03.02.1988
Neðri deild: 55. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4185 í B-deild Alþingistíðinda. (2935)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. flm. frv. fyrir að hafa lagt þetta frv. fram. Það er nauðsynlegt að þessi mál komi til umræðu á Alþingi og hér er af mörgu að taka. Hv. síðasti ræðumaður ræddi mikið um vaxtamálin almennt og hina háu vexti og kom víða við og margt var rétt í hans frásögn. Hins vegar skulum við huga að lengra tímabili í vaxtastefnu þessarar þjóðar. Lengi höfðum við svo lága vexti að menn sóttust mjög eftir því að fá lán vegna þess hvað vextirnir voru lágir. Ekki af því að þeir þyrftu endilega lánin heldur að þeir gátu grætt peninga á því að taka lán með gjafvöxtum, ekki árum saman heldur áratugum saman. Það var því sjáanlegt að frá þessari stefnu varð að fara og endurskoða hana. Þegar það var gert var talað um raunvexti sem væru á bilinu 2–3,5% þegar það var upprunalega tekið upp. Inn á það var þá gengið. En við vitum líka að forsenda þess að hægt sé að halda vöxtum niðri er að halda verðbólgunni niðri. Vaxtakostnaðurinn, eins og síðasti ræðumaður sagði, fer í innlenda kostnaðinum út í verðlagið að einhverju leyti eða miklu leyti en ekki að öllu leyti. Samkeppnin í ýmsum greinum er svo mikil að hann fer ekki að öllu leyti, vaxtakostnaðurinn, út í verðlagið. Eftir sitja fyrirtækin með gífurlega háa vexti í brjálæðiskenndu kapphlaupi að sigra andstæðinginn þangað til það er oft og tíðum orðið of seint. Hins vegar koma þessir vextir harðast niður á útflutningsatvinnuvegunum sem geta hvergi tekið það annars staðar. Með þeirri fastgengisstefnu sem hefur verið við lýði alllengi hækka vextir útflutningsatvinnuveganna og eru orðnir allt of stór hluti af heildarrekstrarútgjöldum þeirra eins og maður sér núna daglega.

Ég tel að þar hafi verið gengið of langt og samhliða því að nú á að beita samdráttaraðgerðum í sjávarútvegi, í framleiðslu sjávarafurða, m.a. skv. nýsettum lögum um stjórnun fiskveiða, hljóta þær samdráttaraðgerðir að koma óskaplega hart niður á fyrirtækjum því vaxtabyrðar vegna fjárfestinga, sem hafa átt sér stað fram að þessu, lækka ekki þrátt fyrir samdrátt í framleiðslu og víðast hvar minnkandi veltu. Þetta hlýtur að auka áhyggjur okkar.

Í 1. gr. frv. er lagt til að kveðið verði á um að nafnvextir komi í stað orðsins „raunvextir“. Ég tel að við verðum að gæta þess að vaxtakostnaður fari ekki upp úr vaxtakostnaði í okkar nágrannalöndum, en við verðum líka að gæta þess að vextir séu ekki svo lágir að það sé hvati til að fara í alls kyns fjárfestingu í þessu landi. Það er eins og fyrri daginn vandratað meðalhófið. Alveg eins og við höguðum okkur eins og óvitar sennilega í rúma tvo áratugi með allt of lága vexti erum við núna komnir á ákaflega hættulega braut og verðum að taka mið af því.

En það er eitt sérkennilegt í fari þessarar blessaðrar þjóðar, að það biðja allir um lán og þeir eru afskaplega fáir sem spyrja hver lánskjörin séu. Það hafa sagt mér margir menn sem stunda bankamál og viðskipti að það séu varla meira en 2–3% sem spyrji hver séu lánskjörin heldur aðeins hitt: Fáum við lán? En það mega þó sumir eiga að þegar þeir eru komnir á hausinn segja þeir: Þetta var allt of dýr fjármagnskostnaður. En þeir átta sig yfirleitt ekki á því fyrr en að þeir eru steindauðir í viðskiptum. Þetta er eitt af því sem hefur fylgt þessari blessaðri þjóð og þeir sem eru að tala um annað eru sagðir ekki vera í takt við tímann.

Hv. síðasti ræðumaður sagði: Ja, áður var stolið af gamla fólkinu. — Í raun og veru er það rétt að vissu marki, en það var fyrst og fremst stolið af þeim sem voru að spara í þjóðfélaginu, á hvaða aldri sem þeir voru. Síðan það fór að vera þannig að sparifé fólks brann upp hættu margir að reyna að spara. Það er átakanlegt að vita að ef talað er um að einhverjar breytingar verði eins og á tollum eða söluskatti, jafnvel gengisbreytingar séu í aðsigi fær stór hluti þessarar þjóðar kaupæði. Ein verslun seldi, sá ég í blöðunum, 400 þvottavélar á tíu dögum í desember vegna tollabreytinga sem áttu sér stað hjá ríkisstjórninni alveg eins og hér fyrr á árum að við eina hressilega gengislækkun fóru eldri hjón og keyptu sér 50 kg sekk af kartöflumjöli. Á meðan þessi sýki heltekur þjóðina, þetta kaupæði, er ekki von á góðu.

