnu og mörg fyrirtæki, m.a.s. mörg stórfyrirtæki, hafa lagt upp laupana eða orðið gjaldþrota vegna lánskjaravísitölunnar. Sérstök hætta stafar af henni fyrir landsbyggðina þar sem fasteignaverð fylgir henni hvergi nærri. Sveitir og héruð kunna að eyðast og fólkið flosnar upp þegar skuldirnar hlaðast upp samkvæmt vísitölunni meðan markaðsverð eignanna stendur í stað eða jafnvel fellur. Ekki er eftir neinu að bíða ef koma á í veg fyrir óðaverðbólgu að nýju og fjárhagshrun eins og Suður-Ameríkuríki hafa orðið að þola, en þangað var fyrirmyndin sótt. Lánskjaravísitalan mælir verðlagsþróun ekki rétt og allt tal um raunvexti og samanburð á þeim við önnur lönd sem nota aðra viðmiðun er meira eða minna út í hött. Lánskjaravísitöluna verður að afnema án tafar en samræma vaxtastefnu okkar þeirri sem gildir í viðskiptalöndum okkar. Því aðeins að vextir séu hóflegir og stöðugir er nokkur von til þess að við vinnum bug á verðbólgunni til frambúðar.

Með leyfi forseta vil ég þessu næst lesa nokkrar tilvitnanir um áhrif hávaxta. Víglundur Þorsteinsson segir í Morgunblaðinu 20. mars 1986: „Hlutafélag þarf að greiða 20% raunvexti í arð til þess að standast samkeppni um fjármagn við banka sem býður 8% raunvexti.“ Og Davíð Scheving Thorsteinsson segir í sama blaði 23. mars 1986: „Ég lýsi mig hér með reiðubúinn til að lækka allar vörur fyrirtækisins um umtalsverðar fjárhæðir ef raunvextir verða lækkaðir á Íslandi og er þess jafnframt fullviss að allir aðrir iðnrekendur mundu gera slíkt hið sama.“

Afnám lánskjaravísitölu virðist eiga formælendur á ótrúlegustu stöðum. Þannig segir í forustugrein Morgunblaðsins 6. sept. 1985: „Annars vegar eru beinir vextir en hins vegar verðtrygging og vextir.“

— Enn fremur: „Hvaða tilgangi þjónar úr því sem komið er að halda í lánskjaravísitöluna þegar vaxtaákvörðun er ekki lengur miðstýrt? Þess vegna hlýtur það að vera íhugunarefni að afnema þetta tvöfalda kerfi. Það mundi einfalda mjög alla starfsemi lánastofnana. Það mundi einnig stuðla að friðsamlegri umræðu um vandamál húsbyggjenda.“ Svo mörg voru þau orð.

Þröstur Ólafsson segir í viðtali við Dagblaðið 8. nóv. 1985: „Mín tillaga er sú að leggja niður lánskjaravísitöluna og taka upp fasta vexti.“

Herra forseti. Að þessu mæltu vil ég lesa greinar frv., sem eru átta, og athugasemdir við hverja grein. „1. gr.: Seðlabanki Íslands getur að fengnu samþykki ráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að nafnvextir á útlánum verði eigi hærri en þeir eru í helstu viðskiptalöndum Íslands, svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána.“

Athugasemdir við 1. gr.: „Hún felur í sér breytingu á annarri mgr. 9. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Skv. 9. gr. þeirra laga ber bankanum að tryggja að raunvextir af útlánum innlánsstofnana verði eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum okkar. Það táknar að vextir af útlánum innlánsstofnana skuli elta verðbólguna, hver svo sem hún verður, og að raunvextir, eins og þeir kunna að vera í viðskiptalöndum okkar, komi þar til viðbótar.

Einmitt þessi skrúfuhækkun vaxta hefur verið helsti verðbólguvaldurinn hérlendis upp á síðkastið. Þess vegna er í 1. gr. kveðið á um að nafnvextir komi í stað orðsins raunvextir. Nafnvextir verða að vera svipaðir og í viðskiptalöndum okkar til að jafna samkeppnisstöðu hérlendra atvinnuvega við þá erlendu.“

„2. gr.: Við gildistöku laga þessara lækka nafnvextir á óverðtryggðum útlánum í áföngum þannig að þeir verði innan tólf mánaða frá gildistöku laganna sambærilegir við hliðstæða vexti í samkeppnislöndum okkar.“

Um 2. gr.: „Vextir af útlánum, sem ekki eru í viðjum verðtryggingar, séu lækkaðir þegar frá gildistöku laganna. Þetta er orðið aðkallandi eins og segir í greinargerð hér að framan. Hins vegar er óæskilegt að framkvæma snöggar vaxtabreytingar og því er lagt til að þær komi í áföngum.“

„3. gr.: Skammtímalán og lán að meðallengd, þar með talin rekstrarlán, afurðalán, persónuleg lán og víxlar, sem um er samið eftir gildistöku laganna, skulu fylgja sömu vaxtaprósentu og um getur í 2. gr.

