03.02.1988
Neðri deild: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4179 í B-deild Alþingistíðinda. (2934)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Allt frá þingbyrjun hef ég leyft mér hér á hinu háa Alþingi að vekja athygli á því sem ég hef kallað mjög alvarlega þróun vaxtamála hér á landi. Um vextina hefur orðið nokkur umræða hér á þingi og ég tel þá umræðu sem nú er að hefjast um frv. hv. þm. Eggerts Haukdals af hinu góða, hefði hins vegar talið mjög æskilegt að einhverjir af ráðherrum hæstv. ríkisstjórnar hefðu verið viðstaddir þessa umræðu vegna þess að í henni munu væntanlega koma fram skilaboð til ráðherranna um álit þm. á þeirri vaxtaþróun sem hefur verið að eiga sér stað.

Ég vil taka það fram þegar í upphafi að innan þingflokks Alþfl. hefur orðið talsverð umræða um þessi vaxtamál og því er ekkert að leyna að innan þingflokksins hafa verið skiptar skoðanir um vaxtamálin. (Forseti: Ég vil benda á það vegna ummæla ræðumanns um fjarveru ráðherra að hæstv. viðskrh. er að mæla fyrir málum í Ed. og hefur verið þar síðan fundur hófst, en mun væntanlega koma til þessarar umræðu þegar hann hefur lokið því. Honum mun verða gert aðvart þegar hann hefur lokið sínum erindum í Ed.)

Herra forseti. Mér er í lófa lagið að koma því á framfæri við hæstv. viðskrh. sem ég segi hér, enda hefur hann heyrt rök mín flest sem snúast um það að ég hef hina mestu andúð á þeirri vaxtaþróun og þeirri hávaxtastefnu sem fylgt hefur verið hér á landi.

Ég hef m.a. bent á það að í öllum umræðum hagfræðinga og viðskiptafræðinga og manna sem fróðir eru um peningamálaþróunina bólar sáralítið á því að menn ræði hver áhrif háir vextir hafa á verðbólgu. Menn hafa snúið sér út úr þessari umræðu á ýmsan hátt, talað um vexti sem tæki til að stjórna fjármagnseftirspurn. Þó hefur komið í ljós að þrátt fyrir geysiháa vexti og vexti sem eru miklu hærri en viðgengst í okkar helstu viðskiptalöndum hefur eftirspurn eftir fjármagni á Íslandi sáralítið eða ekkert minnkað. Eftirspurnin er mjög svipuð og hún var þegar vextir voru helmingur af því sem þeir eru núna.

Ég vil í þessu sambandi benda á að þeir háu vextir sem við búum við eru tvímælalaus verðbólguhvati og fyrir því eru afskaplega einfaldar ástæður. Við skulum líta á þá þenslu sem hefur átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu á síðustu mánuðum og missirum, m.a. í smíði verslanahúsa og húsnæðis fyrir hvers konar viðskipta- og þjónustufyrirtæki. Þeir sem hafa tök á því að setja fjármagnskostnað og þar með vaxtakostnað út í verðlagið gera það. Þeir sem fara út í fjárfestingar umfram raunverulega getu, sem hefur gerst æðioft og mörg dæmi eru um, setja aukna greiðslubyrði út í verðlag. Við getum litið á þær stóru verslanahallir sem hafa risið á Reykjavíkursvæðinu að undanförnu og spurt: Hve stóran hluta af framkvæmdafé hafa eigendur tekið að láni, hver er vaxtabyrðin, hver er greiðslubyrðin yfir höfuð og hvert ætla þessir menn að sækja þá fjármuni sem fyrirtækin eiga ekki til að greiða með vexti og afborganir af lánum? Þeir sækja þessa peninga í verðið á vörunni sem þeir selja, í verðið á þjónustunni sem þeir selja.

Þetta finnst mér að mörgu leyti alvarlegasti þátturinn í þessari vaxtaþróun fyrir utan þau áhrif sem nú eru að koma í ljós hjá fyrirtækjum víða úti á landsbyggðinni. Ég spái því að innan fárra mánaða, ef haldið verður óbreyttri stefnu, eigum við eftir að horfa upp á mjög alvarlega hluti gerast víða á landsbyggðinni. Ég get nefnt sem dæmi þróun á Húsavík sem hefur komið mönnum býsna mikið á óvart. Þar eru fyrirtæki að leggja upp laupana: húseiningafyrirtæki sem sagði upp öllu sínu starfsfólki í síðustu viku, annað byggingarfyrirtæki sem horfir fram á stöðvun, erfiðleika kaupfélagsins á staðnum, m.a. vegna mikils vaxtakostnaðar og mikils kostnaðar á afborgunum af lánum sem félagið hefur tekið.

