04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4199 í B-deild Alþingistíðinda. (2947)

219. mál, rafskautaverksmiðja við álverið í Straumsvík

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 491 hef ég lagt fram svofellda fsp. til hæstv. iðnrh. um byggingu rafskautaverksmiðju við álverið í Straumsvík:

„Með hvaða hætti hefur Alusuisse staðið við ákvæði bráðabirgðasamnings við ríkisstjórn Íslands frá 23. sept. 1983 um að „gera hagkvæmnisathuganir á því að koma upp rafskautaverksmiðju á bræðslulóðinni og á stækkun steypuskála“, sbr. einnig „bréf um samkomulag“ milli ríkisstjórnarinnar og Alusuisse frá 5. nóv. 1984?"

Því er um þetta spurt að hér er um samningsbundin ákvæði að ræða sem tengdust viðræðum og samningum við Alusuisse í framhaldi af deilum við fyrirtækið um raforkuverð og yfirverð á aðföngum á árunum 1980–1983.

Fyrrv. ríkisstjórn gerði bráðabirgðasamning haustið 1983 þar sem þetta var eitt af skuldbindandi atriðum Alusuisse að gera þessar hagkvæmniathuganir á að koma upp rafskautaverksmiðju við álverið í Straumsvík. Þetta er ítrekað í sambandi við endurskoðun á raforkuverðssamningi Landsvirkjunar og Ísals í nóvember 1984.

Þegar fjallað var um endurskoðun á skattamálum og skattareglum milli Alusuisse og íslenskra stjórnvalda ári síðar, eða í nóvember 1985, innti ég eftir því hvað orðið hefði um efndir á þessu ákvæði og var því þá til svarað, að ekkert hefði enn gerst í þessu máli þrátt fyrir það að Alusuisse hefði skuldbundið sig enn og aftur til þess að eigi síðar en 1. jan. 1985 að hefjast handa um forathugun á hagkvæmni þess að koma upp rafskautaverksmiðju við bræðsluna sjálfa, og vísa þá til bráðabirgðasamnings.

Ég er ekki að leggja mat á það hvort það er skynsamlegt að reisa þessa verksmiðju, t.d. út frá mengunarþáttum og öðru slíku. En hér er um að ræða samningsbundið ákvæði og við hljótum að fylgjast með því hvort íslensk stjórnvöld fylgja því eftir að við þau atriði sé staðið.

Eins og menn muna voru það rafskautin auk súráls sem Alusuisse notaði í bókhaldsbrellum sínum til að hlunnfara íslensk stjórnvöld í sambandi við skattgreiðslur hér fyrr á árum og voru þar stórar upphæðir á ferðinni. Ég ræði það kannski aðeins frekar en ég bíð eftir svari hæstv. ráðherra.