04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4203 í B-deild Alþingistíðinda. (2951)

219. mál, rafskautaverksmiðja við álverið í Straumsvík

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þekki vel plötuna frá hv. þm. Sjálfstfl. um hinn mikla skaða sem orðið hafi varðandi erlenda stóriðju í landinu og drauma þess flokks um að koma upp erlendri stóriðju í landinu í vaxandi mæli vegna réttmætra aðgerða íslenskra stjórnvalda á árunum 1980–1983, þ.e. að láta álverið í Straumsvík og eiganda þess, Alusuisse, fylgja settum reglum, ekki aðeins íslenskum heldur alþjóðlegum í sambandi við viðskiptahætti. Það er von að ráðherrann minni á þetta hér eða hitt þó heldur.

Hæstv. forveri hans í starfi sem stendur hér í þingsal upplýsti það hér á Alþingi 1984 í umræðum um álverið í Straumsvík að hann hefði orðið þess var að málarekstur fyrri ára hefði á engan hátt dregið úr áhuga erlendra fyrirtækja á viðræðum við íslensk stjórnvöld. Þau orð liggja fyrir í þskj. En ég er ekki að syrgja það að ekki hafi verið dregnir að landi margir fleiri erlendir auðhringar til samskipta við Íslendinga á þeim árum sem síðan eru liðin.