Þessu til viðbótar bætist vandi Fiskiðjusamlagsins á staðnum sem selt hefur allar sínar afurðir á dollaraverði og á núna í umtalsverðum erfiðleikum.

Ég segi það sem mína skoðun að menn vita raunverulega ekki hvað er fram undan í þessum efnum. Ég hygg að þessi staða sé uppi í miklu fleiri byggðarlögum en í því kjördæmi sem ég reyni að þjóna. Ég held að þetta eigi sér stað hringinn í kringum landið.

Ég vil í þessu máli taka fyrir nokkur atriði. Þegar komið var á verðtryggingu fjárskuldbindinga, sem var m.a. gert fyrir atbeina Alþfl. og sem er eðlileg ráðstöfun, var ævinlega talað um það sem hét hóflegir raunvextir ofan á verðtryggingu. Þegar menn ræddu hóflega raunvexti voru þeir að tala um vexti á bilinu 2,5 upp í 4%. Nú skulum við velta fyrir okkur: Hvers,vegna hefur þessi gífurlega hækkun vaxta orðið? Ástæðan er mjög einföld. Við höfðum farið af stað með markaðskerfi á miklum hraða og kannski án þess að undirbúa okkur nægilega vel, hefðum átt að fara hægar í sakirnar. Í þessu markaðskerfi hefur orðið til þríeinn þurs sem keppt hefur um sparifé landsmanna, um þá fjármuni sem í framboði eru á peningamarkaði hér. Í fyrsta lagi er það ríkissjóður Íslands sem hefur tilhneigingu til þess að afla lánsfjár innan lands og hefur gert það með því að bjóða tiltölulega háa vexti sem eru núna um 8,5%. Í öðru lagi er það bankakerfið sem keppir um fjármuni fólksins í landinu og býður háa vexti af ýmsu tagi. Í þriðja lagi er það verðbréfamarkaðurinn sem hefur fengið að starfa hér nánast alveg stjórnlaust og hefur ekki verið bundinn af lögum eða reglum af neinu tagi. Hann hefur hvorki þurft að hlíta bindiskyldu, upplýsingaskyldu, skráningarskyldu eða neinu sem verðbréfamarkaður erlendis verður að fara eftir.

Átökin um fjármunina í þjóðfélaginu hafa orðið geysileg. Þessir þrír aðilar hafa boðið upp vextina hver fyrir öðrum og eru allir jafnsekir. Ég hygg að eins og staðan er nú sé þessi peningamarkaður kominn í vítahring, kominn í blindgötu sem ekki er greið leið út úr. Menn hafa jafnvel gengið svo langt að segja að eina leiðin til að lækka vexti með raunhæfum aðgerðum sé sú að heimila erlendum bönkum að hefja starfsemi hér og bjóða fram fjármagn með tiltölulega lágum vöxtum til að neyða niður vaxtastigið hér innan lands. Ég hygg að ef að menn vilja stíga markaðsskrefið til fulls sé þetta í raun og veru ekkert vitlaus leið. Þegar menn fara að fjalla um hvernig unnt sé að lækka vaxtastigið finna menn enga auðsæja og þægilega lausn. Það er staðreynd þessa máls.

Auðvitað hefur Seðlabankinn í lögum heimild til að setja þak á vexti, en hann hefur ekki notað þessa heimild. Hann hefur ekki verið hvattur til að nota hana, en ég hygg að það kunni að vera í athugun um þessar mundir hvort ekki sé orðið tímabært að bregða einhverjum skildi yfir þessar miklu vaxtahækkanir.

