04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4199 í B-deild Alþingistíðinda. (2944)

218. mál, staða ullariðnaðarins

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Varðandi orð hv. fyrirspyrjanda um Sovétsamningana, þá hafa stjórnvöld fylgst náið með þeim samningum, verið í sambandi við þá aðila sem hafa farið austur og rætt við innflutningsaðila í Sovétríkjunum. Hingað koma í lok þessa mánaðar samningamenn frá Sovétríkjunum og með þeim samningum eða tilraunum sem þá verða gerðar verður fylgst. Að sjálfsögðu verður gert það sem hægt verður til þess að ná fram viðunandi samkomulagi við Sovétmenn að því marki sem íslensk stjórnvöld geta lagt sitt lóð á þær vogarskálar og eðlilegt og heppilegt getur talist af hálfu þeirra sem leiða slíka samninga í nafni hins nýja fyrirtækis Álafoss.