04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4199 í B-deild Alþingistíðinda. (2945)

218. mál, staða ullariðnaðarins

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég kem hér aðeins upp til þess að gera athugasemd við athugasemd eins þm. sem kom hér upp, hv. þm. Jóns Kristjánssonar. Það er svolítið sérstakt þegar stjórnarþingmaður kemur upp í umræðu um mál eins og þetta og lýsir því yfir að aðalatriði þess hvernig komið er með þessa atvinnugrein, ullar- og prjónaiðnaðinn, sé stefna ríkisstjórnarinnar í sambandi við fjármagnskostnaðinn. Eitt af fyrstu verkum fyrri ríkisstjórnar, þeirrar ríkisstjórnar sem var forveri þeirrar ríkisstjórnar sem við búum við núna, var það að gefa vexti frjálsa, gapa þann fjármagnskostnað sem atvinnureksturinn í landinu býr við núna, ekki aðeins prjónastofurnar heldur allur annar framleiðsluatvinnuvegur. Mér finnst það furðulegt þegar stjórnarsinnar koma inn í umræðu eins og þessa, sem er takmörkuð við mjög stuttan tíma, og beinlínis lýsa vantrausti á stefnu ríkisstjórnarinnar.