Ég bendi á það eins og hv. flm. þessa frv. að hækkun vaxta frá 1. des. 1986, þegar auglýstir meðalvextir Seðlabankans voru 16,4%, og fram til 1. des. á síðasta ári, 1987, er þeir voru orðnir 35%, er tæplega 114%. Ég fæ ekki skilið hvaða tilgangi það þjónar eðli málsins samkvæmt að hafa vaxtastigið svona hátt á meðan við getum með verðtryggðum sparireikningum tryggt almenningi í landinu að sparifé þess rýrni ekki með hóflegum raunvöxtum. Auðvitað er sannleikurinn sá að við ráðum ekki lengur við þróun peningamarkaðarins. Við ráðum ekkert við hana. Stjórnvöld hafa tiltölulega fá tæki til að grípa inn í þá þróun sem hefur verið að eiga sér stað einfaldlega vegna þess að ríkisvaldið og Alþingi hefur afsalað sér réttinum með því að samþykkja markaðskerfið eins og það „fúngerar“ núna, afsalað sér réttinum til að grípa inn í atburðarásina. Og ég hygg að vopnin sem til eru til að berja á þessari vaxtaþróun séu núna tiltölulega .fá.

Í öðru lagi um háa vexti langar mig að nefna að dráttarvextir eru núna orðnir 4,3% á mánuði sem gerir 50% vexti á ári. Þessir vextir hvíla jafnt á skattskuldum almennings sem fallnar eru í eindaga og á gjaldföllnum víxlum og verðbréfum sem í bönkum og öðrum stofnunum eru. Fyrir utan þetta viðgangast miklu hærri vextir í þjóðfélaginu eins og á hinum gráa markaði þar sem vextir fara yfir 100%.

Ég er ekki að bölsótast yfir háum vöxtum til að gera hlut sparifjáreigenda lakari, alls ekki. Það sem ég er að reyna að benda á er að þörfin fyrir þetta háa vaxtastig er ekki fyrir hendi. Hún er ekki fyrir hendi. Hún hefur orðið þessi vegna þess að peningamarkaðurinn í landinu hefur verið látinn óáreittur í þeirri þróun sem hér hefur orðið á allra síðustu árum.

Það sem gerir þetta dæmi kannski enn lakara og verra er hin mikla hækkun sem orðið hefur á lánskjaravísitölunni og gerir almennum skuldurum enn þá erfiðara um vik að greiða sínar skuldir og að standa í skilum. Einfaldlega vegna þess að laun í landinu eru ekki vísitölubundin, en fjárskuldbindingarnar eru það.

Um þessi mánaðamót hækkaði lánskjaravísitalan um 2,35%, hafði áður hækkað um 5% yfir tveggja mánaða tímabil. Fólk sér á greiðsluseðlum frá bönkum þegar það greiðir af skuldabréfalánum að eftirstöðvarnar lækka ekki, þær fara núna stöðugt hækkandi. Vonleysið, sem grípur um sig, þekkja allir sem hafa orðið að reyna að greiða götu þess fólks sem er komið í öngstræti, fyllist angist vegna þess að það sér engan árangur af því að greiða af skuldunum sínum. Þetta er alveg skelfilegt ástand sem nær engri átt. Þetta bætist ofan á háu vextina og gerir greiðslugetu fólksins að engu. Þetta er líka eignaupptaka. Við töluðum um það á sínum tíma þegar lán voru ekki verðtryggð að við hefðum stolið sparifé gamla fólksins, sú kynslóð sem þá var að reisa sér þak yfir höfuðið, en hvað er að gerast núna? Nú hygg ég að við höfum snúið þessu dæmi við. Við erum að stela peningum frá þeirri kynslóð sem nú er að reyna að koma sér upp þaki yfir höfuðið og verður til þess að taka á sig umtalsverðar fjárskuldbindingar. Þessi eignaupptaka er kannski háskalegust úti á landsbyggðinni þar sem eignir eru í lágu verði en fólk er með tiltölulega há lán og í mörgum tilvikum komið með skuldirnar langt umfram það sem brunabótamat eða fasteignamat segir til um verðmæti húseignarinnar eða íbúðarinnar.

