04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4197 í B-deild Alþingistíðinda. (2941)

218. mál, staða ullariðnaðarins

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft alvarlegu vandamáli sem ástæða væri til að ræða í miklu lengra máli, en ég vil þakka það að þessu hefur verið hreyft hér. Staða ullariðnaðarins er mjög alvarleg eins og stendur og ég þakka þær upplýsingar um ráðstafanir sem komu hér fram. En af því að ég hjó ekki eftir að það væri á það minnst vil ég koma að einu atriði í sambandi við rekstur þessara fyrirtækja, að skuldbreytingar og lánveitingar er ekki nóg. Það er líka fjármagnskostnaðurinn sem er að drepa þessi fyrirtæki ásamt gengisþróuninni sem við ráðum ekki sjálfir nema að litlu leyti. En ég vildi undirstrika það að miðað við þá vaxtaþróun í landinu sem verið hefur eiga þessi fyrirtæki sér ekki viðreisnar von.