04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4193 í B-deild Alþingistíðinda. (2938)

218. mál, staða ullariðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 490 hef ég leyft mér að bera fram við iðnrh. fsp. um stöðu ullariðnaðarins. Fsp. er svohljóðandi:

„Hverjar eru horfur í ullariðnaði á nýbyrjuðu ári og til hvaða aðgerða hyggjast stjórnvöld grípa til að bæta rekstrarstöðu hans?"

Sem kunnugt er, þá eru horfur í ullariðnaði landsmanna mjög dökkar um þessar mundir og þar hefur hallað undan fæti undanfarin tvö til þrjú ár sérstaklega, en á þessum tíma hafa 500–600 starfsmenn í ullariðnaði misst atvinnu sína, þar af um helmingur vegna þess að fyrirtæki hafa stöðvast, 13–14 talsins.

Hér er um að ræða starfsemi sem rekin er víða um land, ekki síst á þjónustustöðum sem ekki hafa aðgang að sjó, svo sem á Egilsstöðum, Vík í Mýrdal, Hvolsvelli og Selfossi, fyrir utan önnur fyrirtæki sem starfa á stöðum þar sem atvinnulíf er fjölþættara. Staða þessara fyrirtækja var kynnt með skýrslu frá hæstv. iðnrh. í nóvember 1987 og var dregin upp svofelld mynd, með leyfi forseta, í þessari skýrslu, þar sem segir:

„Árið 1986 voru fluttar út ullarvörur fyrir um 1 milljarð kr. sem var um 33% af heildarútflutningi iðnaðarvara án stóriðju. Um 60% þessa útflutnings eru unnin hjá sauma- og prjónastofum sem nú eiga í verulegum rekstrarerfiðleikum. Stöðvist þessi fyrirtæki er líklegt að verulegir fjármunir fari forgörðum, svo sem í fjárfestingu, þekkingu og viðskiptasamböndum.“

Ég vil bæta við atvinnu þess fólks sem starfar í þessum fyrirtækjum og margt hvert hefur ekki í önnur hús að venda að leita eftir atvinnu. Því er hér um stórmál að ræða sem snertir fjölda manns og fjölskyldur þeirra fyrir utan þá sem að fyrirtækjunum standa. Ég hef ekki heyrt mikið frá stjórnvöldum um þessi efni um aðgerðir til úrbóta og því er hér hæstv. ráðherra spurður til hvaða aðgerða stjórnvöld hyggist grípa til þess að bæta rekstrarstöðu ullariðnaðarins.