04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4204 í B-deild Alþingistíðinda. (2952)

230. mál, innflutningur á gölluðum Subaru-bifreiðum

Fyrirspyrjandi (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 519 að bera fram svohljóðandi fsp. til viðskrh. og dómsmrh. um innflutning á gölluðum Subaru-bifreiðum:

„Hvers vegna var heimilaður innflutningur, skráning og skoðun á tjónabílum af Subaru-gerð sem ekki fengust skráðir í Noregi?"

Nokkuð er umliðið frá því að fsp. var borin fram þar til nú að henni er svarað á Alþingi og liggja til þess eðlilegar orsakir.

Á þessum tíma hefur það gerst að tjónabílarnir hafa allir verið fluttir til landsins og flestir afhentir nýjum eigendum þannig að þeir sem koma við sögu, innflytjendur, ráðherra og fleiri geta nú horft yfir afrek sitt og sagt eins og forðum: Sjá, það var harla gott.

Svo sem kunnugt er er hér um að ræða bíla sem lentu í flóði í Drammen í Noregi og sem ætlaðir voru til notkunar þar en fengust ekki skráðir eftir skemmdirnar. En Íslendingum var ekki ofgott að fá þá. Það mátti bara flytja þá til vanþróaðra landa og yfirvöld hér stimpluðu okkur sem molbúa og annars flokks þjóð og heimiluðu innflutning. En í þágu hverra? Varla kaupenda hér á landi þar sem afsláttur er sáralítill auk gallanna sem bílunum fylgja. Ekki var það í þágu framleiðenda sem kröfðust þess að bílarnir yrðu eyðilagðir og settir í brotajárn til þess að tryggt yrði að þeir yrðu hvergi seldir í heiminum. Ekki er það í þágu þeirra sem í umferðinni eru hér á landi, en það eru allir Íslendingar. Ekki er það sérstaklega í þágu 6000 Subaru-eigenda sem fyrir eru í landinu. Ekki er það í þágu Subaruumboðsins hér á landi, Ingvars Helgasonar hf. sem flytur inn viðurkennda bíla, án sjóbaðs. Ekki er það í þágu Félags ísl. bifreiðaeigenda sem mótmælti innflutningnum harðlega. Hins vegar hagnaðist erlent tryggingafélag og amerískt félag sem seldi fjórmenningunum íslensku tjónabílana, hver sem hagnaður þeirra er.

Er ráðherra ljóst að aldrei áður hefur framleiðandi vöru sem flutt er inn til landsins varað við henni og talið hana hættulega? Frá Bifreiðaeftirliti ríkisins bárust þær fréttir að það ætlaði ekki að skoða Subaru-tjónabílana vegna aðvarana framleiðenda og þeirra gagna sem frá þeim bárust. Hvernig stóð á því að Bifreiðaeftirlitið breytti skoðun sinni? Það þarf að upplýsa.

Nýjustu fregnir af þessu máli eru þær að á myndbandsspólu, sem mun verða afhent dómsmrn., kemur fram að Subaru-bílarnir voru næst sjónum þar sem flóðið var og fóru því langverst þeirra bíla er þarna voru. Allt sem sagt hefur verið um þetta mál af hálfu framleiðenda og umboðsins er því rétt. Það er lágreist ef Ísland á að vera bílakirkjugarður framtíðarinnar. Þurfa valdsmenn á Íslandi ekki að hugsa hærra?