Það sem er alvarlegast er tilfærslan frá útflutningsatvinnuvegunum til alls konar fjárfestinga, einkum á þessu svæði. Auðvitað eru óþarfafjárfestingar til einnig úti á landi á tilteknum stöðum og af tilteknu fólki, en útflutningsatvinnuvegirnir standa núna mjög illa og það vitum við. Og það er ekki lausn á vanda að sjá skrif ágætra manna um að leiðin til þess að komast hjá gengisbreytingu og styrkja sjávarútveginn sé að leggja auðlindaskatt á fiskistofnana þannig að það komi í veg fyrir að það þurfi nokkurn tímann að breyta gengi krónunnar. Auðlindaskattur verður aldrei annað en tekinn í sjávarútveginum sjálfum hver sem kaupir þar fiskinn. Það verður alltaf skattur á sjávarútveginn eftir sem áður. En hver á að leysa vanda refaræktarinnar, hver á að leysa vanda ullariðnaðarins, kísilgúrsins og allra annarra ef gengisstefnan verður óbreytt þrátt fyrir vaxandi verðbólgu?

Ég tek alveg undir það sem forsvarsmenn ríkisstjórnar, sem nú situr, hafa sagt, að forsenda þess að koma á jafnvægi í efnahagslífinu er að sigrast á verðbólgunni. Það er fyrsta atriðið. En við megum heldur ekki gleyma því að raunvextirnir hafa farið úr skorðum. Þeir hafa farið lengra en við ætluðum okkur og hugsuðum upphaflega. Við verðum að taka mið af því að við getum ekki gengið lengra en í vaxtastefnu nágrannaríkjanna og þó alveg sérstaklega og sér í lagi samkeppnisríkjanna. Þar verðum við að hafa jafna stöðu til að halda áfram eðlilegum viðskiptum og eðlilegri framleiðslu.

Ég sé ekki fram á annað en að við verðum að endurskoða vaxtastefnuna, bæði vegna þess sem út af hefur gengið og sömuleiðis verðum við líka að taka tillit til annarra þeirra aðgerða sem við höfum verið að gera og ganga frá eins og í sjávarútvegsmálum, í samdrætti í fiskveiðum af illri nauðsyn. Þó við deilum um aðferðina í því deilum við ekki um að við viðurkennum að við verðum að hafa stjórn á veiðum og við verðum að skapa þar aukið aðhald.

En víða má leita fleiri meinsemda en í vöxtum og vaxtastefnu. Það má leita þeirra meinsemda hve margir hafa reitt hátt til höggs, hve margir hafa farið í allt of stórar og dýrar framkvæmdir langt fram yfir það sem skynsamlegt getur talist.

Vegna starfs á öðrum vettvangi hef ég séð hrikaleg vandamál útflutningsatvinnuveganna í kringum allt land. Það veldur mér meiri áhyggjum nú en flest annað. Þar eru vextirnir einn þátturinn í þessu, en ekki allt. Ég get tekið undir margt af því sem síðasti ræðumaður sagði og við verðum að skoða þessi mál hleypidómalaust, en muna eftir því. Við héldum vöxtunum vitleysislega niðri lengi vel og fengum á okkur aukna verðbólgu og gremju þeirra sem spöruðu og sýndu varfærni í þjóðfélaginu. Við tókum upp nýja stefnu sem átti rétt á sér og sú breyting sem þá var gerð átti fullan rétt á sér. Það hefur ýmislegt komið upp í framkvæmdinni sem var miklu meira en við töldum eins og með kaupleigustarfsemina og annað. Það datt engum manni í hug að það yrðu jafnmikil umsvif og raun ber vitni á þessum örstutta tíma. Allt þetta ber að athuga í ljósi fenginnar reynslu og leiðrétta það sem miður fer og gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru fyrst og fremst með hagsmuni hins almenna borgara í huga og atvinnufyrirtækjanna og sér í lagi framleiðslufyrirtækjanna sem allt veltur á.

Ég endurtek að ég þakka flm. frv. fyrir að hafa flutt frv. Ég ætla ekki að fara efnislega út í það. Það er ýmislegt sem maður hefur við það að athuga. Það er líka ýmislegt við það sem er nauðsynlegt að athuga. Ég tel virðingarvert þegar þm. taka sig til og flytja sjálfstætt slík frv. en bíða ekki alltaf eftir því að ríkisstjórn með allan sérfræðingaskarann vinni hvert frv. í hendurnar á Alþingi.