Ég vil líka nefna það sem mér finnst mjög alvarlegt mál og við þurfum að huga mjög vandlega að í þessum efnum. Það er sú gífurlega fjármagnstilfærsla sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu og blasir við augum á hverjum einasta degi hvert sem við lítum. Hverjir hafa hagnast á þessari gífurlegu vaxtasamkeppni þessara þriggja aðila sem ég gat um í upphafi? Það er fólkið sem átti peninga fyrir. Sumpart líka fullorðið fólk sem á sparifjárinnstæður og hefur getað notfært sér verðbréfamarkaðinn og harma ég það ekkert. Hins vegar hef ég miklu meiri áhyggjur af hinum stóru fjármagnseigendum sem spila á þennan markað eins og píanó, hagnast um milljónir á milljónir ofan, hafa umtalsverðar tekjur af þessu sem hinir skuldugu eru ávallt að greiða, ekkert síður fyrirtækin í landinu en einstaklingar.

Ég hef áhyggjur af þessu vegna þess að ég hef lúmskan grun um að hann stækki svo ört sá hópur sem nú á umtalsverða fjármuni að hann í raun gefi dauðann og djöfulinn í hvernig fer fyrir hinum sem minna eiga. Og ef við erum komin að þeim landamærum í þróunarsögu peningamála á Íslandi að hann sé orðinn stærri sá hópurinn sem á verulega fjármuni og ekki hefur áhyggjur af minni hlutanum, sem illa gengur í baráttunni á þessum fjármagnsmarkaði, erum við komin í mjög alvarlega stöðu.

Ég held líka að áhrif hávaxtastefnunnar hafi slæm áhrif á þrýstinginn á gengismálin. Ástæðan er afskaplega einföld og liggur í augum uppi ef menn hugsa um það. Fyrirtæki í útflutningsiðnaði, sem hafa farið út í fjárfestingar að undanförnu, hafa átt í enn þá meiri erfiðleikum, m.a. vegna gengissigs dollarans, en ella vegna þess að þau hafa orðið að greiða geysilegar fjárhæðir fyrir það fé sem þau hafa fengið að láni. Eitt dæmi: Fyrirtæki hér í Reykjavík í rafeindaiðnaði, sem greiddi 40 millj. á síðasta ári í laun, greiddi yfir 20 millj. kr. í vaxtakostnað, hafði að vísu fjárfest umtalsvert, en þessar gífurlegu vaxtagreiðslur eru að ganga af fyrirtækinu dauðu. Ég hygg að þetta eigi við um mörg fyrirtæki í útflutningsiðnaði, hvort sem það er rafeindaiðnaður, fiskiðnaður eða einhver annar iðnaður.

Ég hef nefnt áhrif háu vaxtanna á verðlagið. Áhrif hárra vaxta til hækkunar á verðlagi, til hækkunar á framfærslukostnaði heimilanna hljóta að verða þess valdandi að verkalýðshreyfingin gerir miklu harðari kröfur um launahækkanir en ella. Mér býður í grun að verðlag hafi hækkað miklu meira en við gerum okkur almennt grein fyrir vegna hinna háu vaxta sem síðan ýtir á eftir kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar um hærri laun til að greiða verðið á þessum vörum. Það er nefnilega á endanum þannig að hvað sem hagfræðingar segja og hverju sem þeir spá, spádómar þeirra hafa nú ekki alltaf verið mjög raunsæir eins og við höfum fengið að reyna af skýrslum Þjóðhagsstofnunar, verður það alltaf budda launamannsins sem segir til um hvernig afkoma heimilanna er.

Ég hef í þessu sambandi talsvert rætt um þátt einkageirans eða einkaframtaksins í þeirri peningamálaþróun sem hefur orðið hér að undanförnu, m.a. vegna tilkomu kaupleigufyrirtækjanna sem hafa hrúgað inn í landið fjármagni sem hefur raunverulega farið fram hjá stjórnvöldum og þau uppgötvuðu sér til mikillar undrunar að skiptir milljörðum króna og fór fram hjá öllu kerfinu, var notað til að auka þensluna í landinu og menn höfðu eða virtust ekki hafa neinar umtalsverðar áhyggjur af því að með þessu voru þeir að auka erlendar skuldir, auka á þensluna, auka á verðbólguna.

Ég tel að þær röksemdafærslur sem fram hafa verið færðar um að við verðum að hafa vexti í samræmi við það sem gerist í helstu viðskiptalöndum okkar séu löngu dauðar og ómerkar, einfaldlega vegna þess að við erum komnir með vaxtastigið langt umfram það sem þekkist í nokkru viðskiptalandi okkar.

Ég segi það sem klára skoðun mína í þessari umræðu um það frv. sem hér liggur fyrir að þingið sem heild ber ábyrgð á þessari vaxtaþróun og það verður að taka í taumana ef stjórnvöld ekki gera það sjálf. Ég hef meiri áhyggjur af þessu máli, vaxtamálinu, en langflestum peningalegum stærðum í samfélagi okkar um þessar mundir. Ég held að áhrif háu vaxtanna séu miklu alvarlegri fyrir atvinnureksturinn í landinu, fyrir einstaklinga, en nokkrar aðrar peningastærðir sem við er að glíma um þessar mundir. Þess vegna ber þinginu að taka á þessu máli og taka þá ábyrgðina á þessu máli ef ríkisstjórnin ekki treystir sér til að reyna að stöðva þessa vaxtaþróun og reyna að lækka vextina því að þetta mun ekki ganga mikið lengur. Ég hygg að atvinnureksturinn muni ekki standa undir þessum vöxtum, ég hygg að hann muni hrynja innan tiltölulega skamms tíma ef ekki verður gripið til aðgerða. Svona hár fjármagnskostnaður hefur t.d. í öðrum löndum, eins og Þýskalandi og Bandaríkjunum, svo ég nefni dæmi, hefur virkað eins og hemill á allt athafnafrelsi einstaklinga og fyrirtækja. Hann hefur valdið stöðnun. Gleggst er dæmið frá Bandaríkjunum, þegar Bandaríkjamenn ætluðu að fara hávaxtaleiðina og gerðu það, þegar um ein milljón húseigenda missti húsnæði sitt á tiltölulega skömmum tíma, fyrirtæki hættu að fjárfesta, fyrirtæki hættu að þróast og færa út kvíarnar. Þetta var hemill og það var dauðaástand í bandarískum atvinnurekstri sem skapaðist. Ég er mjög hræddur um að það líði ekki á löngu, ef ekki verður gripið til aðgerða, að þetta muni verða hér líka.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum öðrum um þetta frv. Ég hygg að Seðlabankinn hafi að hluta til heimild til að gera það sem farið er fram á í 1. gr. frv., en hún hefur ekki verið notuð.

Hv. þm. Eggert Haukdal minntist á hinn gífurlega bankakostnað sem við búum við, þjónustugjöld banka sem sumir segja að séu of lág, bankamenn a.m.k. segja sumir að þau séu ekki nema 30% af því sem bankarnir þyrftu að fá í þjónustugjöld sem núna eru greidd. Ég held að flestum þyki þau samt sem áður mjög há. Það leiðir hugann að því hvernig bankakerfið er upp byggt, fjölda banka, kostnaði við bankareksturinn og þörfinni á því að fækka bönkunum sem ég hygg að allir séu sammála um á hinu háa Alþingi en ekki hefur verið hrint í framkvæmd.

Ég vænti þess að sú umræða sem á eftir að fara hér fram um vaxtamálin renni stoðum undir þær skoðanir mínar og annarra að við séum komin á hættulega braut í þessum vaxtamálum og mér finnst að fleiri og fleiri skynji að vaxtastigið sé orðið allt of hátt og að í raun hafi það gerst hér, sem fáir höfðu nú spáð, að þrátt fyrir þessa háu vexti, sem áttu að stýra eftirspurninni eftir fjármagninu í þjóðfélaginu, hefur engin breyting orðið á eftirspurn eftir fjármagni. Mér segja til dæmis menn sem reka verðbréfamarkaði að aldrei hafi verið eins mikil eftirspurn eftir fjármagni og núna gerist. Og ég spurði einn: Hverjir eru að biðja um fjármagnið? Jú, það eru ýmsir sem eru að fara út í framkvæmdir.

En í mörgum tilvikum eru það líka atvinnurekendur sem eru að fara aðra umferð í slættinum, menn sem komnir eru í greiðsluvandræði vegna fyrri lána og eru að fara aðra umferð og eru að setja sínar eignir að veði en ekki fyrirtækin lengur vegna þess að þau duga ekki til. Þegar þetta kemur nú allt saman og nær hámarki, öll þau vandkvæði sem við er að stríða á þessum peningamarkaði, óttast ég og hef gert það lengi að hér verði stöðnun og hér geti orðið mjög alvarlegt ástand.