04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4207 í B-deild Alþingistíðinda. (2956)

230. mál, innflutningur á gölluðum Subaru-bifreiðum

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Ég verð að játa það að mér finnst sú fsp. sem hér liggur fyrir mjög misvísandi og tel ástæðu til að benda flm. á að kynna sér báðar hliðar í þessum málum. Það geri ég vegna þess að fyrirspyrjandi er vandaður maður og vill hafa það sem sannara reynist.

Það kom í ljós við athugun Iðntæknistofnunar að það vatn sem flæddi á þessa bíla var undir mælieiningunni 393. Drykkjarvatn í Keflavík er af mælieiningunni 900 og í Grindavík 1200, sem segir okkur að samkvæmt þessu væri drykkjarvatnið í Keflavík og Grindavík gjörsamlega óneysluhæft.

Ég tel það meiri háttar mistök eða valdníðslu Bifreiðaeftirlitsins að neita að skoða bíla. Það er meiri háttar valdníðsla að mínu mati og ekki siðuðum mönnum til eftirbreytni. Það að neita að skoða bílana sýnir að viðskiptahagsmunir hafa verið teknir fram yfir annað. Eðlilegt er og var að mínu mati að skoða hlutina. Ef bílarnir reyndust skemmdir átti auðvitað að hafna þeim, en svo reyndist ekki vera. Þeir reyndust í mjög góðu lagi, eru í lagi og innflytjendur taka fulla ábyrgð á þeim.

Ég ítreka að þetta var ekki sjóflóð heldur vatnsflóð, sennilega minna en þeir bílar fengu á sig sem fluttir voru inn af Heklu. Ég er hér með álit frá Iðntæknistofnun sem segir þetta og það þarf ekki neinar fullyrðingar annars staðar frá vegna þess.