Fasteignatryggð langtímalán, þar með talin lán til íbúðarhúsabygginga, fylgi einnig sömu vaxtaprósentu og um getur í 2. gr., þó með þeim fyrirvara að vextir af þeim mega að loknu vaxtaaðlögunartímabili vera allt að þremur prósentustigum hærri en vextir af skammtímalánum og lánum að meðallengd.“

Um 3. gr.: „Frá sama tíma sé að því stefnt að lágvextir gildi um öll skammtímalán og lán af meðallengd, þar með talin rekstrarlán, afurðalán, persónuleg lán og víxla. Vextir af þessum lánum hafa beinust áhrif á framleiðslukostnað í landinu og á samkeppnisstöðu atvinnuveganna út á við, svo og á verð vöru og þjónustu almennt. Skammtímalán eru lán til skemmri tíma en þriggja ára, en lán af meðallengd lán frá þremur og allt að tíu árum.

Varðandi langtímaíbúða- og fasteignalán, þ.e. lán til tíu ára eða lengur, er settur sá fyrirvari að þau megi vera á vöxtum allt að þremur prósentustigum hærri en almennir útlánsvextir. Þetta er í samræmi við hefðir sem gilda í vestrænum ríkjum. Miðað við aðstæður ytra núna væru vextir af þessum langtímalánum mest 15% á ári. Ætti að vera vel mögulegt að halda verðbólgu langt fyrir neðan þau mörk þegar vísitölufarganinu er aflétt.“

„4. gr.: Af spariinnlánum eftir gildistöku laganna greiðast til jafnaðar vextir einu prósentustigi neðar almennum útlánsvöxtum. Af tékkareikningum greiðast engir vextir.

Jafnframt skal heimilt vera frá gildistöku laganna að gengistryggja spariinnlán sem staðið hafa óhreyfð í eitt ár eða lengur. Sama gildir um spariskírteini ríkissjóðs, enda séu þau ekki til skemmri tíma en eins árs.“

Um 4. gr.: „Gengistrygging hæfir lengri tíma spariinnlánum. Hún sér fyrir því að króna sparifjáreigandans haldi verðgildi sínu þó að gengið sé lækkað af stjórn peningamála. Slík gengistrygging er óþörf á skammtímainnlán, sem bíða aðeins gróðatækifæris í bönkum eða sparisjóðum, enda er fjárvarsla innlánsstofnana mjög kostnaðarsöm, einkum varðandi ávísanareikninga. Kostnaður slíkra stofnana af hlaupareikningum er t.d. talinn nema 10% af meðalinnstæðu á þeim reikningum. Ekki tíðkast í vestrænum ríkjum að greiða innlánsvexti af veltiinnlánum. Það hjálpar bönkunum við að greiða hærri vexti af lengri tíma spariinnlánum.

Spariskírteini ríkissjóðs skulu vera gengistryggð, enda sé gildistími þeirra ekki skemmri en eitt ár. Þau geta gegnt miklu hlutverki við stjórn peningaframboðs og mega því hafa sérstöðu.

Önnur verðbréf og skuldabréf séu hins vegar ekki gengistryggð. Markaðsverð þeirra ákvarðast eftirleiðis af afföllum í stað verðtryggingar. Útgefandi veit þá frá byrjun að hverju hann gengur, en með verðtryggingu samkvæmt vísitölu er hann í stöðugri óvissu.“

„5. gr.: Seðlabanki Íslands ákveður í samráði við ríkisstjórn við hvaða gjaldmiðil eða gjaldmiðla skuli miða gengistryggingu skv. 4. gr. og sé hún nánar skilgreind í reglugerð.

Kostnað af gengistryggingu spariinnlána skal greiða að hluta til með gengishagnaði en að öðru leyti af viðkomandi innlánsstofnunum, með aðstoð ríkissjóðs ef þörf krefur. Ríkissjóður beri kostnað af gengistryggingu spariskírteinanna.“

Um 5. gr.: „Gengistrygging spariinnlána, sem staðið hafa óhreyfð í eitt ár eða lengur, skal nánar skilgreind í reglugerð svo sem segir í frumvarpinu.

Þannig skal t.d. ákveða við hvaða gjaldmiðil eða gjaldmiðla skuli miða.“

„6. gr.: Við gildistöku laga þessara hættir verðtrygging samkvæmt lánskjaravísitölu gagnvart öllum nýjum fjárskuldbindingum. Þar með falla úr gildi ákvæði VlI. kafla, 34.–47. gr., laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála. Enn fremur ákvæði annarrar mgr. 9. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986, svo og önnur lagaákvæði er kunna að stríða gegn lögum þessum.“

„7. gr.: Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd laga þessara.

8. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn.