04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4202 í B-deild Alþingistíðinda. (2949)

219. mál, rafskautaverksmiðja við álverið í Straumsvík

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra magurt svar. Ég hefði talið ástæðu fyrir hæstv. ráðherrann að fjalla um það mál sem spurt var um fremur en nota helminginn af tíma sínum til að tala um allt annan þátt, sem að vísu tengist álverinu í Straumsvík, en það er sennilega vegna þess að hann hafði lítið fram að færa um það hvernig íslensk stjórnvöld hefðu fylgt eftir samningsbundnu ákvæði við Alusuisse úr samningunum 1983 og 1984. Þetta er raunar í fullu samræmi við annað í samskiptum fyrrv. ríkisstjórnar og framhald virðist ætla að verða á því í samskiptum núv. ríkisstjórnar við Alusuisse.

Hæstv. ráðherra sagði í svari sínu að það hefði verið fallið frá því að fá hagkvæmniathugun frá Alusuisse. Hvers konar samskipti eru hér á ferðinni? Það er ekki einu sinni ástæða til þess að fá pappíra frá fyrirtækinu, frá þessum eiganda álversins í Straumsvík, um hagkvæmniathugun. Honum er bara sleppt við það. Það er sagt: Ja, þeir í Noregi sögðu að það borgaði sig ekki að fara út í þetta, og á þetta ætla íslensk stjórnvöld að treysta.

Síðan kemur hæstv. ráðherra hér og ræðir um skattasamningana og viðmiðunarverðið á rafskautum, sem var eitthvert mesta endemisákvæðið í þeim samningi sem gerður var í nóvember 1985 og hæstv. þáv. iðnrh. Sverrir Hermannsson undirritaði eftir allsöguleg samskipti við Alusuisse í þeim efnum. Og þar er nú málum hagað þannig, af því að hæstv. ráðherra vék að þessu, að íslensk stjórnvöld hafa ekki einu sinni möguleika á að endurskoða rafskautaverðið eða biðja um upplýsingar heldur verður að treysta á erlendan endurskoðanda í sambandi við rafskautaverð í tengslum við skattlagningu. Þetta ákvæði var með miklum fádæmum og er það enn.

Ég verð að segja það, herra forseti, að lítilþægni íslenskra stjórnvalda í þessu efni er vissulega í samræmi við margt annað sem snertir samskipti þessara aðila. En ég átti von á því að hæstv. núv. iðnrh. vildi taka á þessum málum af eitthvað meiri festu en forverar hans í fyrrv. ríkisstjórn.

Hæstv. ráðherrann minntist á stækkun álversins. Eins og menn muna var í bráðbirgðasamningi frá í september 1983 gert ráð fyrir stækkun álversins í tveimur áföngum og átti hinn fyrri að taka til starfa 1988. Og þetta var ein helsta röksemdin hjá íslenskum stjórnvöldum fyrir því að ekki var strekkt meira og látið meira reyna á hækkun á raforkuverði heldur en niðurstaða varð 1984.